Álver mun rísa - Pirraður Steingrímur

Umræða um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar fór fram á Alþingi í dag. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu Össurar Skarphéðinssonar í dag þess efnis að ríkisstjórnin styðji uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Hann nefndi einnig að ekki ættu að verða tafir á borunum vegna verkefnisins, þrátt fyrir úrskurð Þórunnar, sem vissulega er tímamóta yfirlýsing. Ég er því bjartsýnn að uppbygging álvers við Bakka á Húsavík verði að veruleika á tilsettum tíma. Því hafa bæði forsætisráðherra og iðnaðarráðherra lofað.

Félagar mínir í Vinstri grænum báðu um umræðuna sem var um stefnu ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum. Þar hamaðist VG á Samfylkingu því loforðið um Fagra Ísland hefur vissulega gufað upp eftir alþingiskosningarnar. Það er rétt hjá VG að sýna fram á þann tvískinnung sem að felst annars vegar í kosningaloforðum Samfylkingar í þessum málaflokki og hins vegar í aðgerðum flokksins. Reyndar má benda á tvískinnung Samfylkingar í mörgum öðrum málum og á kosningaloforð sem flokkurinn mun aldrei uppfylla. Það verður að bíða betri tíma enda þyrfti að skrifa langt mál um það.

Eins og allir vita þá erum við í stjórnarandstöðunni ekki sammála þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Reyndar má segja að Framsókn og VG séu andstæðir pólar þegar að þeim málum kemur. Það er gott og blessað. Hins vegar fannst mér Steingrími J. ekki takast vel upp í þinginu þegar hann, úr ræðustólnum, sagði Guðna formanni að þegja. Það varð aðal frétt fjölmiðlanna og ekki til þess fallið að auka virðingu þingsins og dró jafnframt úr hinni raunverulegu frétt; Deilum um hvert beri að stefna í atvinnumálum þjóðarinnar. Þannig að ekki skoraði félagi Steingrímur J. mörg stig í dag. Ég er þó viss um að minn formaður muni ekki erfa þetta lengi við sinn kollega, enda nauðsynlegt að stjórnarandstaðan einbeiti sér frekar að því að halda ríkisstjórninni við efnið heldur en að standa í svona karpi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband