Góðar fréttir úr Bolungarvík og Fjallabyggð

Stórfelld uppbygging fer nú að eiga sér stað í ferðamálum í Bolungarvík. Framsæknir Bolvíkingar hafa gert samning við eina stærstu ferðaskrifstofu Þýskalands til 5 ára upp á 400 milljónir króna. Byggja á 20 hús, í burstabæjarstíl, og smíða á 20 báta. Samningurinn mun breyta ásýnd Bolungarvíkur að sögn Soffíu Vagnsdóttur sem er hluthafi í Kjarnabúð ehf. Ég óska Bolvíkingum til hamingju með þetta. Þetta er það sem koma skal.

Í Fjallabyggð er verið að vinna að hugmyndum í svipuðum dúr. Mikil áhersla er lögð á uppbyggingu ferðamála í sveitarfélaginu enda um eitt aðaláherslumál bæjaryfirvalda að ræða. Margar hugmyndir eru uppi á borðum sem verið er að vinna að sem ég hef sannfæringu fyrir að geti breytt ásýnd sveitarfélagsins og um leið stuðlað að blómlegu mannlífi í framtíðinni.

En sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum geta ekki staðið að slíkri uppbygginu einar og sér. Vissulega geta þær komið að verkefnum en fyrst og síðast þarf einkaframtakið að draga þennan vagn. Mér sýnist að Soffía Vagnsdóttir í Bolungarvík sé dæmi um slíkt framtak. Í Fjallabyggð höfum við atorkusaman mann, Róbert Guðfinnsson, sem er að vinna að stórhuga hugmyndum í ferðamálum. Róbert var hér í eina tíð atkvæðamikill í atvinnumálum Siglufjarðar og er Siglfirðingur í húð og hár. Hann vinnur nú í verkefnum erlendis en hefur gefið sér tíma til að sinna hugðarefnum sínum á Sigló samhliða sínum störfum. Það er því verulegur búhnykkur fyrir Fjallabyggð að maður eins og Róbert skuli gefa sig að uppbyggingu ferðamála á Siglufirði.

Það má því segja að góðar fréttir heyrist úr Bolungarvík og Fjallabyggð. Vonandi verða þetta ekki einu fréttirnar sem berast úr þessum byggðarlögum, sem og annarra á landsbyggðinni. Miklir erfiðleikar hafa verið aðsteðjandi undanfarin eins og allir þekkja. Ég hef trú á því að sú þróun geti snúist við, en það er háð því að framsýnt fólk komi að málum og láti verkin tala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband