12.3.2008 | 15:52
Atvinnumál í Fjallabyggð og Norðurþingi
Ég kom að norðan í nótt að afloknum góðum bæjarstjórnarfundi. Fjallabyggð er eins og aðrar sjávarbyggðir nú á fullu í því að móta sér framtíðarsýn í atvinnumálum og það veitir svo sannarlega ekki af því. Á fundinum afgreiddum við formlega stuðning Fjallabyggðar við álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Það er mikilvægt í máli sem þessu að landsbyggðin standi saman í atvinnuuppbyggingu sem þessari. Mér er það enn í fersku minni, á kjördæmisþingi okkar framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fyrir 3-4 árum, þegar að rætt var um þingsályktunartillögu mína um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð að þá voru það Þingeyingar sem stóðu fast á því að af þessari uppbyggingu yrði. Það mál er nú sem betur fer í augsýn, skólinn mun verða stofnsettur haustið 2009.
En aftur að bæjarstjórnarmálunum. Þær hugmyndir sem nú eru uppi í atvinnumálum eru um margt mjög frumlegar og ljóst að það er ekki neinn uppgjafartónn í Fjöllungum, þrátt fyrir erfiðleika í sjávarútvegi. Nú framundan er samstarf við stjórnvöld um þær hugmyndir sem nú eru uppi. Ég á von á því, miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, að góð samstaða verði á milli Fjallabyggðar og stjórnvalda í þeirri atvinnusköpun sem framundan er. Ég ætla ekki að draga dul á að staðan í atvinnumálum hefur verið mjög erfið á síðustu árum í sveitarfélaginu, það væri blindur maður sem ekki sæi það. En ég er í dag mun bjartsýnni á stöðu mála í Fjallabyggð enda margt framundan sem getur skapað ný og fjölbreytt störf í sveitarfélaginu.
Þegar kemur að þessum málum er mikilvægt að stjórnmálamenn rífi sig upp úr hinu hefðbundna þrasi dægurstjórnmálanna og standi saman að þeim verkefnum sem nú þarfnast úrlausnar. Slík samstaða er forsenda þess að vel takist til að mínu mati. Þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig að málum mun reiða fram á næstunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook