Hvenær á að lækka virðisaukaskatt af lyfjum?

Ég beindi fyrirspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í þinginu í morgun um lyfjaverð hér á landi og hvort hann væri reiðubúinn að afnema virðisaukaskatt af lyfjum, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar. Við framsóknarmenn viljum lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% niður í 7% og ályktuðum í þá veru á síðasta flokksþingi okkar. Því miður þá vildi Guðlaugur ekkert gefa út hvenær að skattar myndu lækka á þá nauðsynjavöru sem lyf eru. Í ljósi nýlegra yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar m.a. um lægri skatta á fyrirtæki þá er ljóst að það er ekki forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að lækka skatta á lyf.

Við framsóknarmenn beittum okkur fyrir því á síðasta kjörtímabili að ná samkomulagi við lyfjaheildsala sem hefur skilað sér í mun lægra lyfjaverði. Nú þarf að halda áfram að lækka lyfjaverðið og árangursríkasta leiðin í þeim efnum er að lækka skattlagningu á þessarar nauðsynjavöru.

Lækkun virðisaukaskatts á lyf myndi koma þeim best sem hvað höllustum fæti standa í þjóðfélaginu í dag, sjúkum, öldruðum og öryrkjum. Þessir hópar þurfa því miður að bíða þessarar kjarabótar um óákveðinn tíma. Ég sem hélt að það hefði verið forgangsmál allra flokka að bæta sérstaklega stöðu þessara hópa?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband