15.4.2008 | 11:18
Máttlaus, aðgerðalaus og daufgerð ríkisstjórn - á ferð og flugi
Alveg er það merkilegt með ríkisstjórnina, nú þegar ein alvarlegasta kreppa síðari ára dynur á landsmönnum, að þá er bara lagst í ferðalög. Ríkisstjórnin hefur meira eða minna verið erlendis að undanförnu og notað til þeirra ferðalaga mismunandi farkosti eins og alþjóð veit. Á meðan sjáum við í fréttum að ríkisstjórnir annarra landa sitja neyðarfundi til að leysa erfiðleika í fjármálalífi sinna landa. Taka má sem dæmi Bandaríkin og Bretland. Þar koma ráðamenn fram með reglubundnum hætti og senda skýr skilaboð um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. En hér á landi liggur ríkisstjórnin undir ámæli frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum um að lítið heyrist frá stjórnvöldum og það sé óskýrt hvað stjórnvöld ætli að gera til að bæta stöðu þjóðarbúsins, hag almennings og fyrirtækja.
Þessi sofandaháttur hefur meðal annars valdið því að horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar hafa versnað að mati þessara greiningarfyrirtækja sem getur valdið því að lánshæfismat ríkissjóðs verði lækkað. Reyndar bendir margt til þess að tap ríkissjóðs á þessu ári geti orðið 60-100 milljarðar að öllu óbreyttu.
Það hlýtur því að vera krafa okkar allra að stjórnvöld vakni af dvalanum og komi með einhverjar tillögur til að styrkja tiltrú alþjóðasamfélagsins á Íslandi, staðan virðist versna dag frá degi. Og með hverjum deginum sem líður er þörf á kostnaðarsamari aðgerðum stjórnvalda. Þessi daufgerða ríkisstjórn er að verða þjóðinni dýrkeypt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook