29.10.2007 | 13:37
Þingstörfin framundan
Þingstörf hefjast á morgun að lokinni kjördæmaviku. Mig langar að renna yfir það sem er framundan hjá mér í þinginu í örfáum orðum. Ég mun vonandi fá að mæla fljótlega fyrir frumvarpi um að þriðjungur námslána breytist í styrk ljúki námsmaður námi á tilsettum tíma.
Síðan eru það fyrirspurnir. Nokkrar eru til Jóhönnu Sigurðar og snúa að biðlistum eftir búsetu hjá fötluðum og hvað sé í pípunum í fjárlagagerðinni til að stytta þá biðlista. Ég er einnig með spurningar um hvernig félagslega kerfið, sem hún var jú höfundurinn að, stóð þegar við framsóknarmenn tókum við félagsmálaráðuneytinu. Spurningar um styttingu á vinnuvikunni í tengslum við gerð kjarasamninga er einnig beint til hennar.
Fyrirspurn um eignarhald á bújörðum er beint til landbúnaðarráðherra. Fyrirspurn til viðskiptaráðherra um afnám flutningsjöfnunar á eldsneyti og jafnframt um aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í flutningsjöfnunarmálum. Fyrirspurn til félaga Össurar um vanda byggðarlaga á Austurlandi sem eru utan áhrifasvæðis stóriðjunnar.
Flest af þessu eru mál sem ég hef tekið fyrir hér á síðunni og hægt að sjá nánar um í eldri pistlum mínum. Síðan er það svo með þingið að það er ómögulegt að segja til um hvernig þingstörfin framundan þróast, sífellt koma upp mál sem þarf að taka upp í einum grænum á vettvangi þingsins.
28.10.2007 | 15:47
Eru jólin gengin í garð, í október?
Ég heyrði að í gær hafi jólatré verið tendrað í Húsasmiðjunni Skútuvogi, 27. október. Er þetta ekki full snemmt? Ég hef reyndar verið pirraður á verslunum í gegnum árin að "þjófstarta" jólunum með þessum hætti. Ég held að þessi tiltekna verslun hafi a.m.k. verið 3 vikum of fljót á sér í þessu tilviki. Eins má segja um verslanir eins og Hagkaup og IKEA, þar eru jólaskreytingar komnar upp, þrátt fyrir að októbermánuður sé ekki liðinn.
Ég er mikið jólabarn í mér en verð að viðurkenna að sá aðdragandi sem á sér stað fram að jólum, tveggja mánaða langur aðdragandi, hefur áhrif á stemninguna. Það væri óskandi að verslunarmenn tækju sig til og byrjuðu ekki með jólastemninguna fyrr en seinni part nóvembermánaðar. Þær verslanir sem gætu stillt sig í eins og 3 vikur til viðbótar fengju mitt atkvæði þessi jólin.
En í alvöru, að kveikja á jólatrénu 27. október er allt of snemmt fyrir minn smekk og vonandi okkar allra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
27.10.2007 | 14:42
Blessuðu ríkisháskólarnir
Háskóli Íslands hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi. Ég styð þetta markmið heils hugar og tel að við eigum að stefna hátt í þessu sem öðru. Í ræðu sem Kristín Ingólfsdóttir flutti í dag, við brautskráningu tæplega 400 kandidata, kom fram að þetta takmark er síður en svo óraunhæft en skólinn þurfi meiri fjármuni til að ná því markmiði.
Það sem vakti athygli mína var sú ábending rektors að minni hagvöxtur í Evrópu en í Bandaríkjunum síðustu 30 árin stæði í samhengi við slaka uppbyggingu háskólarannsókna í Evrópu. Þetta sýnir okkur hversu mikilvægar rannsóknir á háskólastigi eru fyrir þjóðfélag okkar.
Í þessu samhengi er mér hugsað til Háskólans á Akureyri. Því miður hafa fjárframlög til HA vegna rannsókna verið langt frá því að vera nægjanleg á umliðnum árum. Áherslur menntamálaráðherra hafa legið hjá öðrum skólum. Þó hefur fjárlaganefnd árlega rétt kúrsinn af gagnvart HA, en það verður að segjast eins og er; Betur má ef duga skal.
Ef Háskólinn á Akureyri á að geta rækt hlutverk sitt sem undirstaða menntunar á landsbyggðinni þá verður ákveðin hugarfarsbreyting að eiga sér stað gagnvart skólanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook
26.10.2007 | 14:25
Þurfa alþingismenn kjördæmaviku?
Fyrirsögn dagsins er spurning DV í gær til fólks á förnum vegi. Þar kom m.a. fram hjá viðmælendum að við gætum nýtt jóla- og sumarfríin til þess arna og almennt að við fengjum mikil frí. Þetta virðist vera ríkjandi sjónarmið og ég er sammála því að það á að lengja starfstíma Alþingis og vonandi verða loksins einhverjar breytingar í þeim efnum.
Hins vegar er það svo að kjördæmavikan er trúlega annasamasta vika ársins hjá okkur þingmönnunum (a.m.k. þingmönnum landsbyggðarinnar). Norðausturkjördæmið er gríðarlega stórt kjördæmi, nær frá Siglufirði austur á Djúpavog, og það er því mikið verk að hitta sveitarstjórnir og aðra aðila í þessari viku. Þessu fylgja mikil ferðalög en er um leið eitt skemmtilegasta starf þingmannsins, að eiga í samskiptum við fólk og heyra hvað því liggur á hjarta.
Ég kom til Reykjavíkur að austan í gærkvöldi. Nú er verkefnið að vinna úr því sem fram kom í fjölmörgum viðtölum sem við þingmenn höfum átt við marga aðila úr kjördæminu, ásamt því að sinna þeim erindum sem hafa hlaðist upp í formi tölvupósts og hefðbundins pósts þessa vikuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook
25.10.2007 | 11:09
Íslenska mjólkin og sykursýkin
Mikið hefur verið rætt að undanförnu um innflutning á norskum kúm til að auka hagræðingu í mjólkurframleiðslu. Ég hef fram til þessa verið íhaldssamur gagnvart þessum hugmyndum og vil standa vörð um íslenska kúakynið. Ég hef styrkst í þeirri afstöðu minni eftir að mér barst tölvupóstur í gær þar sem mér var tjáð að í íslensku mjólkinni séu efni sem minnka hættuna á að fólk fái sykursýki 1, efni sem ekki er að finna í norsku mjólkinni.
Þessi staðreynd hefur geirneglt þá afstöðu mína að við þurfum að halda í íslensku mjólkina, þó ekki sé nema fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Ég óska engum að fá sykursýki og aðgerðir sem auka hættuna á því að fólk fái þann arma sjúkdóm eru mér ekki að skapi.
Annars fékk ég ráðleggingar í tölvupósti í gær. Nú er málið að taka eina teskeið af kanil á morgnana sem á að hafa þau áhrif að sveiflur á blóðsykrinum minnki. Ég ætla að prófa þetta, enda hefur kanill ekki gert mér neitt illt hingað til.
24.10.2007 | 10:47
Sveitirnar í eigu örfárra auðmanna?
Í fréttum Stöðvar 2 um daginn kom fram að 15 af 60 bújörðum í Vopnafirði eru komnar í eigu eins aðila. Á fundi þingmanna NA-kjördæmis á Akureyri í gær með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi tók ég þetta m.a. upp og lýstu sveitarstjórnarmenn úr Eyjafjarðarsveit áhyggjum sínum af þessari þróun og áhrifum hennar á byggðirnar.
Ég held að fáir hafi gert ráð fyrir því að þróunin í uppkaupum yrði með þessum hætti. Ákveðinn hópur manna hefur efnast gríðarlega á undanförnum árum og sér nú mikil fjárfestingartækifæri í jörðunum. Það virðist vera takmarkið hjá sumum að eignast heilu firðina.
Ég tel að við þurfum að skoða jarða- og ábúðalög í ljósi þessarar þróunar. Löggjöfin á sínum tíma virðist hafa verið of stórt skref í frjálsræðisátt, því miður. Það þarf að skoða hvaða lög gilda í nágrannalöndum okkar. Þar eru nær alls staðar einhverjar skorður settar fyrir því hversu margar jarðir menn mega kaupa og jafnvel ábúðarkvöð sums staðar.
Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu upp á þingi og ég mun beita mér fyrir því. Ég veit að núverandi landbúnaðarráðherra er vel meinandi maður og vænti ég þess að hann bregðist við þessari þróun. Ekki viljum við sjá landið okkar í eigu örfárra einstaklinga?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook
23.10.2007 | 20:42
Algjör samstaða
Það mál sem við framsóknarmenn höfum lagt hvað mesta áherslu á við upphaf þings er að hluti námslána breytist í styrk sé námi lokið á tilsettum tíma. Ég hef áður bloggað um þetta og biðlaði þá til námsmannahreyfinga að láta málið til sín taka.
Stúdentaráð Háskóla Íslands, Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri og nú Námsmannahreyfingin hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Þetta sýnir að forvígismenn þessara samtaka er umhugað um hagsmuni íslenskra námsmanna. Það verður fróðlegt að sjá, þegar ég mæli fyrir frumvarpinu, hvaða undirtektir verða. Ég trúi ekki öðru, í ljósi fagurgalans í aðdraganda síðustu kosninga, en að frumvarpið nái fram að ganga.
![]() |
Námsmenn fagna frumvarpi um LÍN |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2007 | 14:53
Ekkert er dýrmætara en heilsan
Ábending um mögulega lækningu á sykursýki á heilsusetri á Indlandi var meðal fjölda tölvupósta og sms skilaboða sem ég fékk eftir pistil gærdagsins. Hljómar ótrúlega í mínum eyrum, þar sem ég er með sykursýki 1 sem verður víst fylgikvilli minn það sem eftir er. En það má lifa í voninni og ég mun skoða lækningu Indverjanna betur þegar tími gefst til. Annars var mjög notalegt að fá mikið af hlýjum og góðum kveðjum gær og í morgun. Kveðjur frá fólki sem ég þekki nær ekkert til.
Í einum tölvupóstanna var mér bent á þá staðreynd að fullorðið fólk þarfnast ekki síður hreyfingar en yngri kynslóðin. Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að greiða fyrir íþróttaiðkun ungmenna í borginni. Það var hárrétt ákvörðun enda eitt helsta stefnumál okkar framsóknarmanna í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga. Er ekki tími til kominn að stjórnmálamenn fari að huga að hreyfingu fullorðna fólksins? Í hreyfingu og heilbrigðu líferni felst að heilsa okkar batnar og einhvers staðar stendur að ekkert sé dýrmætara í lífinu en heilsan.
Í ljósi margra góðra hugmynda sem mér hafa borist að undanförnu ætla ég að fylgja málinu eftir innan þingsins og taka það upp gagnvart heilbrigðisráðherra. Ég leyfi ykkur að fylgjast með...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook
22.10.2007 | 11:34
Blessuð sykursýkin
Ég greindist í sumar með sykursýki. Þessi sjúkdómur er ættareinkenni og mjög algengur sjúkdómur í föðurættinni. Það urðu því heilmiklar breytingar á mínu lífsmunstri í framhaldi af því. Ég þarf að passa vel upp á mataræðið ásamt því að sprauta mig þrisvar sinnum á dag. Þetta er býsna mikið bras allt saman en hefur gengið vel, so far so good.
Þar sem ég var nokkuð langt leiddur af sykursýkinni þegar hún uppgötvaðist þá bar ég þess líkamleg merki. Var orðinn mjög slappur svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Ég léttist í kosningabaráttunni um 6 kíló sem má rekja til sjúkdómsins og því ekki mikil vöðvamassi sem á var að byggja.
Því ákvað ég að byggja mig upp og hreyfa mig. Fékk mér einkaþjálfara og hef stundað ræktina eins og ég hef getað. Einkaþjálfari minn, Helgi, er náttúrulega bara snillingur og ég er í miklu betra formi í dag en áður. Það má því segja að sykursýkin hafi gert mér gott til að því leyti að ég stunda í dag mun heilbrigðara líferni en áður fyrr og er (vonandi) að komast í fanta form.
Þetta hefur leitt huga minn að því hvort stjórnvöld sinni í nægjanlega miklu mæli forvarnarstarfi þegar kemur að lýðheilsu? Einnig er vert að skoða hvort ekki sé rétt að styrkja almenning í því að hreyfa sig, t.d. með kostnaðarþátttöku vegna árskorta í ræktinni... Þessir þættir, hreyfing og mataræði, eru nefnilega besta lausnin varðandi það að bæta lýðheilsu og þar af leiðandi minnkar allur kostnaður í heilbrigðiskerfinu. Er verið að vinna markvisst að þessu af hálfu stjórnvalda?
21.10.2007 | 13:14
Engin stefna í kjaramálum
Kjarasamningar eru framundan, trúlega erfiðustu kjarasamningar hin síðari ár. Því er mikilvægt að hið opinbera móti sér raunverulega stefnu, nú þegar, um þau áhersluatriði sem hafa ber í huga í komandi kjarasamningum. Það sem veldur mér hugarangri, og hefur gert í mörg ár, er að hið opinbera skiptist í tvennt þegar kemur að kjarasamningum. Sveitarfélögin hafa sérstaka launanefnd og síðan hefur ríkið sína launanefnd.
Hið opinbera semur sitt í hvoru lagi sem hefur haft þær afleiðingar að starfsmenn sveitarfélaga bera kjör sín saman við starfsmenn ríkisins og öfugt. Þetta hefur haft þær afleiðingar að laun viðkomandi stétta hækka á víxl og engin raunveruleg stefna er mótuð af hálfu hins opinbera. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki til lengdar og brýnt að nú, á tímum óstöðugleika, taki ríki og sveitarfélög sig til og komi fram í viðræðunum sem ein heild, hafi sameiginlega eina launanefnd. Þannig er þá loksins hægt að hafa stjórn á hlutunum og forgangsraða hvaða stéttum hið opinbera vill hossa sérstaklega, t.a.m. þeim stéttum sem mennta yngstu kynslóðinni og þeim sem sjá um umönnun sjúkra.
Annars er það umhugsunarefni, sá aðstöðumunur sem er á milli sveitarfélaganna í landinu með hliðsjón af launahækkunum Reykjavíkurborgar til sinna starfsmanna, það vildu mörg önnur sveitarfélög gera en hafa ekki ráð á. Þess vegna þarf að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem eiga undir högg að sækja. Að sjálfsögðu eiga að vera sömu kjör hjá hinu opinbera fyrir sambærileg störf, ef breyting verður á því þá er illa fyrir okkur komið sem þjóð.