21.5.2008 | 11:33
Var ríkisstjórnin að setja nýtt heimsmet?
Nýjasta uppákoma innan ríkisstjórnarinnar er alveg kostuleg. Allir ráðherrar Samfylkingarinnar leggjast gegn þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hefja hvalveiðar. Það skiptir bara engu máli. En þó allir ráðherrar Samfylkingarinnar séu opinberlega andvígir hvalveiðunum þá ætla þeir að verja þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra með oddi og egg á erlendri grundu. Hvernig er það hægt?
Ríkisstjórnin hefur nú náð nýjum hæðum í því að skerða trúverðugleika sinn. Ég held að þetta heimsmet verði seint toppað. Erlendis þykja það tíðindi ef einn ráðherra lýsir yfir andstöðu við gjörðir sinnar ríkisstjórnar. Hvað ætli yrði sagt þar ef annar ríkisstjórnarflokkurinn tæki sig til og lýsti yfir andstöðu við stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar?
Sama upplausnarástandið blasir nú við og árin 1991-1995 þegar kratar og sjálfstæðismenn störfuðu saman. Samskipti ríkisstjórnaflokkanna fóru þá eins og nú aðallega fram í fjölmiðlum. Ágreiningur og deilur bornar á torg, fæst mál leyst við ríkisstjórnarborðið. Í þessu máli er trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda í húfi og hann hefur beðið mikinn hnekki við síðustu fréttatilkynningu Samfylkingarinnar. Það er alvarlegt mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Facebook