Spurningar til ráðherra

Við upphaf þings þá hef ég sent nokkrar fyrirspurnir til ráðherra sem ég fæ vonandi svör við næstkomandi miðvikudag.

Menntamálaráðherra spyr ég út í námslán þeirra sem eru við nám erlendis. Námsmenn erlendis hafa þurft að súpa seyðið af veikingu krónunnar auk þess sem þeir þurfa margir hverjir að fjármagna sig með yfirdrætti þangað til að útgreiðslu námslána kemur. Þetta þarfnast skoðunar við og því verður áhugavert að heyra hvort að menntamálaráðherra er reiðubúinn að aðhafast eitthvað í þessu máli.

Forsætisráðherra spyr ég út í starf örorku- og starfsendurhæfingarnefndar. Sú nefnd hefur verið lengi að störfum og átti að innleiða nýja nálgun í örorkugreiðslukerfið. Margir bíða með óþreyju eftir því að nefndin skili af sér enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir samfélagið allt.

Félagsmálaráðherra spyr ég út í viðmiðun lífeyrisgreiðslna, en eins og frægt er orðið þá lækkaði ný ríkisstjórn viðmiðið gagnvart eldri borgurum og öryrkjum þannig að um 10.000 kr. vantar nú mánaðarlega í launaumslag lífeyrisþega. Þessi nýja viðmiðun lækkaði útgjöld ríkisins til eldri borgara og öryrkja um 3,6 milljarða á ári. Ég spyr því félagsmálaráðherra um hvort að einhverjar viðræður hafi átt sér stað nú nýlega á milli lífeyrisþega og ríkisstjórnarinnar vegna þessarar skerðingar.

Vonandi fæ ég svör frá ráðherrunum við þessum fyrirspurnum á miðvikudag í næstu viku og mun þá í framhaldinu blogga nánar um þessi mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband