26.5.2008 | 20:12
Nú verður hugur að fylgja máli!
Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í málefni Fjölsmiðjunnar á Alþingi í dag. Tilefnið var frétt í Fréttablaðinu í morgun þar sem viðtal var tekið við forstöðumanninn, Þorbjörn Jensson. Ég tók fram í mínu máli að það væri mjög alvarlegt ef ekki leystist á næstunni úr húsnæðismálum Fjölsmiðjunnar. Þar stunda um 70 ungmenni fjölbreytta atvinnu. Margt af þessu unga fólki hefur t.d. ekki fótað sig í grunnskólanámi, verið félagslega einangrað, flosnað upp úr framhaldsskóla eða er að takast á við lífið eftir áralanga fíkniefnaneyslu. Þorbjörn Jensson hefur stýrt Fjölsmiðjunni frá upphafi sem hefur skilað samfélaginu miklum ábata sem og náttúrulega því unga fólki sem þar hefur starfað á síðustu 7 árum. Ég man upphafið vel enda kom félagsmálaráðuneytið að stofnun Fjölsmiðjunnar á sínum tíma en ég var þá aðstoðarmaður Páls Péturssonar.
En nú er svo komið að núverandi húsnæði er á undanþágu vegna brunavarna og því brýnt að starfsemin komist í tilhlýðilegt húsnæði. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar gefið grænt ljós á að koma að fjármögnun nýs húsnæðis að hluta til, þannig að nú standa öll spjót á ríkisvaldið en engin svör hafa enn borist úr þeim herbúðum. Hins vegar tók Jóhanna vel í málaleitan mína um að þrýsta á að úrlausn verði fundin á vanda Fjölsmiðjunnar. Þannig að nú er það mín von að hugur muni fylgja máli en ekki einungis fögur fyrirheit. Það verður því fylgst með framgangi þessa máls á næstu vikum, því það er nauðsynlegt að starfsemi Fjölsmiðjunnar haldi áfram. Ég vil því lýsa yfir mikilli ánægju með viðbrögð ráðherrans í dag og vonandi mun því hugur fylgja máli og Fjölsmiðjan halda áfram sinni starfsemi í nýju húsnæði, ungu fólki og okkur öllum til farsældar.
Nálgast má upplýsingar um starfsemi Fjölsmiðjunnar hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:33 | Facebook