26.5.2008 | 11:08
Stemning á Dalvík og vor í Haganesvík
Það var gaman að fylgjast með Dalvíkingum magna upp stemninguna í tengslum við eurovision keppnina um síðustu helgi. Við Valgerður Sverris fórum á laugardaginn úr Siglufjarðarafmælinu til Dalvíkur til að fanga stemninguna. Laugardagskvöldið á Dalvík var því einkar ánægjulegt. Dalvíkingar kunna greinilega á því lagið að markaðssetja sveitarfélagið í kringum ánægjulega atburði. Allt í einu varð Dalvík miðdepill keppninnar hér á landi þar sem rækilega var gert grein fyrir uppruna annars keppenda okkar, Friðriks Ómars. Flott hjá Dalvíkingum.
Annars var gærdeginum eytt í Ólafsfirði og í Fljótunum. Endaði í Haganesvíkinni þar sem varptíminn er hafinn en þar er þó nokkurt æðarvarp. Í ár er mikið fuglalíf og sérstaklega ber mikið á kríunni. Hún er reyndar ekki orpin, að nokkru ráði, þannig að hún er ekki orðin aðgangshörð. Í ár hefur lítið orðið vart við ref og mink, sem betur fer. Einn minkur hefur náðst í vor en annars hefur verið friður fyrir þessum vágesti. Alveg með ólíkindum að á sumum stöðum á landinu skuli þessi vargur vera friðaður. Það sést fljótt á fuglalífinu ef mikið er af ref og mink. En því er sem betur fer ekki til að dreifa í Haganesi enn sem komið er. Enda er varpið vaktað nótt sem nýtan dag. Það var því ekkert sérstakt tilhlökkunarefni að þurfa að yfirgefa sveitina, úr sól og blíðu, og keyra suður yfir heiðar.
En nú eru það þingstörfin sem taka mestan part sólarhringsins. Fjölmörg mál er nú verið að afgreiða úr nefndum ásamt því sem að nú er hafinn sá tími þar sem að stjórn og stjórnarandstaða semja sín á milli um þinglokin, þ.e. hvaða mál verða afgreidd á þessu vori.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Facebook