Fjörugir dagar

Nú er mikið um að vera á öllum vígstöðvum og margt að sýsla. Ég myndi enda ekki vilja hafa það öðruvísi. Í síðustu viku kynntum við í Framsóknarflokknum nýjar efnahagstillögur. Ég held að flestir ættu að geta sameinast um það sem í þeim kemur fram, þó helst staldri menn við tillögu um niðurfellingu 20% allra íbúðalána.

Þetta er sannarlega djörf tillaga og óvenjulegt úrræði. En við lifum ekki á venjulegum tímum, er það nokkuð? Þjóðin þarfnast þess að stjórnmálamenn sýni djörfung og frumkvæði. Framsóknarflokkurinn svarar kallinu og bíður eftir því að aðrir flokkar komi með sínar tillögur. Það þýðir ekkert að sitja út í horni og finna tillögum okkar allt til foráttu ef ekkert kemur á móti.

Það er mikilvægt að við fáum hið fyrsta fram aðgerðir í efnahagsmálum. Menn þurfa að bregðast hratt við og Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn að vinna með ríkisstjórninni að slíkum aðgerðum. Ég er sannfærður um að við getum náð miklum árangri saman.

Annað mikilvægt mál sem þingið þarf að taka afstöðu til og afgreiða er frumvarp okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing. Það er forgangsmál okkar að koma því máli í gegn en það er ekki þar með sagt að við séum ekki til viðræðu um hugsanlegar breytingar á því. Það sem mestu máli skiptir í því máli er að ákvæði um stjórnlagaþingið verði samþykkt í þinginu fyrir kosningar. Hvort þar sitja 63 eða 41 fulltrúar eða hvað annað skiptir ekki máli.

En nú um helgina mun ég fara á fundi í kjördæminu. Ég byrja á Austurlandi en þar halda öflug félög framsóknarmanna vikulega fundi og ég verð gestur á tveimur þeirra. Á sunnudag verð ég svo fyrir norðan á fundi á Húsavík. Ég hvet alla sem áhuga hafa á þjóðmálum að mæta á fundina. Rétt er að taka fram að ég verð örugglega ekki einn frambjóðenda á lista Framsóknarflokksins um að mæta á þessa fundi. Þarna verður tækifæri til að glöggva sig á nýjum andlitum og heyra í gömlum samherjum. Dagskráin er þessi:

Laugardagur 28. febrúar

10:00 Austrasalurinn, Egilsstöðum

14:00 Kaffistofu Tandrabergs, Strandgötu 9, Eskifirði

Sunnudagur 1. mars

12:00 Veitingahúsið Salka, Húsavík

Áfram Framsókn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband