Alvarleg staða Heilbrigðisstofnunar Austurlands

Á fjölmennum fundi okkar framsóknarmanna á Egilsstöðum um daginn var ítrekað komið inn á alvarlega stöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Ég held að óhætt sé að tala um gríðarlegan hallarekstur á þeirri stofnun enda fékk stofnunin enga leiðréttingu í síðustu fjárlagagerð, ólíkt sumum öðrum heilbrigðisstofnunum. Af samtölum við einstaklinga sem vel þekkja til reksturs stofnunarinnar er ljóst að skera þarf heilbrigðisþjónustu heilmikið niður við Austfirðinga verði ekkert að gert.

Í þessu ljósi höfum við þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi farið fram á fund með þingmönnum kjördæmisins til að fara yfir stöðu Heilbrigðisstofnunarinnar. Það er nauðsynlegt að eyða óvissu um heilbrigðisstarfsemi á Austurlandi því að sjálfsögðu hefur staðan ekki góð áhrif á starfsfólk og byggðarlög á Austurlandi. Vonandi fáum við svör á fundinum hvernig brugðist verður við vandanum enda væntanlega komin endanleg mynd á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er reyndar vandlega geymt í fjármálaráðuneytinu en ríkisstjórnin hlýtur að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að allri óvissu verði eytt þannig að svör verði gefin á fundinum á miðvikudaginn hvað fjárlagafrumvarpið felur í sér um rekstur Heilbrigðisstofnunar Austurlands.


Okkar fólk á Ólympíumóti fatlaðra

Þessa dagana stendur yfir Ólympíumót fatlaðra. Rétt eins og með nýafstaðna Ólympíuleika þá fara þessir fram í Kína. Við Íslendingar eigum þarna 5 þátttakendur sem vafalaust eiga eftir að verða landi og þjóð til sóma. Sjálfur þekki ég til eins keppandans en það er Baldur Ævar Baldursson sem mun keppa í langstökki á þriðjudaginn. Baldur Ævar er glæsilegur íþróttamaður sem hefur með þrotlausum æfingum náð þeim merka áfanga að keppa Ólympíuleikunum. Það er greinilegt að árangur erfiðisins skilar sér hjá þessum afreksmanni.

Ég vona að íslenskir fjölmiðlar muni fjalla ítarlega um árangur okkar fólks. Það er ekki lítill árangur fyrir ekki stærri þjóð að senda fimm fulltrúa á þessa Ólympíuleika. Þeir sem vilja fylgjast með okkar fólki geta gert það hér. Áfram Ísland!


Spurningar til ráðherra

Við upphaf þings þá hef ég sent nokkrar fyrirspurnir til ráðherra sem ég fæ vonandi svör við næstkomandi miðvikudag.

Menntamálaráðherra spyr ég út í námslán þeirra sem eru við nám erlendis. Námsmenn erlendis hafa þurft að súpa seyðið af veikingu krónunnar auk þess sem þeir þurfa margir hverjir að fjármagna sig með yfirdrætti þangað til að útgreiðslu námslána kemur. Þetta þarfnast skoðunar við og því verður áhugavert að heyra hvort að menntamálaráðherra er reiðubúinn að aðhafast eitthvað í þessu máli.

Forsætisráðherra spyr ég út í starf örorku- og starfsendurhæfingarnefndar. Sú nefnd hefur verið lengi að störfum og átti að innleiða nýja nálgun í örorkugreiðslukerfið. Margir bíða með óþreyju eftir því að nefndin skili af sér enda um mikið hagsmunamál að ræða fyrir samfélagið allt.

Félagsmálaráðherra spyr ég út í viðmiðun lífeyrisgreiðslna, en eins og frægt er orðið þá lækkaði ný ríkisstjórn viðmiðið gagnvart eldri borgurum og öryrkjum þannig að um 10.000 kr. vantar nú mánaðarlega í launaumslag lífeyrisþega. Þessi nýja viðmiðun lækkaði útgjöld ríkisins til eldri borgara og öryrkja um 3,6 milljarða á ári. Ég spyr því félagsmálaráðherra um hvort að einhverjar viðræður hafi átt sér stað nú nýlega á milli lífeyrisþega og ríkisstjórnarinnar vegna þessarar skerðingar.

Vonandi fæ ég svör frá ráðherrunum við þessum fyrirspurnum á miðvikudag í næstu viku og mun þá í framhaldinu blogga nánar um þessi mál.


Álver mun rísa - Pirraður Steingrímur

Umræða um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar fór fram á Alþingi í dag. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu Össurar Skarphéðinssonar í dag þess efnis að ríkisstjórnin styðji uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Hann nefndi einnig að ekki ættu að verða tafir á borunum vegna verkefnisins, þrátt fyrir úrskurð Þórunnar, sem vissulega er tímamóta yfirlýsing. Ég er því bjartsýnn að uppbygging álvers við Bakka á Húsavík verði að veruleika á tilsettum tíma. Því hafa bæði forsætisráðherra og iðnaðarráðherra lofað.

Félagar mínir í Vinstri grænum báðu um umræðuna sem var um stefnu ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum. Þar hamaðist VG á Samfylkingu því loforðið um Fagra Ísland hefur vissulega gufað upp eftir alþingiskosningarnar. Það er rétt hjá VG að sýna fram á þann tvískinnung sem að felst annars vegar í kosningaloforðum Samfylkingar í þessum málaflokki og hins vegar í aðgerðum flokksins. Reyndar má benda á tvískinnung Samfylkingar í mörgum öðrum málum og á kosningaloforð sem flokkurinn mun aldrei uppfylla. Það verður að bíða betri tíma enda þyrfti að skrifa langt mál um það.

Eins og allir vita þá erum við í stjórnarandstöðunni ekki sammála þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Reyndar má segja að Framsókn og VG séu andstæðir pólar þegar að þeim málum kemur. Það er gott og blessað. Hins vegar fannst mér Steingrími J. ekki takast vel upp í þinginu þegar hann, úr ræðustólnum, sagði Guðna formanni að þegja. Það varð aðal frétt fjölmiðlanna og ekki til þess fallið að auka virðingu þingsins og dró jafnframt úr hinni raunverulegu frétt; Deilum um hvert beri að stefna í atvinnumálum þjóðarinnar. Þannig að ekki skoraði félagi Steingrímur J. mörg stig í dag. Ég er þó viss um að minn formaður muni ekki erfa þetta lengi við sinn kollega, enda nauðsynlegt að stjórnarandstaðan einbeiti sér frekar að því að halda ríkisstjórninni við efnið heldur en að standa í svona karpi.


Við þurfum öfluga ríkisstjórn

Alþingi kemur saman í dag þar sem fyrsta mál á dagskrá er umræða um efnahagsmál. Það verður fróðlegt að sjá hvort forsætisráðherra muni koma með tillögur um hvernig ríkisstjórnin ætli að taka á efnahagsvandanum. Við framsóknarmenn höfum kallað eftir þjóðarsátt, líkt og gert var í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, en því miður virðist ríkisstjórnin ekki vera á þeim buxunum að leiða slíka þjóðarsátt. Þrátt fyrir hvatningu samtaka launafólks, atvinnurekenda og bænda.

Þjóðin þarf nú á öflugri ríkisstjórn að halda. Ríkisstjórn sem talar einu máli og er trúverðug. Því miður virðist ríkisstjórnin leggja sérstaka áherslu á að sína hversu ósamstíga hún er í flestum málum frekar en að sína fram á hversu samstíga hún er í því að verja hagsmuni ríkissjóðs og heimilanna í landinu. Við búum því við tvær ríkisstjórnir, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks annars vegar og ríkisstjórn Samfylkingar hins vegar. Ef rifjað er upp hvernig staðan á stjórnarheimilinu var árin 1991-1995 þá er sama staða uppi núna. Flest öll mál eru gerð upp á milli flokkanna á vettvangi fjölmiðla. Sú ríkisstjórn, krata og íhalds, hrökklaðist frá og skildi eftir sig gríðarlegt atvinnuleysi og botnlausar skuldir ríkissjóðs. Mér sýnist að sömu flokkar muni endurtaka leikinn, þ.e.a.s. ef samstarfið endist út kjörtímabilið.


Héraðshátíð framsóknarmanna í Skagafirði

Síðastliðið laugardagskvöld héldu framsóknarmenn í Skagafirði sína héraðshátíð. Því miður hefur hátíðin ekki verið haldin í nokkur ár en nú hafa Skagfirðingar ákveðið að endurvekja þessa hátíð. Hátíðin var haldin í minningu Guttorms Óskarssonar sem var einn af máttarstólpum í héraði á sinni tíð. Haldin voru stórgóð erindi um Guttorm en einnig var boðið upp á tónlistarveislu með Álftagerðisbræður í broddi fylkingar. Að lokum var svo stigin dans með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar. Það verður náttúrulega ekki skagfirskar en þetta!

Mikill fjöldi fólks mætti á Héraðshátíðina, vel á annað hundrað manns á sjálfa skemmtunina og síðar bættist við fjöldi á dansleik Geirmundar. Framsóknarmenn á Skagafirði eiga heiður skilinn fyrir að koma Héraðshátíðinni aftur á koppinn. Ég hef fundið fyrir áhuga framsóknarmanna víðar um landið að koma viðlíka samkomum á yfir sumarmánuðina. Að öllu óbreyttu verður því nóg að gera næsta sumar í því að sækja héraðshátíðir framsóknarmanna víða um landið. Takk fyrir mig Skagfirðingar!


Fundir á Austurlandi

Fórum frá Húsavík í gærkvöldi við Guðni og Agnar Bragi, hans aðstoðarmaður, og gistum á Möðrudal á Fjöllum. Þar var okkur vel tekið og fengum m.a. tvíreykt geitakjöt sem framleitt er á staðnum, algjört lostæti. Því miður þurftum við að leggja í hann vel fyrir hádegi til að ná hádegisfundi á Neskaupsstað. Ég mun gefa mér mun betri tíma á Möðrudal næst, það er á hreinu.

Fundurinn á Neskaupsstað var góður. 20-25 manns komu saman og réðu ráðum sínum þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið. Í framhaldinu fórum við Guðni um Fjarðabyggð og heimsóttum fólk og fyrirtæki. Í kvöld var svo fjölmennur fundur á Egilsstöðum, 70-80 manns, þar sem farið var yfir stjórnmálin. Á síðustu tveimur dögum hafa því um 200 manns sótt fundi formanns og þingmanna kjördæmisins.

Frá þessum fundum höldum við svo til þings sem hefst í næstu viku og nokkuð ljóst að verkefnin framundan eru mörg. Fólk sem hefur mætt á þessa fundi okkar hefur nestað okkur vel fyrir þau átök sem eru framundan. Ef marka má það sem við höfum heyrt þá er ríkisstjórnin ekki í neinu jarðsambandi við almenning. Það verður þrautinni þyngri að vekja stjórnina til lífsins og koma henni í skilning um að aðgerða er þörf á mörgum sviðum samfélagsins. En meira um það síðar hér á þessum vettvangi.


Fundaherferð formannsins

Í hádeginu hélt Guðni Ágústsson stjórnmálafund á Akureyri. Fundurinn er hluti af fundaherferð Guðna sem hefur vakið talsverða athygli. Fundasókn hefur verið mjög góð þar sem Guðni hefur farið yfir stöðu þjóðfélagsmála og hlýtt á mál þeirra sem fundina sækja. Mér finnst vera lifna yfir pólitíkinni þessi misserin. Fólki er ekki sama um þróun mála og fleiri vilja nú láta sig málin varða.

Í kvöld verður svo haldinn fundur á Húsavík. Ég á von á fjörlegum og vel sóttum fundi. Þingeyingar eru flestir gríðarlega óánægðir með ríkisstjórnina, sérstaklega hvernig haldið er á málum í stærsta hagsmunamáli Norðausturlands á seinni tímum, álver á Bakka. Við höfum í dag heimsótt fólk á Húsavík en þrátt fyrir vandræðagang stjórnvalda í atvinnumálum hér á Húsavík hafa heimamenn síður en svo lagt árar í bát. Forsvarsmenn Norðurþings hafa unnið gríðarlega gott starf síðustu ár við undirbúning verkefnisins og ég hef trú á því að það góða starf muni skila sér á endanum. Ég hlakka til fundarins í kvöld.


Harður pólitískur vetur framundan

Bloggfærslur hafa verið ansi stopular hjá mér síðustu vikurnar líkt og ég gaf í skyn fyrr í sumar. Hef eytt sumrinu nær eingöngu hér heima á Fróni, fyrir utan stutta ferð til Danmerkur og Þýskalands í júlímánuði. Ég á mjög erfitt með að skilja fólk sem vill dvelja langdvölum í útlöndum yfir sumarmánuðina og missa þannig af íslensku sumri.

Ég hef ferðast vítt og breitt um landið og þá náttúrulega sérstaklega um mitt kjördæmi - Norðausturkjördæmi. Við framsóknarmenn héldum árlega hátíð í Ásbyrgi um þar síðustu helgi þar sem um 100 manns mættu til að borða og skemmta sér saman. Þar var engan bilbug að finna á fólki og mikill hugur að rétta stöðu flokksins enda ekki vanþörf á.

En nú líður því að Alþingi komi og ég held að það sé óhætt að fullyrða að framundan sé harður pólitískur vetur. Ég spái því að fjárlagagerðin eigi eftir að reynast stjórnarflokkunum mjög erfið. Eftir að hafa hækkað fjárlögin um yfir 20% í fyrra loga mörg gul og rauð ljós í efnahagslífinu. Þó hafa ráðherrar í ríkisstjórninni haldið áfram að vekja væntingar í samfélaginu um enn meiri ríkisútgjöld. Að óbreyttu stefnir því í að ríkissjóður fari að safna skuldum á ný.

Þrátt fyrir loforð um stóraukin ríkisútgjöld aðhefst ríkisstjórnin nær ekkert til að auka framleiðslu og verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Það eina markverða sem ríkisstjórnin hefur gert í efnahagsmálum (fyrir utan að gera ekki neitt) er að leggja stein götu byggingar álvers á Bakka við Húsavík. Það verður vafalaust tekið fyrir á vettvangi Alþingis á komandi hausti ásamt mörgum öðrum brýnum málum sem stjórnvöld verða að taka á. Ég spái hörðum pólitískum vetri, það verður kalt á stjórnarheimilinu.


Vandi Fjölsmiðjunnar

Frá árinu 2001 hefur Fjölsmiðjan í Kópavogi sinnt fjölbreyttum hópi ungs fólks sem á það flest sammerkt að hafa ekki fundið sig í innan skólakerfisins. Í Fjölsmiðjunni eru fjölbreyttar starfsdeildir þar sem ungt fólk stundar atvinnu við ýmsar deildir, s.s. raf-, hönnunar-, trésmíða-, tölvu- og prentdeild. Rúmlega 300 ungmenni hafa útskrifast frá Fjölsmiðjunni á tímabilinu og sýna kannanir að um 80% þess hóps fótar sig vel í lífinu í framhaldinu. Það er staðreynd að skólakerfið eins og það er í dag hentar ekki endilega öllum og því er Fjölsmiðjan mikilvægur þáttur í því að koma til móts við þarfir ungs fólks á Íslandi í dag. Fjölsmiðjan hefur orðið til þess að auka lífsgæði og möguleika rúmlega 300 einstaklinga á síðustu sjö árum. Það er út af fyrir sig ómetanlegt.

Húsnæði á undanþágu

Staðan nú er hins vegar sú að sá húsakostur sem Fjölsmiðjan býr við er með öllu óviðunandi. Um er að ræða húsnæði sem er á undanþágu vegna brunavarna og í ákveðnum vindáttum er húsið hriplekt. Ég er þess fullviss að ekkert foreldri myndi sætta sig við að senda barnið sitt í grunn- eða framhaldsskóla sem væri starfræktur við slíkar aðstæður. Þá er nærtækt að spyrja sig, eru þeir einstaklingar sem stunda sitt starfstengda nám við Fjölsmiðjuna eitthvað síðri en nemendur í grunn- eða framhaldsskólum almennt? Að sjálfsögðu er svo ekki og því er stórundarlegt að nú standi einvörðungu á ríkisstjórninni að bæta þar úr. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa boðist til að greiða hluta af nýju húsnæði en svo mánuðum skiptir hefur ríkisstjórnin ekki gefið afdráttarlaust svar um hvort eða hvernig hún muni koma að kostnaðarþátttöku.

Ríkisstjórnin þarf að gefa svör

Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í húsnæðismál Fjölsmiðjunnar á Alþingi fyrr á þessu ári og lýsti hún því yfir að þessi mál væru til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Nú heyri ég sagt að málið standi fast í fjármálaráðuneytinu. Það er algjörlega óviðunandi að starfsfólk Fjölsmiðjunnar þurfi að bíða svo mánuðum skiptir eftir svörum frá stjórnvöldum. Ég vona innilega að ríkisstjórnin reki nú af sér slyðruorðið og leysi húsnæðisvanda Fjölsmiðjunnar í Kópavogi.

(Grein þessi birtist einnig í Fréttablaðinu í gær)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband