1.10.2008 | 11:02
Sjálfstæðisflokkurinn er yfir og undir og allt um kring
Eftir hádegi verður Alþingi sett. Ekki seinna að vænna í ljósi atburða síðustu daga. Efnahagsmálin verða væntanlega í brennidepli og þá hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera til að koma til móts við erfiða stöðu íslenskra heimila og atvinnulífs. Það er fullreynt að aðgerðarleysi forsætisráðherra hefur skilað okkur því að staða margra heimila og fyrirtækja er mun verri en hún þyrfti annars að vera.
Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin muni hafa forgöngu um að útskýra þá ótrúlegu atburðarrás sem átti sér stað um helgina í svokölluðu Glitnismáli. Af fréttum að dæma þá munu sjálfstæðismenn vera nær einir til frásagnar því Samfylkingin virðist ekki hafa komið að ákvarðanatöku fyrr en búið var að afgreiða málið af hálfu Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde. Það er því Sjálfstæðisflokkurinn sem er undir og yfir og allt um kring í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með óhugnanlega mikil ítök í íslenskt þjóðfélag.
Það orðið þannig með Sjálfstæðisflokkinn að hann er búinn að koma sér einstaklega vel fyrir í stjórnkerfinu. Það finnst varla sú skrifstofa orðið í stjórnarráðinu þar sem þóknanlega menn er ekki fyrir að finna. Nýlegt dæmi má nefna fádæma framkomu Björns Bjarnasonar í garð Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Þannig að allt stefnir þetta í eina átt. Hver skyldi síðan verða ráðinn forstjóri Landsvirkjunar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook