5.12.2008 | 11:40
Umsögn frá 3. minnihluta efnahags- og skattanefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið. Um þá gesti sem nefndin hefur fengið á fund sinn og hlutlausa málavaxtalýsingu á efni tillögunnar og þeirri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem með henni fylgir vísar 3. minni hluti til umsagnar 1. minni hluta.
Þriðji minni hluti vill taka fram í upphafi að miðað við erfiða stöðu efnahagsmála telur hann að rétt hafi verið af Íslands hálfu að leita eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þriðji minni hluti er hins vegar ósáttur við hvernig staðið hefur verið að framgangi málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar. Má í því sambandi nefna tvö atriði sem miklu máli skipta þegar tekin er afstaða til tillögunnar og þeirrar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem henni fylgir. Í fyrsta lagi gætir enn verulegrar óvissu um hverjar framtíðarskuldbindingar Íslands eru vegna bankahrunsins og áætlanir um það efni fátæklegar. Þá verður heldur ekki ráðið í hver geta landsins er til skuldsetningar. Óásættanlegt er að slíkt liggi ekki fyrir en það gerir í raun alla áætlanagerð óraunhæfa.
Í annan stað er mikið deilt um hvernig staðið skuli að innleiðingu 19. og 22. liðar í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem varða tímabundnar heimildir Seðlabanka til að leggja höft á gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnsflutninga í tengslum við skammtímaáhættu sem er samfara fleytingu krónunnar. Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um þetta efni, nr. 134/2008. Við þinglega meðferð málsins sem tók ríflega eina kvöldstund kom fram hörð gagnrýni aðila vinnumarkaðarins sem bæði kvörtuðu undan skorti á samráði og að sú haftastefna sem frumvarpið bæri með sér væri einkar varhugaverð ekki síst með hliðsjón af ákvæði um skilaskyldu á gjaldeyri. Með þessari leið var verið að færa íslenskt samfélag aftur um marga áratugi undir forustu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
Yfirgangur framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu síðustu vikurnar er með eindæmum. Þingmenn fá ekki aðgang að fjölda gagna og lásu t.d. um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í DV. Það er með öllu óásættanlegt að Alþingi Íslendinga skuli vera líkt við afgreiðslustofnun í mestu þrengingum sem íslensk þjóð hefur gengið í gegnum á undangengnum áratugum. Því miður hefur áður boðað samráð ríkisstjórnarinnar við stjórnarandstöðu verið í skötulíki. Með nýafgreiddum gjaldeyrishöftum kom jafnframt í ljós að samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins var verulega ábótavant, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Framferði ríkisstjórnarinnar er til þess fallið að valda óróa í samskiptum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins sem og að hunsa algjörlega Alþingi Íslendinga í mikilvægri ákvarðanatöku. Eins og sakir standa tilkynna fulltrúar framkvæmdarvaldsins þingmönnum um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og síðan eru málin afgreidd með ótrúlegum hraða í gegnum þingið í skjóli mikils meiri hluta þingmanna, sem fæstir koma þó að málum. Þetta er með öllu óásættanlegt, sérstaklega í ljósi þess hversu óhönduglega hefur tekist til með ákvarðanatöku og framgang flestra mála sem ríkisstjórnin hefur unnið að undanfarnar vikur.
Með vísan til framangreinds styður 3. minni hluti ekki tillöguna.
Birkir J. Jónsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook