13.2.2008 | 17:43
Spil í kvöld með Gunnari Birgissyni
Í kvöld verður haldinn svokallaður Stjörnutvímenningur sem er mót sem haldið er í aðdraganda alþjóðlegrar bridgehátíðar sem haldin er hér á landi árlega. Hörku spilarar, íslenskir og erlendir, mæta til leiks og reyna með sér. Að þessu sinni eru gestir hátíðarinnar meðal annars núverandi heimsmeistarar í bridge, Norðmenn. En Stjörnutvímenningurinn er nokkurs konar upphitun á þessari bridgeveislu og ég ætla að leyfa mér að taka þátt í tvímenningnum í kvöld.
Ég er nú bærilega bjartsýnn á árangurinn í þessu móti því ég hef ekki spilað að viti í heilt ár. Eitt af því sem ég hef þurft að fórna síðustu mánuði er nefnilega að spila bridge. Ég hef alla tíð spilað mikið og tekið þátt í mörgum mótum ár hvert og gengið bara bærilega vel í þessari íþróttagrein. Hins vegar fer mikill tími í þetta sport og því bíður það betri tíma að hefja alvöru spilamennsku á ný.
Minn makker í kvöld verður Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi. "Það er gott að búa í Kópavogi".Við félagarnir erum nú ekki mjög samspilaðir en það verður fróðlegt að sjá hvernig mér mun ganga að eiga við íhaldsmanninn í kvöld. Gunnar er skemmtilegur spilari, spilar djarft á köflum og því oft spennuþrungið loft við spilaborðið þegar hann á í hlut. Síðast spiluðum við saman á Siglufirði síðastliðið sumar og nú er bara að sjá hvort að við sýnum aftur þau snilldartilþrif sem þá áttu sér stað. En allt er þetta meira til gamans gert. Ég á að minnsta kosti ekki von á því að við hirðum gullið í kvöld en við verðum örugglega skeinuhættir á köflum. Svo mikið er víst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Facebook