29.5.2008 | 23:35
Náttúruhamfarir dagsins
Jarðskjálftar eru oft óhugnanlegir. Ég sat í þingsalnum þegar jarðskjálftinn reið yfir og varð nokkuð brugðið við. Guðbjartur Hannesson var að flytja ræðu um frístundabyggð þegar skjálftinn hófst en sýndi mikla yfirvegun meðan á þessu stóð og hélt svo áfram að flytja sitt mál. Hrikalegar myndir af Suðurlandi vekja mann til umhugsunar um hversu gríðarlegir kraftar felast í náttúruöflunum og hvað við mennirnir verðum oft smáir við slíka atburði. Mér sýnist á öllu að stjórnvöld hafi brugðist við erfiðum aðstæðum fumlaust og vonandi að nú séu í bili frekari jarðhræringar á þessu svæði að baki.
Nú taka við tímar uppbyggingar á Suðurlandi þar sem hið opinbera mun koma að því að bæta tjón þeirra einstaklinga sem urðu fyrir skaða í þessum hamförum. Aðalatriðið er að engum mannslífum var fórnað, allt annað er hægt að bæta. Við sáum í fréttum að mörgum Sunnlendingum er verulega brugðið við atburði dagsins en vonandi mun mannlíf á Suðurlandi komast fljótlega í samt horf. Hugur okkar margra hvílir hjá þeim sem hvað verst fóru út úr þessum hamförum. Íslendingar standa saman á stundum sem þessum.
Hins vegar fannst mér magnað að sjá útsendingu Ingva Hrafns vinar míns á ÍNN sjónvarpsstöðinni. Ingvi var í beinni útsendingu meðan ósköpin gengu yfir og mjög athyglisvert að sjá hvernig þessi reyndasti fréttamaður landsins brást við. Þessi útsending hefur farið sem eldur um sinnu í bloggheimum og trúlega ein besta markaðssetning sem ÍNN sjónvarpsstöðin hefur fengið í lengri tíma. Hægt er að sjá skjálfandi Hrafnaþing hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2008 kl. 00:03 | Facebook