Um réttindi verðandi foreldra og um lýðheilsu

Ég sendi tvær skriflegar fyrirspurnir til ráðherra í þinginu í dag. Sú fyrri varðar réttindi verðandi foreldra sem þurfa að sækja á fæðingardeildir utan síns sveitarfélags. Þróun mála hefur verið sú á síðustu árum að mörgum fæðingardeildum á landsbyggðinni hefur verið lokað. Konum í þeim byggðarlögum er því gert, 15 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag, að flytjast í byggðarlag þar sem að þessi þjónusta er veitt. Það er umtalsverður kostnaður sem þessu fylgir og tryggingakerfið kemur að mjög takmörkuðu leyti að kostnaðarþátttöku. Hér er að mínu mati um að ræða mál sem þarf að skoða út frá jafnræðissjónarmiðum að allir eigi að hafa sama rétt þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Ég vonast til þess að tryggingamálaráðherrann taki vel í að skoða þessi mál út frá þessu sjónarmiði.

Hin fyrirspurnin er til forsætisráðherra um lýðheilsu. Mjög viðamikil skýrsla var unnin árið 2006 um tillögur, sem voru yfir 60 talsins, um bætta lýðheilsu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Ég inni ráðherrann eftir því hvað líði starfi við að fylgja þeim tillögum eftir. Við lestur skýrslunnar sá ég að margt er hægt að gera betur í þessum málaflokki og ég bíð spenntur eftir svari frá forsætisráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband