12.12.2007 | 14:46
Gott hjá forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs, halda svo áfram á þessari braut!
Aðrar lánastofnanir mættu taka þetta sér til fyrirmyndar. Öll þessi gjöld sem neytendur þurfa að greiða eru mjög íþyngjandi. Það er einnig athyglisvert að opinbera stofnunin, sem hefur verið undir stöðugum árásum fjármálafyrirtækja, skuli ganga á undan með góðu fordæmi. Vonandi er þetta fyrsta skrefið í þá átt að öll þessi þjónustugjöld verði tekin til endurskoðunar.
Þetta sýnir okkur jafnframt fram á hversu mikilvæg tilvist Íbúðalánasjóðs er fyrir íslenskan almenning. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um sjóðinn á undanförnum árum og reyndar er það svo að framsóknarmaðurinn Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, skóp Íbúðalánasjóð á sínum tíma.
Þannig að það er engin tilviljun að mér er tíðrætt hér á blogginu um málefni Íbúðalánasjóðs. Það er í raun magnaður árangur Framsóknarflokksins að hafa komið Íbúðalánasjóði á laggirnar á sínum tíma, þrátt fyrir mótmæli hægri- og vinstrimanna. Hægri mennirnir vildu nefnilega einkavæða þessa starfsemi á meðan að Jóhanna Sigurðardóttir vildi halda í gjaldþrota húsnæðiskerfi með Húsnæðisstofnun ríkisins í broddi fylkingar. Ég hugsa að þorri almennings vilji hvorugt, einkavæðingu Sjálfstæðisflokksins eða endurvakningu gömlu Húsnæðisstofnunar kratanna...
![]() |
Seðilgjald Íbúðalánasjóðs fellt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.12.2007 | 18:01
Órói innan Samfylkingar - Össur biðlar til Framsóknar
Össur Skarphéðinsson hefur á nokkrum mánuðum gert ótrúlegar gloríur sem ráðherra. Meðal þess sem nefna má eru skrautlegar yfirlýsingar hans innan þings sem utan. En það verður ekki af félaga Össuri tekið að hann er litríkur og oft á tíðum skemmtilegur karakter. Þannig tók hann sig til í nótt og skrifaði um "hressa þrílembinga". Þar skrifar hann um þremeninga úr Norðausturkjördæmi, Jón Björn Hákonarson (sem er á þingi í fjarveru Valgerðar), Höskuld Þórhallsson og þann sem hér skrifar. Allt góðir og gegnir framsóknarmenn.
Þar hælir hann okkur "þrílembingunum" svo um munar. Það er náttúrulega mikill heiður að fá slíkt lof frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands og ekki get ég neitað því að okkur "þrílembingunum" þótti nokkuð til koma. Ég get einnig sagt um félaga Össur að það væri sjónarsviptir ef hann væri ekki meðal vor í þinginu því hann er með skrautlegri stjórnmálamönnum innan þings. Reyndar er það stundum svo að félagi Össur hagar málflutningi sínum með þeim hætti að ætla mætti að hann væri enn í stjórnarandstöðu. En það er annað mál.
Hins vegar vöktu miklar áhyggjur ráðherrans af litlu mannvali í Samfylkingunni athygli mína. Össur biðlar því mjög sterkt til okkar þremenningana að ganga í Samfylkinguna. Sagði það sárgrætilegt að horfa upp á okkur þrjá í Framsókn en ekki innan Samfylkingarinnar. Nú get ég alveg tekið undir það sem lesa má úr skrifum Össurar að það er ekkert gríðarlegt mannval í þingflokki Samfylkingarinnar. En að benda á það á eins opinberum vettvangi og heimasíða ráðherrans er mun ekki verða til þess fallið að styrkja samheldnina í þingflokki Samfylkingarinnar. Ekki var andrúmsloftið á þeim bænum gott fyrir enda alþekkt að litlir kærleikar eru á milli Ingibjargar og Össurar eins og alþjóð veit.
En af mér er það að frétta að ég hef ekki hugsað mér til hreyfings. Það er góð stemning í þingflokki Framsóknarflokksins. Það er mikill hugur í framsóknarmönnum þessa dagana og engan bilbug á okkur að finna. Hins vegar hef ég fundið fyrir óróleika í samfylkingarfólki að undanförnu sem sumt er farið að hugsa sér til hreyfings. Ætli Össur hafi ekki líka einhverjar áhyggjur af því?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook
7.12.2007 | 16:49
Verða alþingiskosningar á næsta ári?
Jæja, þá eru enn ein aðvörunarorðin fallin. Það kæmi mér mjög á óvart ef að ríkisstjórnin tæki eitthvert mark á þessum aðvörunarorðum OECD. Stjórnvöld eru hvatt til aðhalds í fjárlagagerðinni líkt og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til, einn flokka á Alþingi í fjárlagaumræðunni. Nú þurfa stjórnvöld að sýna ábyrgð því ef verðbólgan fer á skrið þá bitnar það verst á skuldsettum íslenskum heimilum.
OECD, Standard og Poors, Seðlabankinn, fjármálafyrirtæki, aðilar vinnumarkaðarins og við framsóknarmenn höfum varað eindregið við þessari vinsældapólitík ríkisstjórnarinnar. Þess vegna höfum við framsóknarmenn ekki lagt til gríðarleg útgjöld í fjárlagaumræðunni (sem eru yfirleitt fallið til vinsælda um stundarsakir). Það er ólíkt öðrum stjórnmálaflokkum á Alþingi sem keppast í því að yfirbjóða hvern annan í loforðaflaumnum. Getur það verið að ríkisstjórnarflokkarnir sjái fram á kosningar á næsta ári? Það er margt sem bendir til þess.
![]() |
OECD hvetur til aðhalds |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook
5.12.2007 | 20:39
Svar Ingibjargar Sólrúnar um opinber störf
Ég spurði ráðherra ríkisstjórnarinnar um stöðu mála þegar kemur að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Ég var formaður iðnaðarnefndar þegar síðasta byggðaáætlun var afgreidd, sem gildir árin 2006-2009, og þá var eitt af höfuðmarkmiðum þeirrar áætlunar fjölgun opinberra starfa. Ráðherrar áttu skv. þingsályktuninni að gera Alþingi grein fyrir þróun mála og hvert stefnir í þeim efnum. Svar utanríkisráðherra sem talaði svo fjálglega um málefni landsbyggðarinnar fyrir síðustu kosningar var harla lítilfjörlegt. Ingibjörg Sólrún má reyndar eiga það að vera fyrsti ráðherrann sem svarar þessari fyrirspurn, enda lítið mál þar sem að svarið er mjög lítilfjörlegt:
Starfsmönnum utanríkisráðuneytisins í Reykjavík hefur fjölgað um 2 á þessu ári. 6 ný störf urðu til fyrr á árinu á vegum þýðingarmiðstöðvar ráðuneytisins á Akureyri (það var reyndar Valgerður Sverrisdóttir sem stóð að því). Aðalskrifstofa Ratsjárstofnunar var flutt úr Reykjavík á Miðnesheiði, 8 störf (en reyndar sama atvinnusvæðið). Annars var svarið það að engin niðurstaða liggur fyrir um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni á næsta ári.
Ég á von á því að fá svör frá fleiri ráðherrum um þróun opinberra starfa. Það verður fróðlegt að sjá svar frá Þórunni Sveinbjarnadóttur, umhverfisráðherra, sem beitti sér sérstaklega fyrir því að leggja niður starf forstöðumanns Veiðstjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar á Akureyri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook
5.12.2007 | 14:38
Óróleiki á Alþingi
Mikill tími fer þessa dagana í umræður um "störf þingsins" og um "fundarstjórn forseta" þannig að minni tími en ella fer í umræður um mikilvæg þingmál sem sum þarf að klára sem allra fyrst. Það verður að segjast eins og er að það á enginn einn sök þegar að tveir eða fleiri deila. Ég get í þeim efnum vísað í pistil minn um þingsköpin, svar mitt til Vinstri grænna hér á blogginu.
