7.5.2008 | 19:51
Fréttastofa stöðvar 2 er stjórnmálaflokkur!
Yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að Fréttastofa stöðvar 2 sé stjórnmálaflokkur er um margt athyglisverð. Ástæða þessara hrokafullu ummæla er eftirfylgni fréttastofunnar vegna eftirlaunalaganna umdeildu. Formaður Samfylkingarinnar var, í aðdraganda síðustu kosninga, með miklar yfirlýsingar um að þessum lögum yrði breytt snarlega kæmist Samfylkingin í ríkisstjórn. Þegar þetta er svo rifjað upp og spurt um efndirnar, sem er náttúrulega hlutverk fjölmiðla, þá fá fréttamenn svar sem þetta.
Nú væri hægt að ganga að formanni Samfylkingarinnar í mörgum öðrum málum. Tökum nokkur dæmi: Fagra Ísland, miklu hærri skattleysismörk, kjör lífeyrisþega, störf án staðsetningar, traust og ábyrg efnahagsstjórnun, ókeypis skólabækur í framhaldsskólum, gjaldfrjáls göng fyrir vestan og norðan o.s.frv. Hvernig myndi ráðherrann svara fréttamönnum ef þeir voguðu sér að spyrja um framgang þessara mála? Nú skulu blaðamenn sko bara passa sig. Þetta er nýja strategía Samfylkingarinnar til að hafa áhrif á umræðuna.
Framsóknarflokkurinn vildi á síðasta kjörtímabili breyta eftirlaunalögunum, það náðist því miður ekki sátt um það á milli stjórnmálaflokkanna. Ég er á því að þessu þurfi að breyta þannig að þessi réttindi séu jöfnuð á við aðra þjóðfélagsþegna. Reyndar þarf einnig að jafna kjör og réttindi á öðrum sviðum. Þar mætti nefna mun á opinberum starfsmönnum og þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en það er önnur saga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Facebook