Stórveisla í Dalvíkurbyggð

Ég var í stórveislu í Dalvíkurbyggð í gærkvöldi en þá héldu heiðurshjónin og góðvinir mínir þau Haukur Snorrason og Katrín Sigurjónsdóttir upp á afmæli sitt, 50 og 40 ára eru þau á þessu ári. Mikill fjöldi kom og samfagnaði með þeim og taldist mér að um 200 manns hafi verið í veislunni, sem var náttúrulega öll hin glæsilegasta. Boðið var upp á dýrindis fiskisúpu, skemmtiatriðin tókust í alla staði vel upp, ræðurnar sem voru fluttar voru heldur ekki of langar eða of margar.

Það var auðséð á veislugestum að vinahópur þeirra hjóna er fjölbreyttur. Hauk og Katrínu hef ég þekkt til nokkurra ára í gegnum starfið í Framsóknarflokknum. Bæði hafa þau lagt flokknum mikið lið og verður seint hægt að telja allt það  upp sem þau hafa lagt af mörkum á þeim vettvangi. En fyrst og fremst hafa þau þó unnið sínu samfélagi vel með því að skorast ekki undan því að takast á við þau verkefni sem þarf að leysa. Þetta er mikið kjarnafólk.

Það var því meiriháttar að koma til Dalvíkur í gær, í sólskini þar sem allt var snjóhvítt frá fjöru og upp á efstu tinda. Dalvík hefur eitt fegursta bæjarstæði landsins að mínu mati, hvað þá í veðri líkt og var í gær! Ekki spillti svo mannfólki fyrir, félagsskapurinn í gærkvöldi góður. Margir vinir og kunningjar sem hittust og gerðu sér glaðan dag. Dagurinn í gær var því mjög eftirminnilegur. Haukur og Katrín, takk kærlega fyrir mig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband