Nýjar áherslur Morgunblaðsins

Á blogginu í gær sendi ég nýjum ritstjóra Morgunblaðsins, Ólafi Stephensen, góðar kveðjur. Ekki datt mér þá í hug að eitt af fyrstu verkum hans væri að loka ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi ásamt því að sérstök Austurlandssíða í Mogganum yrði aflögð. Ég tel þetta afar misráðið hjá nýjum ritstjóra.

Við höfum fylgst með mikilli uppbyggingu á mið Austurlandi á síðum Moggans á síðustu árum. Þar hefur störfum fjölgað, fólki fjölgað og mikill uppgangur sem hefur einkennt það svæði í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Við höfum einnig fengið fréttir frá sunnanverðum Austfjörðum sem og af norðursvæðinu. Flestar fréttir af þessum svæðum hafa komið á Austurlandssíðu Moggans.

Það mun óhjákvæmilega leiða til síðri fréttaflutnings af Austfjörðum þegar blaðamanni Moggans er sagt upp störfum. Hin nýja ritstjórn þarf að sýna Austfirðingum fram á með hvaða hætti fréttaflutningi af svæðinu verður háttað í framtíðinni. Það er öllum fyrir bestu að slíkt liggi fyrir.

Annars fæ ég mjög góðar fréttir úr Austurglugganum sem miðlar fréttum úr fjórðungnum með ágætum hætti. Spurning hvort að áskrifendum Austurgluggans muni fjölga í framtíðinni við þessar nýju áherslur Morgunblaðsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband