Kosningaloforðin standa í björtu báli

Á Alþingi í morgun auglýsti ég eftir "Fagra Íslandi" og "stóriðjustoppinu" sem að Samfylkingin hélt á lofti fyrir nokkrum mánuðum. Það voru nefnilega ekki neinar smá yfirlýsingar sem að þá komu úr þeim herbúðum að nú þyrftu stjórnvöld að grípa í taumana og ná stjórn á þessum málum, það væri ekkert mál ef vilji væri fyrir hendi. Nú er Samfylkingin bæði með umhverfis- og iðnaðarráðuneytið og "Fagra Ísland" er gleymt og grafið. Einnig hélt Samfylkingin því fram, að kæmi til áversuppbyggingar, að þá væri það staðföst stefna á þeim bænum að sú uppbygging yrði á Bakka við Húsavík. Síðan, eftir kosningar, hefur umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir lagt sig fram við að tala þá framkvæmd niður.

"Fagra Ísland" er gleymt og ekkert verður "stóriðjustoppið" eins og Samfylkingin lofaði (sem ég var nú ekki sammála), og ekki er álver á Bakka neitt forgangsverkefni. Þessi kosningaloforð flokksins, ásamt svo mörgum öðrum, standa nú í björtu báli þannig að lítið er eftir af hugsjónum Samfylkingarinnar nema kannski örlitlar brunarústir. Þetta er staðan í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Ég sem hélt að Sjálfstæðisflokknum einum væri treystandi til að leiða atvinnuuppbygginguna á Bakka við Húsavík? Það var að minnsta kosti málflutningur sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fyrir einu ári eða svo.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband