Á að lækka skatta á lífeyrisgreiðslur og hvað um umboðsmann aldraðra?

Það er alltaf spennandi að fylgjast með því hvernig að stjórnmálamenn fylgja eftir hugsjónum sínum. Ég fletti í gegnum hluta af kosningaloforðum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar og leit þar á helstu forgangsmál flokksins. Því hef ég lagt tvær fyrirspurnir fram í þinginu sem fjalla um brot af forgangsmálum Samfylkingarinnar og því forvitnilegt að heyra hvernig að staða þeirra mála er.

Ég spyr Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra sem nú er komin með málefni aldraðra inn á sitt borð, um stofnun embættis Umboðsmanns aldraðra sem var eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar. Nú er það því á valdi Jóhönnu Sigurðardóttur hvað um þetta loforð verður og því væntanlega ekki langt í að þetta embætti verði sett á fótinn. Reyndar verð ég að geta þess að loforð Samfylkingarinnar í málefnum aldraðra hafa nú ekki beinlínis gengið eftir og mikil undirliggjandi óánægja gagnvart flokknum í röðum aldraðra og jú líka öryrkja. Það verður því fróðlegt að heyra svör Jóhönnu.

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fær fyrirspurn um hvort að hann hyggist beita sér fyrir því að lækka skatt á lífeyrisgreiðslur niður í 10%, rétt eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar. Þetta er eitthvað óljóst því ég sé ekkert um þetta í stjórnarsáttmálanum. Samt var málflutningur samfylkingarfólks á þann veg fyrir síðustu kosningar að þetta væri mál sem yrði að kippa í liðinn. Flokkurinn hlýtur því að hafa lagt þunga áherslu á það í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor að tekjuskattur lífeyrisgreiðslna myndi lækka í 10%. Nú eigum við eftir að heyra svör Árna Matt, en einhvern veginn grunar mig að Samfylkingin hafi ekki lagt neina áherslu á þetta mál við stjórnarmyndunina. En það mun koma í ljós fljótlega...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband