12.3.2008 | 18:45
Röð vonbrigða í dag
Það er leiðinlegast og hvað mest niðurdrepandi í starfi þingmanns að þurfa að horfa upp á mál sem eru brýn og þarfnast nauðsynlega úrlausnar við, en ekkert á að gera. Hvað þá að horfa til málaflokka þar sem ráðamenn höfðu uppi hástemmd loforð í aðdraganda síðustu kosninga, en trúlega á ekkert að gera. Slíkur dagur var í dag, þar sem að ég beindi nokkrum fyrirspurnum til ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Heilbrigðisráðherra ætlar ekki að beita sér sérstaklega fyrir því að koma til móts við kostnað foreldra sem þurfa að sækja á fæðingarþjónustu utan sinnar heimabyggðar. Fæðingardeildum hefur fækkað mjög mikið á undanförnum árum og búið er að loka þeim í mörgum bæjarfélögum á landsbyggðinni. Það er gert í ljósi meiri sérhæfingar við fæðingarþjónustu hér á landi sem á oft á tíðum rétt á sér. Hins vegar þarf þá að bregðast við þeirri þróun og þeim kostnaðarauka sem þessu fylgir fyrir margar fjölskyldur. Um er að ræða um 400 fjölskyldur á ári sem verða fyrir miklum útgjöldum vegna þessa þar sem að barnshafandi móðir þarf að yfirgefa sína heimabyggð hálfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Margar fjölskyldur þurfa því að vera 3-4 vikur að heiman sem eins og áður sagði fylgir mikill kostnaður. Ég spurði ráðherrann hvort að hann vildi beita sér fyrir því að leiðrétta þann aðstöðumun sem að þessu fylgdi en fékk dræm svör. Hér er því ekki verið að gæta þess að allir njóti jafnræðis gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Því miður.
Í fyrirspurn til félagsmálaráðherra um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra kom nú fram mun minni áhugi hjá Samfylkingunni að standa við það kosningaloforð. Þetta var eitt af helstu kosningamálum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar en nú er öldin önnur og benti ráðherra á að það ætti eftir að ræða þetta mál við sjálfstæðismenn. Það hefur greinilega ekki verið á oddinum hjá Samfylkingunni að ræða þetta við gerð stjórnarsáttmálans þrátt fyrir að um helsta kosningamál flokksins væri að ræða. Merkilegt hvað Samfylkingin hefur breytt um áherslur í mörgum málum eftir kosningar!
Ég spurði Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, út í eflingu á starfsemi Náttúrufræðistofnunar á Akureyri. Þar eru einungis 6 starfandi í dag í leiguhúsnæði á Borgum, en leikandi væri hægt að fjölga starfsmönnum upp í 14. Svo mikið er starfsrýmið. Reyndar eru auglýsingar í gangi vegna tveggja stöðugilda þar sem að tveir hafa nýlega hætt störfum hjá stofnuninni. Ekki skortir á verkefnin í þessum málaflokki og ég benti á loforð Samfylkingarinnar um fjölgun á opinberum störfum og líka um áform stjórnvalda að fjölga störfum í byggðarlögum sem að hafa orðið illa úti vegna aflasamdráttar þorsks. Það á svo sannarlega við um Akureyri. Ráðherrann tilkynnti að eitt starf yrði sett á laggirnar í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Ég hvatti hana til dáða og benti á þá dapurlegu staðreynd að hún hefði lagt niður starf forstöðumanns Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar á Akureyri og flutt til höfuðborgarsvæðisins. Einnig hefur Lýðheilsustöð sagt upp samstarfssamningi við Háskólann á Akureyri. Einnig þyrfti að ræða ráðningu forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs, en það verður gert síðar. Þessi ríkisstjórn þarf því, eins og ég hef áður bent á, að girða upp um sig þegar kemur að byggðamálum!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:51 | Facebook