Í þágu hverra starfa sjálfstæðismenn?

Nú er gott að velta fyrir sér, hver ætli staða neytenda verði þegar Íbúðalánasjóði verður bolað út af markaðnum? Það er augljóst að núverandi ríkisstjórn ætlar sér að fara í þá vegferð, enda hafa sjálfstæðismenn sagt að nú sé hægt að gera hluti með Samfylkingunni sem annars ekki hefði verið hægt að framkvæma með framsóknarmönnum. Samfylkingin seldi sig nefnilega ódýrt síðastliðið vor.

En má ég spyrja, í þágu hverra á að gera þessar breytingar? Það er ljóst að kjör almennings munu versna fari Íbúðalánasjóður út af markaðnum. Breytingarnar verða því í þágu fjármagnseigendanna. Og ef við setjum þetta mál í samhengi við REI málið, víðfræga, þar sem sjálfstæðismenn vildu selja almannaeigur á brunaútsölu, þá er eðlilegt að spyrja; Hagsmuni hverra eru sjálfstæðismenn að gæta?


mbl.is Breytt kjör við yfirtöku íbúðalána Kaupþings banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótsdalshérað - Vopnafjörður

Reglubundin bein samskipti við kjósendur eru að mínu mati mikilvægasti þátturinn í starfi þingmannsins. Ég hélt fund á Egilsstöðum í gærkvöldi og í hádeginu í dag var fundur á Vopnafirði. Á fundina mættu allra flokka fólk, enda auglýstir sem opnir fundir. Ég var mjög ánægður með þessa fundi og fékk ég heilmikið í veganestið og ljóst að einhver mál eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að taka þau upp á vettvangi þingsins. Einnig fékk ég ýmis erindi og fyrirspurnir sem ég á eftir að vinna betur í.

Næst á dagskránni er að finna tíma fyrir opna fundi á fjörðunum fyrir austan, í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Sem betur fer er það svo að flugsamgöngur við Norðausturkjördæmið hafa batnað mikið á undanförnum árum sem gerir okkur þingmönnunum betur kleyft að sinna starfi okkar. Ég ætla hins vegar ekki að ræða um flugfargjöldin hér og nú, það þarf heilan pistil til að ræða um verðlagningu og samkeppni á þeim markaði.

Morgundagurinn í þinginu fer í fyrirspurnir þingmanna til ráðherra. Ég er með þrjár fyrirspurnir, meira um það hér á morgun...


Hver er stefnan?

Ég var á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun. Fjármálaráðherra flutti erindi þar sem efnislega kom fram að staða sveitarfélaganna sé almennt ekki slæm. Þetta vakti furðu margra þar sem að ljóst er að mörg sveitarfélög víða um land eiga erfitt með að sinna lögbundnum verkefnum vegna fjárhagserfiðleika sem bitnar á þjónustu við íbúana.

Það vakti einnig athygli mína að fjármálaráðherra telur að sveitarfélögin eigi ekki að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Þetta er þvert á það sem Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði á dögunum. Ég hef fyrr minnst á yfirlýsingagleði Jóhönnu en á ekki að taka það trúanlegt sem ráðherra sveitarstjórnarmála leggur fram? Árni Matt talar í austur en Jóhanna í vestur.

Það er náttúrulega ekki boðlegt að ríkisstjórnin komi fram með þessum hætti gagnvart sveitarstjórnarstiginu. Ég benti á það á dögunum að þessi ríkisstjórn stundar það að leysa innbyrðis deilur sínar á vettvangi fjölmiðlanna. Sá ljóti leikur heldur áfram. En það er von að spurt sé, hvað eiga sveitarstjórnarmenn að halda um stefnu ríkisvaldsins hvað varðar hlutdeild sveitarfélaga í fjármagnstekjuskatti?


mbl.is Ríkið mun veita aðstoð við skuldagreiðsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik Samfylkingarinnar

Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga fóru samfylkingarmenn mikinn þegar rætt var um álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Þingmennirnir Kristján Möller og Einar Már Sigurðarson sögðu að Samfylkingin styddi þetta mikilvæga atvinnuverkefni.

Samfylkingin er nú í lykilstöðu, þar sem bæði iðnaðarráðherrann og umhverfisráðherrann eru í Samfylkingunni. Ég hef ekki fengið það á tilfinninguna að áherslur þessara ráðherra séu að stuðla að atvinnuuppbyggingu við Húsavík með þessum hætti. Þvert á móti, hefur umhverfisráðherra talað gegn atvinnustarfsemi af þessu tagi.

Nú er það svo að gríðarlega mikil vinna hefur verið lögð í þetta stærsta atvinnumál Norðurausturlands á undanförnum árum. Þeir Eyfirðingar og Þingeyingar sem studdu Samfylkinguna síðastliðið vor hljóta nú að hugsa sinn gang. Er það boðlegt að næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins komi fram með þessum hætti og snúi við blaðinu að afloknum kosningum? Hvers lags aumingjagangur er í sjálfstæðismönnum í þessu máli? Er búið að snúa við blaðinu á þeim bænum líka?


Það mun koma að skuldadögum

Ný skoðanakönnun Gallup staðfestir þá tilfinningu mína að staða ríkisstjórnarinnar hefur verið að veikjast að undanförnu. Ríkisstjórnin er ósamstíga og ótrúverðug í mörgum málaflokkum. Þetta eru stór orð en því miður er um staðreynd að ræða.

Það eru einkum ráðherrar Samfylkingarinnar sem hafa verið með miklar yfirlýsingar um að gera eigi svo miklu betur í hinu og þessu og hafa þannig vakið miklar væntingar í samfélaginu. Það væri gott og blessað ef innistæða væri fyrir öllum þessum yfirlýsingum. En því miður er innistæðan nær engin því að um leið og samstarfsflokkurinn er spurður út í yfirlýsingar samfylkingarmanna þá er lítið um undirtektir. Enda er það yfirleitt þannig að þá hefur viðkomandi málefni ekkert verið rætt innan ríkisstjórnarinnar. Það merkir að ekkert er fast í hendi þegar kemur að innihaldslausum loforðum Samfylkingarinnar.

Það er ágæt regla í heiðarlegu samstarfi að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér saman um niðurstöðu mála áður en vaktar eru upp óraunhæfar væntingar hjá almenningi. Því miður er það lenska hjá þessari ríkisstjórn að eiga í viðræðum á vettvangi fjölmiðlanna (minnir mikið á ríkisstjórnarárin 1991-1995). Með þessum vinnubrögðum hafa miklar væntingar myndast í þjóðfélaginu að undanförnu en því miður hefur margt verið svikið í þeim efnum (nú þegar!) og verður óhjákvæmilega svikið í framtíðinni, því engin raunveruleg niðurstaða hefur náðst á milli stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin mun þurfa að horfast í augu við þessa staðreynd þegar fram líða stundir. Við framsóknarmenn bíðum rólegir eftir því að þeir tímar renni upp. Það mun nefnilega koma að skuldadögum.

 


Röng nálgun á úrlausnina

Félagsmálaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Frumvarpið var að miklu leyti unnið undir forystu fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, enda er margt mjög gott að finna í frumvarpinu.

Ég gerði að aðal umfjöllunarefni mínu í umræðum um málið á Alþingi í dag það hróplega óréttlæti sem felst í kynbundnum launamun sem talinn er vera u.þ.b. 15-18% fyrir sambærileg störf. Þó er það svo að ekki er hægt að leita skýringanna í mismunandi menntunarstigi kynjanna enda hafa konur þar sótt mjög á karla og eru víðast hvar að fara fram úr þeim, sé litið til yngri kynslóða a.m.k. Refsigleðin sem hefur einkennt jafnréttislögin undanfarna áratugi hefur ekki skilað okkur jafnrétti þegar kemur að launum kynjanna.

Ég vil sjá aðra nálgun þannig að aðilar séu verðlaunaðir fyrir að standa vel að jafnréttismálum. Fyrirtæki í dag, svo dæmi séu tekin, búa við skattaívilnanir þegar kemur að framlögum til velferðar- og líknarmála. Trúlega vegna þess að stjórnmálamenn hafa viljað sjá breytingar í þá átt að auknum fjármunum yrði varið til þessara málaflokka.

Ég vil sjá að slík leið sé farin til að minnka launamun kynjanna þannig að þau fyrirtæki sem sýni fram á árangur í því að jafna launamuninn fái skattaívilnun. Þannig mætti t.d. hugsa sér 1/2 - 1% lækkun á tekjuskatti þessara fyrirtækja. Með þessu yrði meiri hvati fyrir atvinnulífið til að hækka laun kvenna sem myndi svo skila sér í hærri sköttum til ríkis og sveitarfélaga.

Ég er sannfærður um að með þessari nálgun þá munum við ná þeim árangri að launamunur kynjanna muni minnka og vonandi hverfa á almennum vinnumarkaði í framtíðinni. Þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, setti af stað verkefni sem fólst í jafnlaunavottun, þ.e. að viðurkenna ætti sérstaklega fyrirtæki sem væru til fyrirmyndar í launajafnréttismálum kynjanna. Ég vil ganga lengra og er á því að það eigi að umbuna þeim aðilum sem standa sig í því að útrýma því þjóðarböli sem launamunur kynjanna er.

Við Íslendingar komum með róttækar breytingar á fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfinni á sínum tíma. Með því bættum við réttindi feðra til aukinna samvista við börn sín og ekki síst bættum við réttindi barna til að eiga samvistir við bæði föður og móður. Það er löngu kominn tími á að eyða kynbundnum launamun. Við Íslendingar eigum að stefna að því gera slíkt, fyrstir þjóða.


Sorgleg umræða

Ég mælti áðan fyrir LÍN frumvarpinu hér í þinginu. Því miður líktist umræðan, að lokinni framsögu, sandkassaleik. Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu, fór í andsvar við mig og spurði af hverju ekki væri löngu búið að framkvæma þessa breytingu? Róbert Marshall, úr sama flokki, kom með eins ræðu. Samfylkingin fjallaði að öðru leyti nær ekkert efnislega um málið og tókst hetjulega að koma umræðunni niður á neikvætt plan, um annars jákvætt mál sem er mikið hagsmunamál fyrir íslenska námsmenn. Það verður að teljast afrek út af fyrir sig. Grétar Mar Jónsson kom með svipaða ræðu, fjallaði ekkert efnislega um málið. Það var innlegg Frjálslynda flokksins. Vinstri grænir tóku ekki þátt í umræðunni.

Í svari mínu til "stjórnarandstöðunnar í málinu" fór ég yfir verk okkar framsóknarmanna í menntamálum. Framlög til menntamála hér á landi jukust gríðarlega í tíð síðustu ríkisstjórnar en við erum meðal fremstu þjóða OECD þegar framlög til menntamála eru mæld. Þegar við framsóknarmenn komum í ríkisstjórn árið 1995 þá þurftum við að "hreinsa til" eftir fyrri ríkisstjórn, sem kratarnir Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir áttu sæti í. Sú ríkisstjórn hækkaði endurgreiðslubyrði námslána upp í 7%. Þegar við framsóknarmenn skiluðum af okkur var búið að lækka árlega endurgreiðslubyrði í 3,75%. Allar þessar aðgerðir kostuðu sitt, en það á ekki að líta á framlög til menntamála sem útgjöld heldur fjárfestingu til framtíðar.

Ég hvatti Samfylkinguna til uppbyggilegrar umræðu um málið en án árangurs. Hún henti grjóthnullungum úr glerhúsi með framkomu sinni í dag og stóð náttúrulega á gati þegar ég spurði af hverju núverandi ríkisstjórn gerði ekki ráð fyrir endurgreiðslu á námslánum LÍN í fjárlögum ársins 2008? Nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og lagði fram svipað þingmál á síðasta kjörtímabili!

Samfylkingin gerði heiðarlega tilraun til að eyðileggja umræðuna og lagði ekkert efnislega til hennar, það er þessum flokki til minnkunar. Að hugsa sér að þessi flokkur skuli kalla sig menntaflokk, sá heimagerði stimpill fylgir þeim ekki. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom með mjög gott innlegg í umræðuna og lýsti yfir góðum hug til málsins. Hann snupraði einnig Samfylkinguna með því að segja að hann styddi öll góð mál, hvort sem þau kæmu frá stjórnarliðum eða andstæðingum. Allt í einu upplifði ég að ég var kominn í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn aftur, a.m.k. í þessu máli og Samfylkingin sem fyrr föst í stjórnarandstöðunni.


Háskóli Íslands á Húsavík

Á heimasíðu Þekkingarseturs Þingeyinga er frétt um að ráðinn hefur verið doktorsmenntaður sérfræðingur á sviði sjávarspendýra til setursins. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Þekkingarsetursins. Það eru mikil tímamót í því fólgin að Þekkingarsetrið skuli vera komið í samstarf við HÍ og að Rannsókna- og fræðasetur í sjávarspendýrafræðum skuli vera tekið til starfa á Húsavík.

Trúlega á enginn staður eins vel við, þegar kemur að rannsóknum á hvölum, og Húsavík. Þúsundir ferðamanna koma árlega til Húsavíkur m.a. til að fara í hvalaskoðun og á Hvalamiðstöðina. Húsvíkingar hafa þarna fundið sína sérstöðu og er rétt að tryggja þá sérstöðu í sessi. Það er meðal annars fólgið í því að byggja upp sérfræðiþekkingu og rannsóknir á hvalnum á Húsavík. Húsvíkingar eru á réttri braut.


Hrafninn hefur engu gleymt!

Ég var gestur á Hrafnaþingi í dag hjá Ingva Hrafni Jónssyni. Hann rekur sjónvarpsstöðina ÍNN sem er tiltölulega nýlega komin í loftið. Mætti reyndar í þátt um daginn hjá sömu sjónvarpsstöð hjá Merði Árnasyni þar sem ég mætti Sigurði Kára Kristjánssyni. Það var fínn þáttur.

En þá að þættinum í dag. Hrafninn hefur engu gleymt. Hann var að venju með formála þar sem talað var tæpitungulaust t.a.m. um íslenska fótboltalandsliðið og ferðalög Össurar Skarphéðinssonar í framandi löndum. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf haft mjög gaman af Hrafninum og hlustaði mikið á hann á sínum tíma þegar hann var til húsa á Útvarpi Sögu.

Viðtalið sjálft var ágætt. Karlinn er þægilegur spyrill, enda hokinn af reynslu. Við ræddum um allt á milli himins og jarðar; Það sem hæst ber í þinginu, um Fjallabyggð, samgöngur og fleira.

En nú er Hrafninn kominn með eigin sjónvarpsstöð. Ég vona að þetta muni ganga vel hjá kappanum og get upplýst lesendur síðunnar um að ég verð með reglubundna þætti á stöðinni. Ég hef ekki verið þáttarstjórnandi í sjónvarpi fram til þessa, maður er alltaf að prófa eitthvað nýtt.


Svokallaðar mótvægisaðgerðir og þyrlubjörgunarsveit á Akureyri

Sjómannasamband Íslands hélt formannafund á Akureyri í síðustu viku. Þar er ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir svokallaðar mótvægisaðgerðir og að ekkert samráð hafi verið haft við sjómenn vegna þeirra. Það er nú meira samráðið hjá þessari ríkisstjórn alltaf hreint. Það eru ömurleg öfugmæli að þessi ríkisstjórn gefi sig út fyrir að vera ríkisstjórn sátta og samráðs.

Staðan er grafalvarleg. Sjómenn verða fyrir mikilli tekjuskerðingu og ljóst að öllu óbreyttu að hrun blasir við mörgum sjávarbyggðum í kjölfar samdráttar í veiðiheimildum. Og ríkisstjórnin stendur hjá og kemur með engar raunverulegar mótvægisaðgerðir. Það er ekki hægt að horfa þegjandi upp á þessa þróun.

Fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands skorar jafnframt á Alþingi að staðsetja þyrlubjörgunarsveit á Akureyri. Þessi ályktun er í takt við þá þingsályktun sem ég hef lagt fram á Alþingi, ásamt þingmönnum NA-kjördæmis, og verður vonandi tekin fyrir fljótlega í þinginu. Enda er málið framarlega í forgangsröð Þingflokks framsóknarmanna um mál sem mikilvægt er að taka á dagskrá Alþingis.


mbl.is Sjómannasambandið átelur ríkisstjórnina harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband