30.6.2008 | 14:45
Árangur áfram - Ekkert stopp
Við framsóknarmenn höfum lagt til svo mánuðum skiptir að gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans verði efldur. Það er nauðsynlegt fyrir íslenskt efnahagslíf að það verði gert, ekki síst til að standast áhlaup erlendra spákaupmanna. Forsætisráðherra segir að það muni koma í ljós þegar það kemur í ljós" hvenær slíkra aðgerða er að vænta. Á meðan engist íslenskt atvinnulíf og þar sverfir ískyggilega að.
Fólkið og fyrirtækin í landinu búa við hæstu stýrivexti í heimi en allir vita að ógjörningur er að standa undir 15-20% vöxtum til lengdar. Því þarf að breyta peningamálastjórnuninni. Ef það verður ekki gert eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Stóraukið atvinnuleysi með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú og almenning.
Við þurfum því á að halda ríkisstjórn sem framkvæmir í stað þess að stunda samræðustjórnmálin ótt og títt. Slagorð okkar framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar var Árangur áfram - ekkert stopp. Stefna okkar byggist á því að framkvæma hlutina en ekki að setja atvinnulífið í handbremsu líkt og Vinstri græn og Samfylking boðuðu í aðdraganda síðustu kosninga með því sem kallað var stóriðjustopp. Ef standa á undir öflugu velferðarkerfi sem og að bæta hag almennings þarf aukna verðmætasköpun með auknum útflutningi. Það verður meðal annars gert með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar.
Því er mikilvægt, og þó fyrr hefði verið, að stjórnvöld kalli til aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og bændur til að móta aðgerðir sem geta leitt til nýrrar þjóðarsáttar og stöðugleika. Fórnir voru vissulega færðar í tíð síðustu þjóðarsáttasamninga en ávinningurinn var augljós. Við framsóknarmenn höfum hamrað á þessu gagnvart ríkisstjórninni frá síðastliðnu sumri en því miður hefur einungis verið haldinn einn fundur með hagsmunaaðilum á boðuðum samráðsvettvangi ríkisstjórnarinnar. Þá voru ekki einu sinni allir þeir sem hér að ofan voru nefndir kallaðir til.
Það er ekki með neinum hálfkæringi sem þessi orð eru sett á blað. Við höfum heyrt mjög svartar lýsingar frá aðilum í atvinnulífinu og ég spái því að verði ekkert að gert þá muni atvinnuleysi og enn dýpri kreppa blasa við okkur undir árslok. Einhverjir munu kalla skrif sem þessi dómsdagsspá en að mínu viti er hér um blákaldan veruleika að ræða. Þetta er því sett hér fram í þeim tilgangi að hvetja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til góðra verka. En ef marka má það rúma ár sem liðið er frá síðustu kosningum er þó ekki mikils að vænta. Því miður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook