Umræða á Alþingi um Íbúðalánasjóð

Ég hóf máls á stöðu Íbúðalánasjóðs á Alþingi í síðustu viku. Ég innti formann félagsmálanefndar eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það var svo sem ekki að ástæðulausu. Félagsmála- og viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar hafa lýst sig andvíg hugmyndum forsætisráðherra um að Íbúðalánasjóði verði breytt í heildsölubanka og hafa talað fyrir því að sjóðurinn láni félagsleg og almenn lán. Standi sem sagt áfram í almennri lánastarfsemi.

Það er því eðlilegt að spyrja hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í húsnæðismálum? Er það forsætisráðherra sem ræður þar för eða Samfylkingin? Formaður félagsmálanefndar, Guðbjartur Hannesson, kvað upp úr með það og sagði stefnu síns flokks skýra og sá flokkur færi með ráðuneyti húsnæðismála.

Ekki veit ég hvort við eigum frekar að trúa orðum Geirs Haarde eða samfylkingarfólks þegar rætt er um grundvallarmál eins og húsnæðismál. Hins vegar verður þetta fólk að fara að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin þarf að fara að mynda sér stefnu í þessum málaflokki, öll óvissa er af hinu slæma. En það virðist vera regla hjá ríkisstjórninni að þar eru að minnsta kosti tvær skoðanir á öllum málum, ef ekki fleiri. Algjört stefnu- og aðgerðaleysi. Er nema von að illa gangi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband