Glæsileg innkoma Jóns Björns Hákonarsonar

Fyrsta mál á dagskrá þingsins í gær var fyrirspurn mín til landbúnaðarráðherra um jarðamál. Varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, Jón Björn Hákonarson sem er búsettur í Fjarðabyggð, settist á þing þennan sama dag. Vinur minn, Jón Björn, lét ekki á sér standa og kvaddi sér hljóðs nærri því um leið og hann settist í þingmannsstólinn. Var haft á orði að trúlega hefur varaþingmaður ekki verið eins snöggur í ræðustól Alþingis og Jón Björn. Það liðu einungis 17 mínútur þangað til að hann hafði lokið sinni jómfrúarræðu. Glæsileg innkoma hjá Jóni Birni!

Annars er það svo að mannval er mikið þegar litið er til Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Prófkjör hafa verið haldin fyrir síðustu tvennar Alþingiskosningar og hafa um og yfir 20 einstaklingar gefið kost á sér til setu á listanum í hvort skipti. Ég efa að slíkur fjöldi frambjóðenda hafi oft boðið sig fram fyrir stjórnmálaflokk. Enda hefur þetta mannval endurspeglað útkomu kosninga í kjördæminu, 4 þingmenn fyrir á síðasta kjörtímabili og 3 þingmenn á yfirstandandi kjörtímabili. Það er því enginn bilbugur á framsóknarmönnum í Norðausturkjördæmi frekar en annars staðar á landinu enda flokkurinn kenndur við framsókn.


Löng umræða framundan um fjárlagafrumvarpið og vígsla Kárahnjúkavirkjunar

2. umræða fjárlagafrumvarps ársins 2008 verður á morgun. Ég á von á því að umræður um fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verði miklar og að venju verður trúlega talað inn í nóttina. Það er náttúrulega ófært að hafa slíkt háttarlag á og vonandi munu breytingar á þingsköpum sem nú er verið að vinna að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni.

En á morgun verður óhjákvæmilega farið yfir þá óvissu sem nú einkennir íslenskt efnahagslíf og þá staðreynd að ríkisstjórnin er ekki að nýta fjárlagafrumvarpið sem hagstjórnartæki til að sporna við þenslu og verðbólgu, því miður. Einnig má búast við því að stjórnarflokkarnir verði spurðir að því hvað hafi orðið um öll fögru fyrirheitin frá því fyrir kosningar í vor? Og í raun er það þannig að þegar rætt er um fjárlög næsta árs þá er allt undir. Eins og ég hef áður rakið hér í pistlum mínum þá er margt við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að athuga.

En ég á von á því að vera langt frameftir í þinginu á morgun. Á föstudag verður svo Kárahnjúkavirkjun vígð og læt ég mig ekki vanta á þann tímamótaatburð í sögu þjóðarinnar. Við framsóknarmenn höfum verið í forsvari fyrir þessari uppbyggingu sem við erum stolt af. Það kostaði mikil átök að koma þessu máli í höfn, en það tókst. Það má spyrja sig að því hver staða mála væri á Mið-Austurlandi í dag ef þessar framkvæmdir hefðu ekki farið af stað á sínum tíma?


Opinn fundur um húsnæðismál

Í kvöld standa ungir framsóknarmenn fyrir opnum fundi um húsnæðismál. Eins og fram hefur komið er staða ungs fólks á húsnæðismarkaðnum í dag mjög erfið og það þarf að leita allra leiða til að bæta þar úr. Samband ungra framsóknarmanna hefur lýst því yfir, í orði og riti, að hér sé um að ræða mál til úrlausnar sem þolir enga bið.

Frummælendur í kvöld verða auk mín, Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og Brynjar Fransson, fasteignasali. Það verður athyglisvert að heyra þau erindi og umræður sem munu skapast um þessi mál í kvöld. Ég hef heyrt á síðustu vikum að þessi mál brenna á fólki. Við framsóknarmenn höfum tekið húsnæðismálin upp á vettvangi þingsins en ekki fengið nein svör um hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þessum efnum. En það er aldrei að vita nema að hugmyndir að lausnum verði til á fundinum í kvöld...

Eins og áður sagði þá er fundurinn öllum opinn. Hverfisgata 33 kl. 20:00.


Nei, hættið nú alveg!

Nú er búið að ákveða að sameina Veiðistjórnunarsvið (sem er staðsett á Akureyri) og Náttúrfræðisvið Umhverfisstofnunar. Þar með fækkar forstöðumönnunum um einn og á forstöðumaður hins nýja sviðs að vera staðsettur í Reykjavík. Þannig er veigamikið opinbert embætti flutt frá Akureyri til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er ekki í takt við fagurgala Samfylkingarinnar þegar rætt var um "störf án staðsetningar" fyrir kosningarnar í vor. Ég hef farið fram á utandagskrárumræðu í þinginu um þetta mál við umhverfisráðherra til að fá skýringar á þessu. Ég hef staðið í þeirri trú að Veiðistjórnunarsviðið hafi staðið sig vel í þeim verkefnum sem það hefur sinnt, hef m.a. heyrt í veiðimönnum sem hafa átt ágætt samstarf við Veiðistjórnunarsviðið.

Ég verð að segja eins og er að ég veit ekki alveg hvert þessi ríkisstjórn er að fara. Þessi áhersla ríkisstjórnarinnar kemur ofan í nær engar mótvægisaðgerðir gagnvart Akureyri vegna samdráttar í þorskveiðiheimildum, engan stuðning ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og ekki eru Vaðlaheiðargöng í sjónmáli. Það er náttúrulega leiðinlegt að þurfa að benda á þetta en hér er einungis um staðreyndir að ræða, því miður. Hvað skyldi bæjarstjórnarmeirihlutinn á Akureyri, sem er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, segja um stöðu þessara mála? Eða þá þingmenn stjórnarflokkanna í Norðausturkjördæmi?


Langanesbyggð í sóknarhug og eftirminnileg útför í Skagafirði

Ég gat því miður ekki mætt á ráðstefnu um atvinnumál í Langanesbyggð síðastliðinn laugardag. Það er lofsvert framtak hjá byggðarlögum sem glíma við mikla erfiðleika í ljósi mikils niðurskurðar á þorskveiðiheimildum að hafa frumkvæði af þessu tagi. Á fundum sem þessum koma fram hugmyndir íbúa sem vinna þarf betur að og um leið hvatning til frumkvæðis. Langanesbyggð á hrós skilið fyrir þetta framtak sitt sem mun vafalaust leiða einhverja góða hluti af sér. Ég á örugglega eftir að heyra í Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra, á næstunni.

Aðstæður innan sveitarfélagsins eru mjög ólíkar. Annars vegar er um Þórshöfn og nágrenni að ræða þar sem að mikill kraftur hefur einkennt atvinnulífið og þar með mannlífið. Hins vegar hefur Bakkafjörður átt undir högg að sækja og vonandi munu einhverjar tillögur líta dagsins ljós til að staða mála batni þar.

Ég er einn af þeim sem hef kallað eftir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hins vegar megum við ekki loka augunum fyrir því að það er fyrst og fremst frumkvæði heimamanna sem skiptir máli í atvinnusköpun. Ríkið á svo að styðja við góðar hugmyndir þannig að þær geti orðið að veruleika. Þannig skiptir það miklu máli að ríkisvaldið taki vel í hugmyndir og geri eitthvað raunverulegt til að úr þeim geti orðið.

En ástæður þess að ég gat ekki sótt atvinnumálaráðstefnuna sl. laugardag var útför Guttorms Óskarssonar, forystumanns framsóknarmanna í Skagafirði til áratuga. Ég man að á árunum mínum í Fjölbrautaskóla N-vestra á Sauðárkróki þá var Guttormur orðinn goðsögn í lifanda lífi, þannig var um hann talað. Útförin var hátíðleg og sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur, flutti einstaklega góð minningarorð um Guttorm. Þar fór maður sem lagði margt til samfélagsins á sinni ævi.


Það er enginn uppgjafartónn í Fjöllungum!

Ég sótti fund á vegum Atvinnumálanefndar Dalvíkurbyggðar í gær. Þar var meðal annars verið að fjalla um þau tækifæri sem skapast í kjölfar opnunar Héðinsfjarðarganga. Margar hugmyndir eru uppi á borðinu í dag og mikilvægt að byggðirnar á Tröllaskaganum nýti þann tíma fram að opnun Héðinsfjarðarganga vel. Framhaldsskóli í Ólafsfirði, samvinna í heilbrigðis- og félagsmálum ásamt því að nýtt heildstætt atvinnusvæði myndast gefur mikil tækifæri.

Á fundi í atvinnu- og ferðamálanefndar Fjallabyggðar (sem er sameinað sveitarfélag Ólafsfjarðar og Siglufjarðar) var í dag fjallað um þessi mál. Mikilvægt er að sveitarfélögin Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Skagafjörður eigi samstarf um uppbyggingu á sviði ferðamála í ljósi þeirra samgöngubóta sem Héðinsfjarðargöngin eru. Það eru mikil tækifæri sem felast í samstarfi sem þessu og það þarf að nýta tímann vel fram að opnun ganganna. Nefndin beindi því til bæjarráðs að koma slíku samstarfi á hið fyrsta.

Það dylst engum að staða margra byggðarlaga á landsbyggðinni er mjög erfið í ljósi niðurskurðar ríkisstjórnarinnar á þorskveiðiheimildum sem var arfavitlaus ákvörðun. Því miður gagnast svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar sveitarfélaginu Fjallabyggð ekki neitt. Þrátt fyrir það munu heimamenn ekki leggja árar í bát. Það er gott að búa í Fjallabyggð og við munum leita allra leiða til að efla sveitarfélagið okkur þó svo að ríkisstjórnin leggi ekkert til málanna. Ég vil þó leyfa mér að vona að liðstyrkur verði í ríkisvaldinu á erfiðum tímum, tíminn mun leiða það í ljós.


Vindhanapólitík á hæsta stigi

Þrátt fyrir ótrúlegt vaxtaumhverfi hér á landi í dag þá eru vextir Íbúðalánasjóðs í dag lægri en þegar húsbréfakerfið var og hét. Þá voru vextir 5,1% en til viðbótar voru oft á tíðum gríðarleg afföll af þeim. Enda var það svo í kjölfar breytinga okkar framsóknarmanna á húsnæðiskerfinu að vextir Íbúðalánasjóðs stórlækkuðu, allt niður undir 4%. Sú kerfisbreyting sem átti sér stað árið 2004 var því góð, húsnæðiskaupendum til heilla.

Það er því beinlínis hlægilegt að heyra Össur og Jóhönnu tala um úrelt húsnæðiskerfi. Það kerfi, lánakerfi Íbúðalánasjóðs, er það besta á markaðnum í dag enda eru vextir Íbúðalánasjóðs allt að tveimur prósentum lægri en viðskiptabankanna. Af hverju ætli Samfylkingin láti svona út í 90% lán Íbúðalánasjóðs og Framsóknarflokkinn? Samfylkingin hældi þessum breytingum þegar þær voru innleiddar á sínum tíma og reyndar var það svo að allir flokkar á Alþingi studdu þessar breytingar. Hvers lags vindhanapólitík er þetta hjá Samfylkingunni? Nú er það svo að aðrir flokkar en Samfylkingin dettur ekki í hug að haga sínum málflutningi með þessum hætti. Það sjá allir sem vilja sjá að glórulaus yfirboð viðskiptabankanna haustið 2004 var ein af höfuðástæðum þenslunnar. Ekki takmörkuð útlán Íbúðalánasjóðs sem hafa dregist saman á síðustu árum.

En andvaraleysi ríkisstjórnarinnar er með eindæmum þegar kemur að húsnæðismálunum. Öll stóru loforð Samfylkingarinnar hafa gufað upp. Hvað varð um áherslurnar í vaxtabótum, húsaleigubótum, afnámi stimpilgjalda og svo framvegis? Það er kannski bara eðlilegt að málflutningur kratanna skuli vera svo fáránlegur sem raun ber vitni, því nú eru þeir í vondum málum. Það verður erfitt (og nær útilokað) að standa við öll yfirboðin og loforðin. En Samfylkingunni hefur verið ráðið heilt, hér á þessari bloggsíðu og víðar; Að hætta gylliboðunum og láta verkin tala.


mbl.is Össur tengdur stjórninni á daginn en stjórnarandstöðu á nóttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að skammast sín í dag?

Ég óskaði á dögunum eftir utandagskrárumræðu við félagsmálaráðherra um vanda ungs fólks á húsnæðismarkaðnum. Því miður náði sú umræða ekki fram að ganga þar sem að svipuð umræða var á dagskrá þingsins í dag. Katrín Jakobsdóttir var málshefjandi.

Staða mála á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu í dag er óviðunandi. Gríðarlega háir vextir viðskiptabankanna, hátt lóðaverð, hátt fasteignaverð og sú árátta ríkisstjórnarinnar að hefta starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur valdið því að ungt fólk á í miklum erfiðleikum að koma sér þaki yfir höfuðið í dag. Að sjálfsögðu á það við um ýmsa aðra hópa og það þarf einnig að skoða sérstaklega.

Svör félagsmálaráðherra voru því miður efnislega engin. Málið er í nefnd sem átti reyndar að vera búin að skila af sér fyrir um 3 vikum. Þegar ráðherra var spurður út í efndir á þeim yfirlýsingum sem hún hefur látið hafa eftir sér þá brást hún ókvæða við. Hún hreinlega réttlætti þá gjörð sína að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Jóhanna marg sagði sem stjórnarandstæðingur að þáverandi ríkisstjórn ætti að skammast sín (hennar eigið orðalag) fyrir að lækka lánshlutfallið í 80%. Félagsmálaráðherrann, Magnús Stefánsson, hækkaði lánshlutfallið í 90% snemma á þessu ári. Eitt af fyrstu verkum Jóhönnu eftir að hún tók við félagsmálaráðuneytinu var að lækka lánshlutfallið í 80%. Þessi aðgerð hefur valdið mörgum húsnæðiskaupendum erfiðleikum og að sjálfsögðu átti fólk ekki von á þessum aðgerðum Jóhönnu miðað við fyrri yfirlýsingar. Hver á að skammast sín í dag?


mbl.is Viðfangsefnið er að snúa þróun á húsnæðismarkaði við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakka ber fyrir það sem vel er gert

Ég tók þátt í umræðum nú áðan í þinginu um réttindi foreldra langveikra barna. Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi sem mun bæta kjör foreldra langveikra barna heilmikið. Hér er um mikið framfaraskref að ræða fyrir þennan þjóðfélagshóp og um bráð nauðsynlega aðgerð að ræða. Farið var út í breytingar á lögum árið 2006 til að bæta kjör þessa hóps. Reynslan hefur sýnt að þeir fjármunir sem áttu að renna til foreldra langveikra barna skiluðu sér ekki, einungis 10 foreldrar hafa á tímabilinu sótt um fjármuni til Vinnumálastofnunar sem á að sjá um útdeilingu styrkjanna. Það var því ljóst að breytinga var þörf, þrátt fyrir góðan vilja Alþingis á sínum tíma.

Ég sat í félagsmálanefnd á síðasta kjörtímabili og sit enn í þeirri nefnd. Ég hlakka til að fara vel yfir þetta mál í þingnefndinni sem vonandi mun afgreiða frumvarpið fyrir áramót, enda veit ég til þess að foreldrar langveikra barna bíða eftir því að þessi réttarbót verði afgreidd sem lög frá Alþingi. Eins og lesendur síðunnar hafa tekið eftir þá hef ég verið iðinn við að veita ríkisstjórninni aðhald og ég hef bent á margt (allt of margt) sem úrskeiðis hefur farið. Hins vegar vil ég líka halda því til haga sem vel er gert (og hef reyndar gert það áður) og segi því af þessu tilefni að Jóhanna stóð sig mjög vel í þessu máli og á hrós skilið fyrir það. 


Um atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi og Vaðlaheiðargöng

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið formlega afstöðu gagnvart álveri á Bakka við Húsavík var efnislega það sem Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi nú áðan við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar. Hann tiltók þó að mögulega mætti skilyrða losunarheimildir Íslands þegar kemur að loftslagsmálum og nýta þær heimildir í byggðalegu tilliti. En hverjar verða losunarheimildirnar í framtíðinni? Mér heyrist að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, tali fyrir því að þær verði minnkaðar ef eitthvað er. Þá er ljóst að það verður ekki mikið til skiptanna.

Því miður hefur orðið viðhorfsbreyting hjá stjórnvöldum gagnvart álveri á Bakka við Húsavík eftir að við framsóknarmenn yfirgáfum ríkisstjórnarfleyið. Síðasta ríkisstjórn var einbeitt í þeim efnum að styðja við þetta stærsta hagsmunamál Norðausturlands en sá stuðningur er horfinn.

Það er ömurlegt, í kjölfar vitlausustu byggðaaðgerðar Íslandssögunnar með allt of miklum þorskniðurskurði, að ríkisstjórnin skuli ekki sjá sóma sinn í því að styðja við bakið á Þingeyingum og Eyfirðingum í þessu máli. Það er allt annað viðhorf sem endurspeglast í verkum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingunni að afloknum kosningum. Fyrir kosningar var fólki lofað eindregnum stuðningi við þetta atvinnuverkefni. Hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin staðið við þessi loforð?

Að lokum, hvað varð um "Vaðlaheiðargöng, gjaldfrjáls, strax!"??? Það var sérstaklega einn ágætur stjórnmálamaður hamraði mikið á þessu mikilvæga máli í örvæntingarfullum atkvæðaveiðum fyrir síðustu kosningar. Hann er samgönguráðherra í dag...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband