Staða bankanna og hvað verður um Íbúðalánasjóð?

Nú í erfiðleikum bankanna, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, er rætt um að Íbúðalánasjóður hverfi nær alveg af húnsæðismarkaðnum og láti bönkunum það svið eftir. Þetta kemur fram í grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag. Nú er það svo að ég deili áhyggjum með þeim félögum af stöðu efnahagsmála hér á landi sem og stöðu bankanna. Þetta er í raun og veru í fyrsta skiptið sem eitthvert lífsmark virðist vera með stjórnarliðum í umræðunni um þessi mál. Ég tel að stjórnvöld geti gert margt til að styrkja stöðu íslenska fjármálamarkaðarins. Þar þarf fyrst að styrkja stöðu Seðlabanka Íslands, með samningum við aðra seðlabanka á Norðurlöndunum, þannig að bankarnir gangist í ábyrgðir hver fyrir annan bregði eitthvað út af. Það myndi styrkja stöðu Seðlabankans til muna. Það má einnig velta því fyrir sér hvað varð um tillögur um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð sem Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra lét vinna? En fyrst og síðast eru það batamerki á daufgerðri ríkisstjórn að öflugir stjórnmálamenn sem þeir Bjarni og Illugi eru skuli vera komnir fram á völlinn.

Hins vegar er ég algjörlega ósammála þeim félögum þegar kemur að málefnum Íbúðalánasjóðs. Nú á að draga verulega úr starfsemi Íbúðalánasjóðs ef marka má skrif þeirra félaga. Við framsóknarmenn stóðum vörð um starfsemi sjóðsins á síðustu árum sem hefur skilað almenningi þó mun lægri vöxtum en bankarnir hafa boðið. Hver væri staða húsnæðiskaupenda á markaðnum í dag ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við? Ég held að Samfylkingin sé að gefast upp í glímunni við Sjálfstæðisflokkinn um Íbúðalánasjóð, því miður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband