Arnbjörg Sveinsdóttir næsti ráðherra?

Það er með ólíkindum að sjá hversu mikinn áhuga Mogginn hefur allt í einu á Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni sjálfstæðismanna. Staksteinar hafa fjallað um hana upp á síðkastið og það verður að segjast eins og er að sú umfjöllun hefur ekki verið á jákvæðu nótunum. Ég hef þá kenningu að einhverjir vilji veikja Arnbjörgu í því ljósi að eitthvert rót sé framundan á ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins. Arnbjörg er náttúrulega mjög framarlega í röðinni ásamt Bjarna Benediktssyni þegar kemur að vænlegum ráðherraefnum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Það er tímabært fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fríska upp á ímynd sína hvað varðar áhrif kvenna á stjórn landsins. Arnbjörg myndi sóma sér vel í ríkisstjórn og ég hef fulla trú á að hún myndi skila góðu starfi þar. Það væri einnig akkur fyrir Norðausturkjördæmið að fá Arnbjörgu inn í ríkisstjórnina. Sérstaklega á þeim tímum sem eru mjög erfiðir fyrir mörg samfélög í því kjördæmi. Það virðist nefnilega vera staðreynd að 3. þingmaður Norðausturkjördæmis, Kristján Möller, virðist ná mjög takmörkuðum árangri í framgangi mála innan ríkisstjórnarinnar sem snerta mikilvæg málefni.

Ég er viss um að atorkusami kvenskörungurinn Arnbjörg Sveinsdóttir gæti miklu frekar náð fram málum á vettvangi ríkisstjórnarinnar enda nýtur hún víðtæks trausts og virðingar á vettvangi stjórnmálanna. Það er því að mínu mati ótvíræður kostur í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skipa Arnbjörgu Sveinsdóttur og Bjarna Benediktsson í ráðherraembætti ef breytingar eru þar á döfinni eins og margir leiða líkum að. Þannig gæti hin daufgerða ríkisstjórn hugsanlega rekið slyðruorðið af sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband