18.2.2008 | 22:30
Getur verið að nær ekkert hafi verið gert?
Eins og fram kom á blogginu mínu um daginn þá hef ég lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um eflingu lýðheilsu á Íslandi. Í september 2006 skilaði fagráð forsætisráðherra skýrslu þar sem að lagðar voru fram 67 tillögur, sem snerta flest öll ráðuneyti, um aðgerðir sem bæta lýðheilsu þjóðarinnar. Í DV í dag er svo fjallað um þessa fyrirspurn mína og meðal annars viðtal tekið við Þorgrím Þráinsson sem var formaður fagráðsins. Þegar hann var inntur eftir hvort að búið væri að koma einhverjum tillögum fagráðsins í framkvæmd þá sagði hann "eins og staðan er í dag þá er eins og hálfs árs starf faghópsins að engu orðið".
Í fréttinni kemur einnig fram að á þeim 17 mánuðum sem hafa liðið frá því að nefndin skilaði af sér þá hefur einungis ein tillagan komið til framkvæmda og það hafi verið Kaupþing sem hafi fjármagnað það verkefni sem snéri að koma upp matjurtargörðum í leikskólum landsins. Vonandi fæ ég önnur svör frá forsætisráðherranum en koma fram í þessari frétt en þessi ríkisstjórn hefur ekki beinlínis verið að fá þá dóma að það sé kraftur sem einkennir hennar störf. Þannig að ég er hræddur um að lítið hafi verið gert í þessum málaflokki síðustu mánuði enda er þessi ríkisstjórn sögð vera daufgerð og það mun kannski endanlega sannast þegar að Geir svarar þessari fyrirspurn?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook