Góður dagur í Skagafirðinum

Við Bjarni Harðarson vorum gestir á stjórnmálafundi í gærkvöldi sem ungir framsóknarmenn í Skagafirði stóðu fyrir. Það er alltaf skemmtilegt að koma í Skagafjörðinn og hitta framsóknarfólk þar. Ég var í fjögur ár í námi við Fjölbrautaskóla N-Vestra og þekki því vel til mannlífsins í Skagafirðinum. Enda fengum við Bjarni ekki slæmar móttökur. Á góðu heimili á Króknum var boðið upp á dýrindis saltað hrossakjöt, í feitara laginu, sem er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Það var því á mörkunum að ég hefði verið fundarhæfur að lokinni máltíðinni, svo hraustlega var tekið til matar síns.

Fundurinn var í alla staði mjög góður, umræður hreinskiptar og fjörugar. Það er svo sem ekkert nýtt enda hefur Framsóknarflokkurinn ætíð haft mjög sterka stöðu í Skagafirðinum. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum fékk flokkurinn kjörna fjóra sveitarstjórnarmenn af níu. Margar góðar ábendingar fengum við Bjarni sem við munum hafa með okkur í veganestið og án efa taka eitthvað af þeim upp á vettvangi Alþingis. Sem sagt, mjög góður dagur að baki í Skagafirðinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband