Á ferð um Djúpavog og Breiðdalsvík

Að loknum 17. júní hátíðarhöldum hér nyrðra lá leiðin austur á bóginn. Um kvöldið var ég kominn til Egilsstaða í þeim erindagjörðum að heimsækja fólk og fyrirtæki á Austurlandi. Morguninn eftir lá leiðin á Suðurfirðina með þeim Þorsteini Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra, og Stefáni Boga, aðstoðarmanni. Við fórum um Öxi þar sem við námum staðar við minnisvarða um Hjálmar Guðmundsson, frumkvöðul að vegagerð um Öxi. Ekki vildi þar betur til en svo að ein hurðin á bílnum fauk upp með þeim ósköpum að hún skekktist svo illa að ekki var hægt að loka henni. Þannig þurfti því einn farþeginn að halda hurðinni aftur alla leið á Djúpavog þar sem góður maður rétti hana á ný.

Heimsóknin á Djúpavog var um margt eftirminnileg. Við skoðuðum gamla Faktorshúsið (gamla Kaupfélagshúsið) þar sem Þorsteinn Sveinsson bjó í um 20 ár og var kaupfélagsstjóri. Húsið er verið að gera upp í upprunalegri mynd og mun verða bæjarprýði þegar fram líða stundir. Þorsteinn fór vel yfir hvernig húsið var innanstokks þegar hann var þar í forsvari og hittum við þar smiði sem eru að vinna að endurbótum á þessum merkilegu menningarverðmætum sem Faktorshúsið er.

Því næst snæddum við hádegisverð á Hótel Framtíð með sveitarstjóranum, Birni Hafþóri Guðmundssyni, þar sem hann fór yfir helstu mál sem snerta Djúpavogshrepp. Á boðstólum var keila og var þetta í fyrsta sinn sem ég bragða á þeim fiski. Þórir Stefánsson og fjölskylda reka hótelið af miklum myndarskap og lofa ég því að enginn verður svikinn af því að gista og þiggja veitingar þar. Reksturinn er orðinn umfangsmikill enda ekki að undra. Hádegið sem við snæddum á Hótel Framtíð var allt smekkfullt í mat og nær allir ferðamenn af erlendu bergi brotnir.

Eftir matinn fór Már Karlsson, forystumaður framsóknarmanna þar í sveit, með okkur í bíltúr þar sem farið var yfir sögu staðarins. Að sjálfsögðu bar nafn Eysteins Jónssonar þar á góma og fórum við að minnisvarða um hann. Við fórum einnig meðal annars út á flugvöll þar sem sjá má stórkostlega náttúrufegurð, ekki síst þegar horft er til þorpsins. Margt annað fórum við félagarnir og var komið fram á miðjan dag þegar haldið var til Breiðdalsvíkur.

Á Breiðdalsvík hittum við fyrir Jónas Bjarka Björnsson, oddvita Breiðdalshrepp. Jónas hefur verið í forystu fyrir framsóknarmenn í sveitarfélaginu og hefur gengt því starfi með sóma. Við fórum með honum í gamla Kaupfélagshúsið ásamt Páli Baldurssyni, sveitarstjóra. Við hittum þar fyrir Björn Björgvinsson húsasmíðameistari sem hefur endurgert Kaupfélagshúsið með glæsilegum hætti. Til stendur að að gera stórmerkilega hluti á mörgum sviðum í þessu sögufræga húsi. Það verður meðal annar hýst saga Stefáns Einarssonar, prófessors í bókmenntum, sem er einn merkilegasti fræðimaður okkar Íslendinga á því sviði og lifði fjölbreytta ævi. Einnig verður í húsinu jarðfræðisetur, kennt við George Walker, og að auki verður sögu Kaupfélagsins gerð góð skil. Það er ánægjulegt að sjá hversu Breiðdælingar hafa sýnt mikinn dug í þessari uppbyggingu sem er mikilvæg varðveisla á þjóðararfleiðinni. Að þessu loknu skoðuðum við Steinasafnið í Breiðdal sem Björn Björgvinsson hefur haft veg og vanda af. Glæsilegt safn það.  

Þegar þarna var komið við sögu var degi tekið að halla og við þurftum að flýta okkar för. Við gáfum okkur þó tíma til að hitta góða vini á Fáskrúðsfirði, þau Gísla Jónatansson og Sigrúnu Guðlaugsdóttur. Þar fengum við góðar viðtökur eins og raunar alls staðar þennan dag.  Því næst brunuðum við á Reyðarfjörð að skoða mannlífið þar og álver Alcoa - Fjarðaáls. Ekki skal ég neita því að við ræddum um hversu gríðarleg jákvæð áhrif þessi framkvæmd hefur haft á stöðu mála á Mið - Austurlandi sem og á þjóðarbúið í heild.

Því miður komumst við ekki yfir allt það sem við ætluðum okkur þennan daginn. Ég á því eftir að að taka mér mun betri tíma í heimsóknum á Suðurfirðina enda af nógu að taka þar. Það bíður betri tíma.

Næst á dagskránni var Vopnafjörður en sú bloggfærsla kemur síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband