15.5.2008 | 22:20
Stíflan er brostin innan Sjálfstæðisflokksins
Jæja, það virðist sem að nú megi ræða með nokkuð opinskáum hætti um Evrópumál innan Sjálfstæðisflokksins. Enda er ekki vit í öðru en að ræða kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Nú koma forystumenn Sjálfstæðisflokksins fram hver á fætur öðrum og tala með afar misjöfnum hætti um Evrópumálin. Það er nefnilega þannig, líkt og í öllum öðrum flokkum, að skoðanir eru skiptar um þessi mál innan Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín vill þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður en Björn Bjarnason er ekki hrifinn af slíkum hugmyndum.
Geir H. Haarde sagði um daginn, að afloknum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, að nú ættu kjósendur einungis val um tvennt (eftir að Framsókn opnaði á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður). Fylgjendur aðildar að ESB kjósi Samfylkingu, andstæðingar kjósi annað hvort Sjálfstæðisflokk eða Vinstri græna sagði formaður Sjálfstæðisflokksins. En nú eltir skyndilega Sjálfstæðisflokkurinn Framsókn í Evrópumálunum! Ætli pólitískt mat og stefna Geirs H. Haarde í þessum málum hafi breyst, einungis á nokkrum dögum? Er Geir búinn að missa tökin á flokknum?
Eitt er víst; Stíflan er brostin innan Sjálfstæðisflokksins.
Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Facebook