20.11.2008 | 13:37
Stærsta áskorun stjórnvalda
Það að jafnstór hluti þjóðarinnar og raun ber vitni setji enn traust sitt á ríkisstjórnina leggur henni mikið á herðar. Þetta fólk og þjóðin öll hlýtur að krefjast þess að stjórnin taki á málum af festu og ábyrgð. Því miður hefur nokkuð skort á það fram að þessu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið fálmkennd og hægfara. Yfirlýsingar ráðamanna og bankastjóra Seðlabankans hafa heldur ekki allar verið til þess fallnar að endurvekja traust á íslenskum efnahag og fjármálakerfi. En þrátt fyrir þau mistök sem hafa verið gerð fara ríkisstjórnarflokkarnir enn með lýðræðislegt umboð til að stjórna landinu og gera verður kröfu til þess að þeir horfi til framtíðar við lausnir vandamála dagsins í dag.
Nýtum náttúruna skynsamlega
Þrátt fyrir grafalvarlega stöðu mála vil ég leyfa mér að taka undir með þeim sem hafa sagt að íslenska þjóðin sé langt því frá komin að fótum fram. Við erum samkvæmt öllum mælikvörðum rík þjóð og fyrir okkur liggja mörg tækifæri. Í fyrsta lagi eigum við mikið af náttúruauðlindum sem geta skapað okkur mikil verðmæti. Rétt er að leggja mikla áherslu á áframhaldandi skynsamlega og eðlilega nýtingu þessara auðlinda. Auðvitað verður að fara að öllum þeim leikreglum sem settar hafa verið til að tryggja að þessi nýting sé í eins góðri sátt við náttúruna og mögulegt er. Mikið af þessum leikreglum er til komið vegna þess frumkvæðis sem framsóknarmenn hafa tekið í umhverfismálum. Stofnun Umhverfisráðuneytisins var að undirlagi Steingríms Hermannssonar þáverandi forsætisráðherra. Framsóknarmenn hafa farið með þetta ráðuneyti fleiri ár en nokkur annar stjórnmálaflokkur undanfarin ár og þar hafa mótast þær reglur sem fylgt er í dag. Þrátt fyrir alvarlega stöðu í efnahagslífinu má ekki ganga svo langt að kasta öllum málsmeðferðarreglum fyrir róða.
Mannauðurinn er okkar dýrmætasta auðlind
Enn mikilvægari er svo sá mannauður sem hér er að finna. Öfugt við náttúruauðlindirnar er raunveruleg hætta á því við núverandi aðstæður að við missum þessa auðlind úr landi. Ef hinu hæfileikaríka og vel menntaða fólki sem við eigum verða ekki sköpuð skilyrði til að lifa, starfa og sjá fjölskyldu farborða, mun það leita á önnur mið.Atgervisflótti úr landi er stærsta ógn sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag og það er stærsta áskorun stjórnvalda að koma í veg fyrir að hún verði að sorglegum veruleika. Fólkið í landinu kallar eftir því að ríkisstjórnin komi almenningi til hjálpar. Finna þarf leiðir til að létta byrðar skuldsettra heimila sem bera nú skuldir frá tímum góðæris inn í erfiða tíma. Halda þarf hjólum atvinnulífsins gangandi og leggja þarf sérstaka áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki og nýsköpun. Ljóst er að atvinnuleysi er framundan, ekki síst hjá ungu fólki. Ég vil því skoða sérstaklega hvort lækka eigi aldursviðmið við töku lífeyris og rýma þannig fyrir gagnvart yngra fólki á vinnumarkaðnum. Það mætti hugsa sér að taka lífeyris hæfist við 65 ára aldur. Allt þetta þarf ríkið að gera og þetta mun kosta fé. En því fé væri sannarlega vel varið. Unga fólkið og fjölskyldurnar í landinu eiga skilið að ríkisstjórnin sýni dug og þor í að takast á við vandann. Ef ekki þá hlýtur fylgi við stjórnarflokkana að fara minnkandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook