1.7.2008 | 16:27
Afmæli á Súðavík
Ég fór til Súðavíkur um helgina. Þar hélt Egill Heiðar Gíslason, Súðvíkingur með meiru, upp á 50 ára afmæli sitt. Egil hef ég þekkt lengi í gegnum Framsóknarflokkinn en hann var um árabil framkvæmdastjóri flokksins, var farsæll í þeim störfum. Við erum einnig frændur en hann er ættaður úr snjóþungri en fallegri sveit, Fljótum í Skagafirði.
Ég veit nú varla hvar ég á að byrja í lýsingum á afmælinu en það stóð frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld. Mikill fjöldi vina og ættingja samfögnuðu með Agli sem hélt sjálfur að mestu uppi fjörinu. Ég náði reyndar ekki að vera í afmælinu nema síðustu 2 dagana en verð að viðurkenna að það er langt síðan að ég hef skemmt mér svona vel, enda í góðra vina hópi. Egill sýndi okkur og sannaði að hvergi er betra að vera en á Súðavík. Hann, ásamt systkinum, hafa byggt upp sitt gamla heimili, Grund, með glæsilegum hætti. Það er mikilvægt fyrir öll samfélög að eiga menn eins og Egil Heiðar Gíslason. Takk fyrir mig Egill Heiðar!
Bendi ykkur á forvitnilegan vef sem Guðni Ágústsson opnaði á Súðavík þessa helgi. Stefnt er að opnun Melrakkaseturs þar árið 2010 og nú er búið að opna heimasíðu til heiðurs þessari skepnu. Heimasíðuna má nálgast hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Facebook