18.11.2007 | 14:29
Obb bobb bobb
Eins og fram kom hér á blogginu í síðustu viku þá fullyrti Árni Páll Árnason að Samfylkingin hefði ekki haft nein áhrif á útgjaldaramma fjárlagafrumvarps ársins 2008. Með þeim málflutningi gerði hann tilraun til að forða Samfylkingunni undan þeim loforðum sem flokkurinn boðaði í aðdraganda síðustu kosninga, t.d. þegar kemur að kjörum lífeyrisþega.
Það skýtur því skökku við að lesa grein eftir Guðbjart Hannesson, þingmann Samfylkingarinnar, í Skessuhorni þann 14. nóvember síðastliðinn þar sem hann segir meðal annars þetta í upphafi greinar sinnar: "Nú eru liðnir nokkrir mánuðir frá kosningum og ný ríkisstjórn að semja sín fyrstu fjárlög og nýjar áherslur eru að koma í ljós". Þarna er Guðbjartur, réttilega, að benda á að Samfylkingin hefur sett sínar áherslur inn í fjárlagafrumvarp ársins 2008. Enda væri annað stórfurðulegt og slíkur flokkur ætti ekki mikið erindi í ríkisstjórn ef hann hefði ekki áhrif á fjárlagafrumvarpið.
Það er samt sem áður mikilvægt að þeir félagar, Árni Páll og Guðbjartur, setjist niður og samræmi málflutning sinn. Það gengur einfaldlega ekki að hrósa sjálfum sér af góðum hlutum sem í fjárlagafrumvarpinu má finna en í hinu orðinu að reyna að kenna öðrum um það sem miður fer.
17.11.2007 | 12:26
Um orðspor Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst
Guðmundur Ólafsson, sem kynnir sig sem fræðimann við Háskóla Íslands og við Viðskiptaháskólann á Bifröst, hefur að undanförnu verið tíðrætt um hátt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu. Ég get tekið undir með honum að hér er um mikið áhyggjuefni að ræða en er ósammála þeirri fáránlegu greiningu hans að það sé fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn, með liðsinni Íbúðalánasjóðs, sem hefur valdið þessari þróun með svokölluðum 90% húsnæðislánum.
Til upprifjunar þá var það síðasta ríkisstjórn sem kom fram með tillögur um 90% húsnæðislán sem taka átti gildi í áföngum á síðasta kjörtímabili. Ekki var ágreiningur um þetta stefnumið á milli stjórnmálaflokka, enda stóð ekki til að fara með lánin almennt í 90% fyrr en undir lok kjörtímabilsins, ef efnahagsaðstæður hefðu leyft það.
Bankarnir vöruðu hins vegar sérstaklega við því árið 2003 að ef of geyst yrði farið í þessar breytingar þá myndi það valda þenslu á húsnæðismarkaðnum. Því kom það verulega á óvart, haustið 2004, þegar bankarnir komu með offorsi inn á markaðinn með allt að 100% endurfjármögnunarlán. Afleiðingin var sú að hundruð milljarða streymdu út úr bönkunum til almennings sem nýtti fjármunina meðal annars í gríðarlega einkaneyslu. Á sama tíma auðveldaði Seðlabankinn þessi útlán bankanna með því að losa um bindiskyldu þeirra og því hægara um vik fyrir þá að dæla peningum út á markaðinn. Þessi aðgerð bankanna olli miklu meiri þensluáhrifum en títtnefnd stóriðjuuppbygging á Austfjörðum. Þess ber einnig að geta þegar bankarni ruddust inn á húsnæðismarkaðinn þá voru hámarkslán íbúðalánasjóðs 9,7 milljónir króna.
Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóður hefur í reynd boðið upp á 90% húnsæðislán allt frá stofnun sjóðsins árið 1999. Almennt lánshlutfall var þó 70% en þeir sem bjuggu við erfiðar aðstæður og þurftu sérstaka aðstoð við íbúðakaup áttu kost á svokölluðum viðbótarlánum og fór lánshlutfallið þá upp í 90%. Alls voru 13.500 viðbótarlán afgreidd á árunum 1999-2004. Þak var (og er) á hámarkslánum sjóðsins og lánaði hann eingöngu til íbúðakaupa en ekki einkaneyslu eins og bankarnir.
Eftir að bankarnir hófu innreið sína á fasteignamarkaðinn árið 2004 (þrátt fyrir aðvörunarorðin árið 2003) urðu stjórnvöld að svara þeirri spurningu hvort að halda ætti úti Íbúðalánasjóði. Svarið var að standa ætti vörð um Íbúðalánasjóð enda hefði hann mikilvægu hlutverki að gegna og var lánshlutfall sjóðsins hækkað í 90%, mun fyrr en áætlað hafði verið. Þrátt fyrir þetta þá drógust útlán Íbúðaláns saman á meðan að útlán bankanna jukust gríðarlega. Taumlaus útlán bankanna er því önnur megin skýringin þegar kemur að mikilli hækkun húsnæðisverðs. Þeim tókst þó ekki að hrekja Íbúðalánasjóð út af markaðnum eins og lagt var upp með, og eru eflaust flestir fegnir því að svo varð ekki.
Hin megin skýringin er stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bjóða upp lóðir í sinni eigu. Afleiðingin er sú að verð á lóðum hefur margfaldast á síðastliðnum árum og sveitarfélögin hafa hagnast um milljarða sem hefur auðvitað skilað sér út í húsnæðisverðið. Áður fyrr létu sveitarfélögin íbúum sínum í té lóðir á lágu verði en nú er lóðasalan orðinn einn stærsti tekjustofn margra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hin meginskýringin á því af hverju húsnæðisverðið hefur hækkað svo mikið sem raun ber vitni.
Það er áhyggjuefni fyrir orðspor Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst að fræðimaður á þeirra vegum skuli koma fram á völlinn með slíkar rangfærslur sem raun ber vitni. Ekki skyldi vera að málflutningur Guðmundar Ólafssonar helgist af því að ná fram pólitískum markmiðum frekar en að fjalla fræðilega um málaflokkinn? Skyldi kennsla hans í hagfræði við þessa háskóla vera með þessum hætti? Ég á bágt með að trúa því, en hvað á maður að halda?
15.11.2007 | 19:36
Samfylkingin hafði ekki áhrif á útgjaldaramma fjárlagafrumvarps ársins 2008!
Ég var í umræðu í þinginu nú áðan um breytingar á stjórnarráðinu, þ.e. tilfærslur á verkefnum á milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyta. Margt þar hljómar skynsamlega en þó er margt mjög óljóst og mjög stuttur tími til stefnu, til breytinga á stórum málaflokkum.
Í umræðunni bar ég saman loforð Samfylkingarinnar í málefnum aldraðra og öryrkja fyrir kosningar og efndir í fjárlagafrumvarpi ársins 2008. Þar er ekki að finna þær kjarabætur sem Samfylkingin lofaði. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, upplýsti mig um að það væri ekki Samfylkingunni að kenna að staðan sé þessi heldur væri við síðustu ríkisstjórn að sakast! Ég hélt að ég dytti út af stólnum við þessa ummæli. Þingmaðurinn sagði að útgjaldaramma fjárlaga ársins 2008 hefði verið lokað 29. maí sl. Samfylkingin hefði einfaldlega engu getað ráðið. Fjárlagafrumvarp ársins 2008 er samkvæmt þessu á ábyrgð Framsóknarflokksins. Ef Framsóknarflokkurinn ber svona mikla ábyrgð á þessu öllu þá hefði mér fundist lágmark hjá ríkisstjórninni að leggja fjárlagafrumvarpið fyrir Þingflokk framsóknarmanna til samþykktar.
Ég verð að segja að ég á ekki til orð yfir þessari röksemdafærslu. Samfylkingin hafði júní, júlí, ágúst og september til að koma sínum áherslumálum sínum í fjárlagafrumvarp ársins 2008. Samþykkti Samfylkingin sl. vor að það væri alfarið mál Sjálfstæðisflokksins að leggja fram fjárlagafrumvarpið? Come on, eigum við að trúa þessu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook
15.11.2007 | 15:20
Að skreyta sig með stolnum fjöðrum
Fyrsta þingmálið mitt, þegar ég settist á þing árið 2003, var þingsályktunartillaga um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Eitt af síðustu verkum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var staðfesting þess að framhaldsskóli muni rísa við utanverðan Eyjafjörð haustið 2009, um svipað leyti og Héðinsfjarðargöngin munu opnast.
Í framhaldi af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa heimamenn, Fjöllungar og Dalvíkingar, unnið mikla heimavinnu í mjög góðu samstarfi. Nú stendur ekkert í vegi fyrir því að ráðinn verði verkefnastjóri sem hafi með höndum þá uppbyggingu sem framundan er. Móta þarf námsframboð og sérstöðu skólans, taka ákvörðun um rekstrarform skólans og koma af stað byggingaframkvæmdum í Ólafsfirði þar sem höfuðstöðvar skólans verða. Verkefnastjórinn þarf að halda utan um þessa vinnu.
Uppbygging framhaldsskólans er eitt stærsta framfaraspor fyrir byggðirnar við utanverðan Eyjafjörð á síðari árum. Á erfiðum tímum í byggðaþróun þá er stofnun skólans ljós í myrkrinu og mun verða mikil lyftistöng fyrir byggðirnar. Hins vegar er broslegt að hlusta á Samfylkinguna tala um stofnun skólans sem eina af mótvægisaðgerðum núverandi ríkisstjórnar. Það er einfaldlega ósatt. Það var síðasta ríkisstjórn sem lýsti yfir að skólanum yrði komið á fót haustið 2009. Að gefa það í skyn að stofnun framhaldsskólans sé ný ákvörðun kallast að skreyta sig með stolnum fjöðrum.
14.11.2007 | 14:32
Björgvin sá að sér og er maður að meiri
Í dag var ég með fyrirspurn á viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, um eldsneytisverð og flutningskostnað. Ég hef talað eindregið gegn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka eldsneytisverð heimila og fyrirtækja á landsbyggðinni með því að leggja af flutningsjöfnun á olíuvörum. Ég hef talað fyrir þessu innan Alþingis, á fundum vítt og breitt um land og hér á blogginu.
Viðskiptaráðherra, sem svaraði sinni fyrstu fyrirspurn í þinginu í dag, dró karlmannlega tillögu sína til baka um niðurlagningu Flutningsjöfnunarsjóðs. Staðreyndin er sú að verðmunur á eldsneyti innanlands er gríðarlegur í dag. 95 oktana bensín á Þórshöfn kostar tæpar 134 krónur á meðan að hægt er að fá samskonar bensín á Höfuðborgarsvæðinu á rúmlega 127 krónur. Við þetta er einfaldlega ekki búandi og þetta þarf að skoða sérstaklega. Í ofan álag, ef Flutningsjöfnunarsjóður hefði verið lagður af, hefði verðmunurinn trúlega farið í 9-10 krónur.
Ég spurði ráðherrann einnig um sérstakt 150 milljón króna framlag til að lækka flutningskostnað til Vestfjarða. Það er hið besta mál að lækka flutningskostnað Vestfirðinga en staðreyndin er einnig sú að mörg landssvæði búa við samskonar skilyrði og Vestfirðingar; Við fólksfækkun, tekjusamdrátt og háan flutningskostnað. Hægt er að nefna svæði sem glíma við samskonar vanda: Norðurland vestra, Norðausturland og Suðausturland svo dæmi séu nefnd. Á sumum stöðum á þessum svæðum er flutningskostnaður hærri en á Vestfjörðum. Því stenst það ekki jafnræði að íbúar á þessum svæðum njóti ekki svipaðra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins.
Svar ráðherrans var ekki eins og gott í þessu tilviki og með Flutningsjöfnunarsjóðinn. Hann sagðist ætla skipa starfshóp sem færi yfir þetta og í framtíðinni, ótilgreint, kæmi til greina að lækka flutningskostnaðinn með þeim hætti sem nú er gert á Vestfjörðum. Á Íslensku þýðir það að trúlega munu ekki verða framlög á fjárlögum vegna þessa á næsta ári.
Það er ekki boðlegt að þessi svæði þurfi að bíða í 2-3 ár eftir því að flutningskostnaðurinn lækki. Nú þurfa sveitarstjórnarmenn á þessum landssvæðum að láta heyra í sér. Einnig spyr ég mig að því, hafandi verið í stjórnarmeirihluta, hvort stjórnarþingmenn viðkomandi kjördæma ætli að láta það ganga yfir sig að Vestfirðir einir fái fjármuni til að lækka flutningskostnað? Eru þeir grút máttlausir í þessu máli?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook
13.11.2007 | 17:54
Munu kjör aldraðra og öryrkja versna á næsta ári?
Kjör aldraðra og öryrkja voru mikið í umræðunni í kosningabaráttunni í vor. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á þennan málaflokk sem og talsmenn núverandi ríkisstjórnar sem lofuðu því að kjör þessara hópa myndu batna. En hver er staðreyndin þegar horft er til fyrsta fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar?
Á næsta ári eiga lífeyrisgreiðslur að hækka um 3,3%. Gert er ráð fyrir að hækkun kaups á almennum markaði verði 5,5%. Ríkisstjórnin gerir því ráð fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja muni dragast verulega aftur úr kjarabætum á almennum launamarkaði. Er þetta í takt við yfirlýsingar samfylkingar- og sjálfstæðismanna í aðdraganda kosninganna í vor?
Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að hækkun á neysluverðsvísitölu verði 3,3%. Margt bendir til að verðbólgan verði hærri en það. Ef svo verður og tekjur lífeyrisþega hækka um 3,3% þá munu kjör aldraðra og öryrkja skerðast að raungildi á næsta ári. Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga voru talsmenn aldraðra og öryrkja áberandi í umræðunni um að gera þyrfti betur við þessa þjóðfélagshópa. Hvar eru þeir nú?
11.11.2007 | 20:37
Hvað hefur Jón Sigurðsson gert þessu fólki?
Ég verð að viðurkenna að það setur ugg að manni hvernig hlutirnir eru að þróast þegar kemur að náttúruvernd. Ég tek það fram að mörg samtök á því sviði eru að vinna þarft verk þegar kemur að opinni þjóðfélagslegri umræðu um náttúruvernd. En sá ósómi sem hefur vaðið uppi í nafni náttúruverndar er ekki að þjóna hagsmunum náttúrunnar.
Ótrúleg framkoma hóps fólks, til að mynda í tengslum við mótmælin vegna framkvæmdanna fyrir austan þar sem fólki stóð hrein og bein ógnun af hálfu hóps róttæklinga er graf alvarlegt mál. Nærtækt er að minnast þess þegar hópur fólks réðst til inngöngu á skrifstofur Hönnunar á Reyðarfirði um árið. Maður finnur til með lögreglunni þegar hún þarf að gæta almannaöryggis í málum sem þessum. Það svo að setja níðstöng við styttu Jóns Sigurðssonar kallar fram spurningar. Hvað í ósköpunum hefur Jón Sigurðsson gert þessu fólki?
![]() |
Níðstöng reis á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2007 | 19:40
Frábær miðstjórnarfundur á Akureyri
Í dag lauk haustfundi Miðstjórnar Framsóknarflokksins. Fundurinn var haldinn á Akureyri og tókst í alla staði mjög vel. Á annað hundrað framsóknarmanna var á fundinum sem einkenndist af mikilli eindrægni og samhug. Formaður flokksins, Guðni Ágústsson, flutti mjög góða setningarræðu þar sem hann fór vítt og breitt yfir stjórnmálasviðið.
Hlutverk Framsóknarflokksins í dag er mikilvægt, þó svo að flokkurinn haldi ekki lengur um stjórntauma ríkisins. Flokkurinn þarf að veita ríkulegt aðhald, nú á tímum óstöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar og fleiri óvissuþátta. Flokkurinn þarf einnig að halda uppi málefnalegri umræðu um stjórnmálin og koma með nýjar áherslur inn á þann vettvang. Settir hafa verið á fót starfshópar um stefnumótun neytendamála, íbúalýðræðis og um gjaldmiðilinn okkar. Ég bind miklar vonir við stefnumörkun í þessum mikilvægu málaflokkum sem skipta okkur öll svo miklu máli.
Allt ber þetta vott um gróskumikið starf innan Framsóknarflokksins. Framundan er mikil uppbygging flokksins á sveitarstjórnarstiginu og í framhaldinu vöxtur hans á landsvísu. Að loknum þessum fundi og þeim ferska blæ sem sveif yfir vötnum er ég að vonum bjartsýnn á framtíðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook
8.11.2007 | 15:45
Um staðnað húsnæðiskerfi og stefnu Sjálfstæðisflokksins
Nú eru farin að berast svör frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hin ýmsu mál sem vert er að kryfja til mergjar. Fékk í dag svar frá Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, um gamla húsnæðiskerfið sem hún átti svo ríkan þátt í að byggja upp:
1. Hver var fjárhagsleg staða Byggingarsjóðs verkamanna 31. desember 1998, á verðlagi ársins 2007?
Samkvæmt stofnefnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs, sem unninn var af sérstakri matsnefnd og áritaður af KPMG endurskoðun hf. fyrir hönd Ríkisendurskoðunar, var eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna 31. desember 1998 neikvætt um 16.162 millj. kr. eða 24.344 millj. kr. á núverandi verðlagi. Um var að ræða mat á heildarskuldbindingum sjóðsins fyrir allan lánstímann sem var 40 ár.
Eins og margir muna var gamla húsnæðiskerfið úr sér gengið og staðnað. Til viðbótar var Byggingarsjóður verkamanna nær gjaldþrota þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður eins og sjá má á svari frá ráðherranum. Ég vona hins vegar að félagsmálaráðherra muni ganga vel að eiga við fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að húsnæðismálunum en staðreyndin er sú að þeir ráðherrar hafa ætíð staðið á bremsunni þegar kemur að fjárframlögum til félagslegra þarfa í húsnæðiskerfinu.
Í reynd held ég að það sé í raun stefna Sjálfstæðisflokksins að draga markvisst úr félagslegum húsnæðisúrræðum. Því hef ég sent eftirtalda fyrirspurn inn í þingið:
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Garðabæ á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir í Garðabæ á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir á Seltjarnarnesi á hverja 1000 íbúa 31. desember 1998?
- Hvað voru margar félagslegar leiguíbúðir á Seltjarnarnesi á hverja 1000 íbúa 31. desember 2006?
Ég spyr að þessu því ég hef haft það á tilfinningunni að meirihlutar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og á Seltjarnarnesi hafi haft mun minni áhuga á uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis en R-listinn hafði á sínum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega öðruvísi þenkjandi en aðrir flokkar í íslenskri pólitík. En það mun koma í ljós síðar hér á blogginu...
7.11.2007 | 15:23
Hrós dagsins
Ég var með fyrirspurnir í dag á Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra. Ég spurði Jóhönnu út í styttingu vinnuvikunnar. Ég benti þá staðreynd að við vinnum þetta 6-9 stundum lengur í hverri viku en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Þetta kemur að sjálfsögðu niður á heimilunum í landinu eins og ég hef fyrr farið yfir hér á blogginu. Jóhanna tók vel í þetta og ætlar að taka styttingu vinnuvikunnar upp á samráðsfundi ríkisstjórnarinnar með aðilum vinnumarkaðarins. Vonandi að sú umræða beri árangur.
Ég spurði félaga Össur hvort að hann væri reiðubúinn að skoða sérstaklega stöðu þeirra sveitarfélaga á Austurlandi sem eru utan áhrifasvæðis stóriðjunnar. Hann tók vel í það og sagðist ætla að skipa verkefnisstjórn með heimamönnum um málið. Ég benti á í seinna andsvari mínu að það væri þá eðlilegt í þeirri vinnu að skoða háan flutningskostnað sem bitnar á þessum sveitarfélögum. Sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin væri að leggja niður jöfnun á flutningskostnaði á eldsneyti sem mun hækka eldsneytisreikninga þessara byggðarlaga um tugi milljóna króna. Á sama tíma fá Vestfirðir 150 milljónir króna til að lækka flutningskostnað, sem er hið besta mál, en það eru mörg sveitarfélög sem glíma við sambærileg eða jafnvel erfiðari vandamál í byggðalegu samhengi en Vestfirðir. Það er því miður enn nokkuð langt í land að ríkisstjórnin átti sig á þessu.
En svör ráðherranna í dag voru bæði málefnaleg og jákvæð. Fyrir það fá þau Össur og Jóhanna hrós dagsins, sem er mjög sjaldgæft hér á þessari bloggsíðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook