14.3.2008 | 15:09
Loforð Kristjáns Lúðvíks Möllers um Vaðlaheiðargöngin
Hér á þessum vettvangi hefur með reglubundnum hætti verið minnst á málefni Vaðlaheiðarganga. Það er því fagnaðarefni að loksins nú skuli koma yfirlýsingar frá samgönguráðherra um hvenær eigi að hefjast handa. Vorið 2009 eiga framkvæmdir að hefjast og veggjald verður innheimt þegar að umferð verður hleypt á.
Til upprifjunar vil ég halda því til haga að Kristján Möller sagði í aðdraganda síðustu kosninga að hann vildi hefja framkvæmdir strax, þannig að hægt væri að opna Vaðlaheiðargöngin um áramótin 2009-2010. Hann hamraði líka á því að gjaldfrjáls göng væru jafnræðismál og að sjálfsögðu ættu Vaðlaheiðargöng að vera gjaldfrjáls. Þetta var aðal kosningaloforð Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.
Það stendur því ekki steinn yfir hjá ráðherranum þegar kemur að þessu kosningaloforði, og reyndar er það svo í mörgum öðrum málum. Hvernig ætli standi á því að hinir vökulu fjölmiðlar skuli ekki standa betur vaktina þegar kemur að því að bera saman öll loforðin og síðan efndirnar? Af nógu er að taka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Facebook