2.6.2008 | 19:31
Ólafur Stephensen er tekinn við
Styrmir Gunnarsson hefur nú látið af ritstjórastarfi sínu á Morgunblaðinu. Ólafur Stephensen tekur við kyndlinum og boðar breytingar efnistökum og rekstri blaðsins. Ég á von á því að mikil breyting muni eiga sér stað á Mogganum því ritstjórarnir eru náttúrulega ólíkir og hafa mismunandi afstöðu til hlutanna. Til að mynda hefur Ólafur allt aðra afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu en forverinn og í raun er það Morgunblaðið sem hefur verið flaggskip andstöðu gagnvart aðild að ESB. Þar verður breyting á.
Það er vandasamt starf sem Ólafur hefur tekið sér fyrir hendur. Þær þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á örfáum árum gera áskriftarblöðum erfitt fyrir. Hægt er að lesa um allt sem skiptir máli á netinu og þannig hefur áskrifendum fækkað með þeirri þróun. Það er því mikil áskorun fyrir Ólaf að taka sér þetta verkefni á hendur sem vissulega er krefjandi. Eitt mun þó örugglega ekki breytast við ritstjóraskiptin en það eru dánartilkynningar og minningargreinar sem ég efa ekki að eru sterkasta sérkenni Morgunblaðsins í dag.
Megi Ólafi Stephensen farnast vel í því erfiða verkefni sem rekstur Morgunblaðsins er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Facebook