Hins vegar er það svo að ríkisstjórnarflokkarnir hafa algjörlega misst tökin í mörgum veigamiklum málum. Hægt er að nefna breytingar á stjórnarráðinu, sem er illa og flausturslega unnið. Án samráðs við þá aðila sem málið varðar. Hægt er að nefna fjárlagagerðina sem er í lausu lofti og í raun varla hægt að tala lengur um lausatök, heldur glundroða í þeirri vinnu. Í dag er svo allt í háalofti vegna þess að minnihluti fjárlaganefndar fékk ekki í hendur öll gögn sem varða Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli. Þarf að leyna einhverjum gögnum í því máli fyrir þingmönnum? Það fer því nokkuð mikill tími, eðlilega, í að ræða meðhöndlun þessara mála undir liðum eins og "störf þingsins" og um "fundarstjórn forseta".
Það er því margt á huldu með þinglokin að þessu sinni, það kæmi mér ekki á óvart að þau dragist eitthvað á langinn. En eitt er víst að vegsemd og virðing Alþingis í samfélaginu mun ekki aukast með þessu áframhaldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook
4.12.2007 | 16:57
Ræða Guðna Ágústssonar um Alþingi nútímans
Það var talað inn í nóttina á Alþingi í gær um breytingar á þingsköpum. Guðni Ágústsson talaði þar fyrir hönd okkar framsóknarmanna og gerði það vel, svo eftir var tekið. Guðni hefur setið á þingi frá 1987 og talaði því af reynslu um það sem hefur breyst í starfsháttum þingsins frá þeim tíma (og því sem ekki hefur breyst). Ég skora á alla áhugamenn um skilvirkari vinnubrögð innan Alþingis að hlusta á ræðu Guðna sem hlusta má á hér
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook
3.12.2007 | 21:03
Færum starfshætti Alþingis til nútímans, yfirlýsingum VG svarað
Í gamla daga, þetta fyrir 30-40 árum, þá voru bæjarstjórnarfundir á Siglufirði langir, mjög langir. Svo langir að það keyrði úr hófi fram. Stundum hófust fundirnir um miðjan dag og gátu staðið fram á miðja nótt, jafnvel fram undir morgun. Gömul vinkona mín sem sat í bæjarstjórn á þessum tíma hefur sagt við mig að hún hafi ekki nennt að sitja undir þessu "málþófi", hún hafi margt annað haft við sinn tíma að gera. Hún snéri sér því að öðru en að sitja í bæjarstjórn.
Í dag eru aðrir tímar uppi þegar kemur að lengd funda á sveitarstjórnarstiginu. Nú standa fundir yfirleitt ekki lengi yfir og menn koma sér að kjarna málsins eins fljótt og hægt er. Þarna tala ég af eigin reynslu, sitjandi í bæjarstjórn Fjallabyggðar. Það má því segja að sveitarstjórnarstigið sé áratugum á undan Alþingi hvað þessi mál áhrærir. Ég er á því að það þurfi að færa starfsemi Alþingis til nútímans. Ég er jafnframt á því að það eigi að takmarka ræðutíma alþingismanna með einhverju móti.
Þær breytingar sem nú er verið að ræða í þinginu eru til bóta að mínu mati. Þó svo að við framsóknarmenn séum í stjórnarandstöðu þá viljum við standa að breytingum til bóta hvað þessi mál áhrærir. Ég er þess fullviss að Samfylkingin hefði á síðasta kjörtímabili ekki brugðist við líkt og við framsóknarmenn gerum nú í stjórnarandstöðunni.
Það er ríkur vilji fyrir því af hálfu okkar framsóknarmanna að leita leiða til að koma á breytingum á þingsköpum í sátt. Vonandi verður það lendingin. Málflutningur Vinstri grænna í dag er samt af þeim toga að það er ekki hægt að sitja þegjandi undir því. Þar segja Vinstri grænir meðal annars að verið sé "að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar fyrir sporslur sem ekki hafi í sjálfu sér neina grundvallaþýðingu fyrir stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu eða minnihluta á Alþingi. Það sé hins vegar að gerast í þessu máli, meirihlutanum og framkvæmdavaldinu í hag".
Þarna er verið að gefa eitthvað í skyn sem mér fellur ekki í geð og ég hafna því algjörlega að eitthvað misjafnt búi að baki þessum breytingum. Þó svo að ég sé í stjórnarandstöðu þá merkir það ekki að ég sé sjálfkrafa á móti öllu. Hvað þá að eitthvað misjafnt sé í gangi þó svo að ég standi með þorra þingheims, líkt og í þessu máli. Þessu verða Vinstri grænir að átta sig á.
![]() |
Ekki til umræðu að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook
2.12.2007 | 15:45
Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað?
Það fór líkt og mig grunaði að það væri hægt að sjá skýran mun á stöðu húsnæðismála eftir því hvort Sjálfstæðisflokkurinn fer með völd eða þeir flokkar sem eru vinstra megin hann. Ég sendi á dögunum fyrirspurn í þingið sem beint var til félagsmálaráðherra um fjölda félagslegra íbúða í þremur sveitarfélögum; Reykjavík, Seltjarnarnes og Garðabær. Svarið var þetta:
Í Reykjavík voru 8 félagslegar íbúðir á hverja 1000 íbúa í árslok 1998. Í árslok 2006 voru 14 félagslegar íbúðir á hverja 1000 íbúa. Í Garðabæ voru 0,9 félagslegar leiguíbúðir á hverja 1000 íbúa í árslok 1998. Í árslok 2006 var hlutfallið 2,8 íbúðir. Á Seltjarnarnesi voru íbúðirnar 2,8 í árslok 1998. Í árslok 2006 var hlutfallið 2,9 íbúðir á hverja 1000 íbúa.
Þetta eru sláandi staðreyndir, ekki síst þegar talið berst að erfiðri stöðu fólks á leigumarkaðnum. Í tíð R-listans þá fór hlutfallið úr 8 í 14 íbúðir á meðan að meirihlutar Sjálfstæðisflokksins á Nesinu og í Garðabæ voru með tæpar 3 félagslegar leiguíbúðir á hverja 1000 íbúa í árslok 2006. Hvernig ætli standi á þessu? Af hverju ætli að ekkert sé fjallað um þessar staðreyndir þegar kemur að umræðu um bága stöðu fólks á húsnæðismarkaðnum og löngum biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði? Á Reykjavíkurborg ein að bera ábyrgðina í þeim efnum?
Ég benti á það um daginn að Íbúðalánasjóður hefur á síðustu árum haft heimildir til að veita lán til 400 félagslegra leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum (sem ríkið niðurgreiðir). Slíkar leiguíbúðir eru því með mun lægri leigu en gengur og gerist á almennum leigumarkaði. Því miður hefur ekki verið nægilega góð nýting á þessum 400 íbúða "potti" Íbúðalánasjóðs. Mjög takmarkaður áhugi hefur verið af hálfu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til að nýta sér þessi niðurgreiddu lán. Nema þá Reykjavíkurborg sem lengi vel fjölgaði félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári. En áhugi nágrannasveitarfélaganna, þar sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana, hefur nær enginn verið í þá átt að fjölga félagslegum leiguíbúðum.
Eins og Ólafur Ragnar á Næturvaktinni hefði sagt: Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað?
1.12.2007 | 15:45
Ríkisstjórnin veit ekki sitt rjúkandi ráð, ég hef áhyggjur af því...
Hún var æði sérstök umræðan sem fór fram í þinginu í gær um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Sérstök segi ég, já því útlínur fjárlagafrumvarpsins liggja ekki fyrir. En eru óafgreidd mál á milli ríkisstjórnarflokkanna sem bíða 3. umræðu. Hjá fyrri ríkisstjórn lágu útlínur fjárlagafrumvarpa fyrir við 2. umræðu og yfirleitt ekki gerðar breytingar á frumvarpinu á milli 2. og 3. umræðu fjárlaga. Það var mikil festa í fjárlagagerðinni þá en nú eru upprunnir nýir tímar. Því var ekki hægt að úttala sig um fjárlagafrumvarpið eins og hefð er fyrir við 2. umræðu því enn á eftir að gera miklar breytingar á því.
Það kom í ljós í fjárlagaumræðunni að ríkisstjórnarflokkarnir ganga ekki í takt við eina mikilvægustu fjárlagagerð seinni ára. Við framsóknarmenn bentum á í umræðunni að fjárlögin muni leiða til enn meiri þenslu og verðbólgu. Við hvöttum til aðhalds líkt og Seðlabankinn, Standard og Poors (Stöndugir og fátækir í þýðingu Bjarna Harðarsonar, þingmanns), greiningardeildir bankanna og aðilar vinnumarkaðarins hafa gert. Ríkisstjórnarmeirihlutinn tekur hins vegar ekkert mark á þessum aðvörunarorðum. Það er mikið áhyggjuefni.
Það er því mikil umræða framundan við 3. umræðu fjárlaga og í raun vitum við ekki hvert stefnir eins og sakir standa. Ég held svei mér þá að ríkisstjórnin viti ekki sitt rjúkandi ráð og ekki fer mikið fyrir hamingjunni á stjórnarheimilinu. Ég hef áhyggjur af þessu samstöðu- og hamingjuleysi á stjórnarheimilinu. Ég verð að segja það.
30.11.2007 | 15:46
Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, ég er stoltur!
Ég var við vígslu Kárahnjúkavirkjunar nú áðan á Hilton hótel. Því miður var ekki flogið austur í morgun vegna veðurs en tæknimenn Landsvirkjunar gerðu sitt besta með því að hafa athöfnina í fjarfundi. Þetta var sérlega hátíðleg stund og margt sem flaug í gegnum hugann á meðan á athöfninni stóð.
Það hefur gengið á ýmsu í tengslum við þessar framkvæmdir, framkvæmdir sem eru náttúrulega stórkostlegt verkfræðilegt afrek. Mikil mótmæli og umræður um að þarna væri ekki nægilega vandað til verks og þar fram eftir götunum hafa einkennt þjóðfélagsumræðuna á síðustu árum. Trúlega hefur engin framkvæmd fengið eins mikla gagnrýni og verið mótmælt eins harðlega og Kárahnjúkavirkjun.
Framsóknarflokkurinn hefur fundið sérstaklega fyrir mikilli andstöðu við Kárahnjúkavirkjun. Það verður að segjast eins og er að andstæðingar framkvæmdarinnar hafa sérstaklega ráðist að Framsóknarflokknum í umræðunni. Það kemur í rauninni ekkert á óvart. Framsóknarflokkurinn leiddi þetta framfaramál til lykta, sem var síður en svo auðvelt pólitískt.
Ég er stoltur af því að tilheyra stjórnmálaflokki sem gafst aldrei upp í sinni baráttu að af þessari miklu framkvæmd yrði. Sumir aðrir stjórnmálaflokkar, líkt og Samfylkingin og Frjálslyndir, gáfust upp í þessum erfiða máli þannig að margir þingmenn skiluðu auðu þegar að atkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun kom eða voru á móti.
Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa í Reyðarfirði munu skila íslensku þjóðarbúi milljarðatugum í tekjum á næstu árum. Þannig verður áfram hægt að standa undir öflugu velferðarkerfi á Íslandi. Jafnframt er tryggt að Mið-Austurland verður blómlegt atvinnusvæði og ég fullyrði að ef að þessari framkvæmd hefði ekki orðið þá væri staða byggðarlaga á Mið-Austurlandi í dag graf alvarleg.
En það þarf að huga að öðrum þáttum í tengslum við þessa atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Samgöngubætur, uppbygging mennta- og heilbrigðismála er eitthvað sem ég get nefnt í fljótheitum. En það er efni í pistla síðar hér á síðunni. En til hamingju með daginn Austfirðingar og aðrir Íslendingar, þ.e. þeir sem studdu þessa framkvæmd. Stórum áfanga er náð.
Það er staðreynd að hluti þjóðarinnar var (og er) á móti þessari framkvæmd. Ég virði þau sjónarmið og trúlega er sá hópur landsmanna ekki að upplifa sömu tilfinningar og ég ber í brjósti í dag. Það er skiljanlegt. En vonandi verður í framtíðinni hægt að leiða saman sjónarmið nýtingarsinna og verndunarsinna. Því miður er enn langt í land í þeim efnum sýnist mér.
![]() |
Ræs! sagði Össur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |