10.2.2008 | 16:38
Pólitískur óróleiki í Reykjavík og á landsvísu
Undirstaða þess að þjóðir nái árangri í því að bæta lífskjör er að pólitískur stöðugleiki sé fyrir hendi, enda höfum við Íslendingar skorað hátt á síðustu árum í þeim efnum. Pólitískur stöðugleiki tryggir nefnilega atvinnulífinu þau skilyrði að það geti dafnað, þannig batna kjör okkar allra og þannig hefur það verið í hátt í tuttugu ár.
Framsóknarflokkurinn var til dæmis í meirihluta í Reykjavíkurborg í frá 1994-2007 eða í 13 ár. Margt ávannst á þeim tíma til dæmis við uppbyggingu leik- og grunnskóla borgarinnar sem Sigrún Magnúsdóttir, framsóknarkona, vann ötullega að. En tímarnir í henni Reykjavík eru breyttir. Algjört öngþveiti er á hinu pólitíska sviði með ófyrirsjáanlegum hætti. Við hljótum því öll að vona að tímar stöðugleika við stjórn borgarinnar renni upp á ný, því staðan eins og hún er núna er óásættanleg.
Sama má segja um ríkisstjórnina. Við framsóknarmenn áttum gott samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í 12 ár, á því tímabili þar sem að lífskjör þjóðarinnar bötnuðu hvað mest. Það samstarf var með öðrum hætti en það sem einkennir samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar eru svo mörg að maður á hreint út sagt erfitt með að fylgjast með þeim öllum. Þetta hefur valdið því að stefna ríkisstjórnarinnar í mörgum veigamiklum málum er svo óljós að við það verður ekki unað. Það getur vel verið að það sé þetta sem Samfylkingin kallar samræðustjórnmál, en það er ekki góð tegund af pólitík þegar að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands tala í austur og vestur. Þannig hafa þeir vakið miklar væntingar hjá fólki í mörgum veigamiklum málum, eitthvað sem hugsanlega verður aldrei hægt að standa við. Ekki mun virðing stjórnmálanna aukast við það, svo mikið er víst.
Það er því nauðsynlegt að fá raunverulega stjórnendur sem taka á vandamálunum, bæði í Reykjavík og á landsvísu. Það er með ólíkindum að horfa upp á nýja ríkisstjórn leiða hjá sér mörg stór viðfangsefni sem víða blasa við. Það er einungis samstaða um eitt á þeim bænum; Að gera ekki neitt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook