22.5.2008 | 14:37
Jón Gunnarsson fær hrós dagsins
Það var algjört bíó að fylgjast með umræðum á Alþingi í dag. Við upphaf þingfundar fór fram umræða þar sem þingmenn gátu spurt hvorn annan út í þau mál sem bera hvað hæst í þjóðfélaginu. Í fjörlegri umræðu gengu skeytasendingar á milli stjórnarliða þannig að halda mátti að þarna væru stjórn og stjórnarandstaða að eigast við. Svona uppákomur heyra reyndar ekki til undantekninga.
Þau mál sem rætt var um voru meðal annars hvalveiðar, umhverfismál, embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Stjórnarliðar kepptust um að senda hvor öðrum tóninn í þessum málum. Maður dagsins var Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem húðskammaði Samfylkinguna vegna hvalveiðimála og fór nokkuð háðulegum orðum um skilning samstarfsflokksins á atvinnumálum almennt. Jón fær því hrós dagsins.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnarflokkarnir ljúka þingstörfum á þessu vori. Við gagnrýndum harðlega í morgun að nú virðast stjórnarflokkarnir ætla að keyra þingstörfin inn í nóttina. Það er þvert á markmið nýsamþykktra þingskapa. Þannig að ég á von á því að hin vaska stjórnarandstaða muni mótmæla áframhaldandi þingfundi þegar líða tekur á kvöldið. Síðan er bara að sjá hver viðbrögð hins gríðarstóra þingmeirihluta verða...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Facebook