Málþóf á Alþingi

Því miður hafa sjálfstæðismenn dottið í málþófsgírinn á Alþingi. Eins og flestum er kunnugt eru þeir mjög andsnúnir breytingum á stjórnarskránni sem fela m.a. í sér: Að auðlindir verði í þjóðareign, um möguleika almennings að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur og að sérstöku stjórnlagaþingi verði komið á þar sem stjórnarskrá lýðveldisins yrði tekin til heildar endurskoðunar.

Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á stjórnlagaþingið. Á þingi hafa sjálfstæðismenn sakað okkur um að beita stjórnarskránni fyrir okkur í pólitískum leik. Það er ómaklegur áburður af þeirra hálfu enda er það svo að 4 stjórnmálaflokkar (af fimm) sem eiga fulltrúa á Alþingi eru á því að koma stjórnlagaþingi á. Sjálfstæðisflokkurinn er því einangraður í þessu máli og beitir öllum aðferðum til að koma í veg fyrir mikilvægar breytingar á stjórnarskrá lýðsveldisins.

Hugmynd okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing er ekki ný af nálinni. Starfshópur um íbúalýðræði, undir forystu Jóns Kristjánssonar, fyrrum þingmanns og ráðherra, lagði höfuð áherslu á að komið yrði á fót stjórnlagaþingi. Hugmyndin er því ekki ný af nálinni innan Framsóknarflokksins og þess má geta að í gegnum áratugina hafa hugmyndir um stjórnlagaþing ítrekað verið ræddar í samfélaginu.

Ef fram heldur sem horfir þá er ljóst að sjálfstæðismenn munu koma í veg fyrir að ýmsar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni. Með markvissum ræðuhöldum um fundarstjórn forseta fer gríðarlegur tími Alþingis til spillis. Tíma sem verja mætti í umræður um stjórnarskrána. Á meðan bíða önnur mál.

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindir verði í þjóðareigu, að stjórnlagaþingi verði komið á og að almenningur geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt sem áður virðist það vera staðreynd að einn flokkur muni koma í veg fyrir slíkar breytingar. Þrátt fyrir augljósan vilja almennings og allra annarra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband