Fyrirspurnir til menntamálaráðherra á þinginu í dag

Ég spurði Þorgerði í þinginu áðan út í þrjú málefni. Ég spurði að því hvað liði heildarendurskoðun á framfærslugrunni LÍN. Svar ráðherrans var að sú vinna hefði hafist 1. febrúar síðastliðinn. Ég náttúrulega fagnaði þessu og á fastlega von á því að sú endurskoðun muni leiða af sér bætt kjör námsmanna. Að minnsta kosti ef marka má loforð stjórnmálamanna í aðdraganda síðustu kosninga. Í umræðunni benti ég á þá nöturlegu staðreynd að um 700 manns bíða eftir húsnæði á Stúdentagörðunum, stór hluti þess hóps þarf því að leigja sér húsnæði á almennum markaði og allir vita að þar er ekki um neinar smá upphæðir að ræða. Ég tel að margt í framfærslugrunninum þarfnist endurskoðunar við og vonast eftir breytingum sem munu leiða til betri lífskjara námsmanna.

Ég spurði svo ráðherrann út í ókeypis námsbækur við framhaldsskóla. Ekkert bólar á því loforði Samfylkingarinnar. Það er því nú þegar búið að svíkja þau ungmenni sem eru að útskrifast úr framhaldsskólum í vor. Einhver þeirra hafa áreiðanlega kosið Samfylkinguna sérstaklega út af þessu loforði. Samfylkingarfólk sagði nefnilega þessum hópi ungmenna að þetta væri forgangsverkefni sitt, kæmust þau í ríkisstjórn. Það sem kom mér á óvart í umræðunni var að menntamálaráðherra varði Samfylkinguna út í eitt í umræðunni og sagði að ekkert hafi verið svikið af hálfu Samfylkingarinnar. Þó bólar ekkert á ókeypis námsbókum í þetta árið, þrátt fyrir forgang Samfylkingarinnar! En þetta er kannski raunsönn mynd af sambandi ríkisstjórnarflokkanna? Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega reiðubúinn að ganga málefnalega fyrir björg til varnar Samfylkingarinnar. Gat Þorgerður Katrín ekki leyft Samfylkingunni að sitja uppi með þetta vandræðamál?

Ég spurði líka hvort að ráðherrann væri viljugur að beita sér fyrir að á ný yrðu stofnuð heildarsamtök framhaldsskólanemenda, en þau voru lögð niður fyrir tveimur árum. Ég var eitt sinn formaður nemendafélags og man þá tíð að þar voru öflug samtök á ferð sem að stóðu vörð um hagsmuni framhaldsskólanemenda. Í dag eru til Samtök íslenskra framhaldsskólanemenda sem eru hagsmunasamtök nemendafélaga í nokkrum framhaldsskólum. Fram kom hjá Þorgerði að búið væri að gera samning við þessi samtök nemenda. Við lýstum bæði þeim vilja og von okkar að þessi samtök þróist í þá átt að verða heildahagsmunasamtök framhaldsskólanemenda hér á landi. Það væri skref í rétta átt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband