20.10.2007 | 12:20
Lífsgæðakapphlaupið, mikil viðbrögð
Ég bloggaði í gær um lífsgæðakapphlaupið og það yfirgengilega vinnuálag sem herjar á okkur sem þjóð. Ég hef fengið mikil viðbrögð vegna bloggsins síðasta sólarhringinn og samkvæmt þeim samtölum og tölvupóstum sem ég hef fengið þá er mikill hljómgrunnur fyrir þessum sjónarmiðum í samfélaginu.
Það er auðveldlega hægt að komast á flug í þessum pælingum. Hugsa má sér langa helgi, fjölskylduhelgi, þar sem frídagar væru á fimmtudegi og föstudegi. Helgi sem væri sérstaklega tileinkuð samverustundum fjölskyldunnar. Einnig er ljóst að vinnudagurinn er of langur og það þarf því að stytta vinnuvikuna. Það er viðurkennt að afköst, framlegð, starfsfólks minnkar hlutfallslega eftir því sem vinnudagurinn er lengri þannig að afköstin munu ekki minnka eins mikið og ætla mætti þó svo að vinnudagurinn verði eitthvað styttur.
Hér er um stór mál að ræða sem við þurfum að ræða á opnum vettvangi. Ég vonast til þess að orðræða mín við félagsmálaráðherra sem væntanleg er í þinginu muni hreyfa við þessum málum. Aðgerða er þörf og þar þurfa allir að leggjast á eitt.
19.10.2007 | 11:26
Brjálað lífsgæðakapphlaup
Í MBA náminu í morgun var farið yfir vinnustundir Íslendinga, samanborið við önnur lönd. Niðurstaðan er sorgleg, við vinnum þjóða mest. Þetta höfum við vitað lengi en er ekki kominn tími til að bregast við? Lífsgæðakapphlaupið er komið út fyrir öll skynsemismörk og er hreint út sagt að gera út af við okkur. Við þurfum að endurmeta lífsgildin og hefja til vegs og virðingar dýrmætar samverustundirnar fjölskyldunnar.
Það er kjörið tækifæri í komandi kjarasamningum að breyta til í þessum efnum með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að við Íslendingar vinnum allt of mikið. Það er ekki mannvænlegt þjóðfélag sem leggur ekki markvisst upp úr samverustundum fjölskyldunnar. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og við höfum efni á því að breyta til í þessum efnum. Tökum okkur tak, gleymum okkur ekki í lífsgæðakapphlaupinu. Það er ekkert saman sem merki á milli auðlegðar og hamingju. Það er nefnilega svo margt annað í lífinu en flottasta einbýlishúsið í hverfinu og Range roverinn í heimkeyrslunni. Pælið í því.
Ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu til félagsmálaráðherra hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því að vinnutíminn verði styttur , í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, við gerð næstu kjarasamninga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook
18.10.2007 | 14:15
MBA nám þingmannsins
Eins og sést í kynningu um mig á blogginu þá stunda ég MBA nám við Háskóla Íslands. Það eru tæplega 50 manns í mínum bekk; Stjórnendur úr íslensku atvinnulífi og stjórnsýslu ásamt tveimur alþingismönnum, mér og Magnúsi Stefánssyni. Kennt er annan hvern föstudag og laugardag til þess að fólk geti stundað atvinnu meðfram náminu. Þetta nám er krefjandi, eðlilega þar sem um meistaranám er að ræða en um leið eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana.
Það kom mér því í opna skjöldu að félagsfundur framsóknarmanna í Skagafirði, þar sem ég tók mín fyrstu pólitísku skref, skyldi álykta í fyrradag um að þeir alþingismenn sem væru annað hvort veikir eða í námi skuli kalla inn varamann í sinn stað. Ég held að hér sé um misskilning að ræða og að hlutaðeigandi hafi ekki kynnt sér uppbyggingu námsins. Mér þykir það miður að slíkur boðskapur skuli koma frá Skagfirðingum, þar sem ég á marga góða og trygga félaga til margra ára.
Hins vegar dreg ég ekki dul á það að það þarfnast skipulags að vera svo önnum kafinn sem raun ber vitni. Þar hef ég tekið framförum til batnaðar að undanförnu. Ég ber ekki mikinn kvíðboga fyrir aðdróttunum um að ég sinni ekki mínum þinglegu skyldum. Ég hef verið mjög virkur sem þingmaður (og námsmaður) og hef verulega gaman af eins og sjá má hér á blogginu mínu.
17.10.2007 | 15:08
Alfreð á Alþingi
Ég borðaði með Alfreð Þorsteinssyni í hádeginu í dag í þinginu. Það hefur staðið lengi til að við hittumst en loksins varð það að veruleika í dag. Við fórum, ásamt nokkrum félögum úr þingflokknum, yfir stöðuna í pólitíkinni, ekki síst nýjan borgarstjórnarmeirihluta. Ég verð ekki var við annað en að fólk víða um land sé ánægt með nýjan meirihluta, enda augljóst að ekkert annað var hægt að gera í stöðunni.
Alfreð stóð sig frábærlega sem borgarfulltrúi á sínum tíma og byggði m.a. Orkuveitu Reykjavíkur upp sem stórveldi. Þrátt fyrir það hefur það ætíð verið þannig að sjálfstæðismenn hafa séð skæðan andstæðing í Alfreð og hefur hinni frægu smjörklípuaðferð verið óspart beitt í hans garð. Nú bregður svo við að íhaldið beitir smjörklípuaðferðinni almennt gegn Framsóknarflokknum í heild sinni. Slíkt verður ekki liðið þegjandi og hljóðalaust af hálfu okkar framsóknarmanna.
Annars var gaman að sjá það í dag að Alfreð þekkir marga þingmenn þeirra flokka sem stóðu að R-listanum á sínum tíma og fór vel á meðal fólks í dag. Sérstaklega var eftirtektarvert að miklir fagnaðarfundir voru með Alfreð og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur enda áttu þau langt og gott samstarf í borgarstjórn.
Annars var maturinn gómsætur, enda lambakjöt á boðstólnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook
16.10.2007 | 15:32
Staðreyndirnar liggja fyrir
Í umræðum nú áðan um Grímseyjarferjumálið var það staðfest að Alþingi og ríkisstjórn var leynt upplýsingum um kostnað við kaup og endurbætur á "nýrri" Grímseyjarferju. Upphaflega átti ferjan að kosta 150 m.kr. en nú er kostnaðurinn er nú að lágmarki 500 m.kr. Ríkisstjórn eða fjárlaganefnd var aldrei gert grein fyrir þessari þróun mála. Samkomulag var gert milli fjármála-, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um útgjöld til verkefnisins án þess að nokkur heimild væri á fjárlögum. Það varið farið á svig við fjárreiðulögin segir Ríkisendurskoðun.
Ferlið er eitt klúður. Enginn ráðherra vill viðurkenna að hann hafi gert mistök í málinu, þrátt fyrir röð mistaka. Meirihluti fjárlaganefndar vildi ekki kanna ákveðna hluti betur, s.s. útboðsferilinn sem hefur vakið ýmsar spurningar. Samfylkingin er reiðubúin að ganga ansi langt í vörnum fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.
Það á eftir að klára umfjöllun um þetta mál innan þingsins. Samgöngunefnd á eftir að klára umfjöllun um það. Ég tel óumflýjanlegt að fram fari stjórnsýsluúttekt á þeim ráðuneytum er málið varðar, að minnsta kosti var samgönguráðherra fljótur að skella slíkri úttekt á Vegagerðina vegna þessa máls, á það sama ekki að gilda um alla aðila þessa máls?
![]() |
Birkir Jón Jónsson: Ríkisstjórn og Alþingi leynd mikilvægum gögnum um Grímseyjarferjuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook
15.10.2007 | 15:49
Grímseyjarferjan loksins á dagskrá
Þingflokksfundi lauk nú áðan. Þar kom í ljós að umræða um fjáreiður tengt kaupum á nýrri Grímseyjarferju mun fara fram á morgun. Ég er málshefjandi umræðunnar sem mun án efa verða mjög fróðleg. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig Samfylkingin mun haga orðum sínum, mun hún verja ráðherra Sjálfstæðisflokkinn í þessu hneykslismáli? En meira um Grímseyjarferjumálið á morgun...
Hef annars lagt fram nokkrar fyrirspurnir á félagsmálaráðherra og iðnaðarráðherra. Spurningarnar til Jóhönnu fjalla um málefni fatlaðra annars vegar og húsnæðismál hins vegar. Fyrirspurn mín til iðnaðarráðherra snýr að vanda byggðarlaga á Austurlandi sem eru utan áhrifasvæðis stóriðjuframkvæmdanna. Ég spyr hvort hann sé reiðubúinn að setja á fót sérstaka verkefnisstjórn sem taki á vandamálum þessara byggðarlaga. Ég mun í framhaldi af svörum ráðherranna reifa stöðu þessara mála hér á blogginu.
Sem sagt, mikið um að vera í þinginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
14.10.2007 | 13:24
Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar...
Ég var við setningu Landsþings Landssamtakanna Þroskahjálpar síðastliðið fimmtudagskvöld. Samtökin hafa unnið þrotlausa vinnu við að bæta mannréttindi og lífskjör fatlaðra í gegnum tíðina og eiga hrós skilið fyrir það. Ég átti í miklum samskiptum við forsvarsmenn Þroskahjálpar þegar ég var aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og varð þá ljóst að þar voru á ferð aðilar sem báru hagsmuni fatlaðra mjög fyrir brjósti. Þá var ráðist í átak til að fjölga búsetuúrræðum fyrir fólk með fötlun sem bar verulegan árangur í góðu samstarfi við Hússjóð Öryrkjabandalags Íslands.
Formaður samtakanna, Gerður Árnadóttir, fór yfir stöðu málaflokksins og benti réttilega á að í fjárlagafrumvarpi ársins 2008 er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til búsetuúrræða fatlaðra á Höfuðborgarsvæðinu, nema til geðfatlaðra, þrátt fyrir mikla þörf. Það er þvert á þær væntingar sem gefnar hafa verið.
Það er nefnilega ekki nóg fyrir ráðherra að koma með miklar yfirlýsingar, líkt og Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið iðin við, það þarf að koma málunum í höfn. Eitt er í orði en annað á borði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook
13.10.2007 | 13:19
Forsætisráðherra gerði stór mistök
Nýr meirihluti í borginni er tekinn við. Vilhjálmur Þ. lenti undir í sínum borgarstjórnarflokki, frjálshyggjudeildin varð ofan á. Það sem furðulegast er að Geir H. Haarde tók á móti borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins án Vilhjálms, leiðtoga listans. Það var því greinileg sundrung orðin innan Sjálfstæðisflokksins í REI málinu og formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa sig út í það að hitta borgarstjórnarflokkinn að undanskildum borgarstjóranum. Geir H. Haarde á því sína sök í því að Sjálfstæðisflokkurinn reyndist ósamstarfshæfur í borgarstjórn.
Það er síðan í besta falli broslegt að heyra sjálfstæðismenn tala um svik þegar nýr meirihluti var myndaður. Þar er verið að kasta mörgum steinum úr glerhúsi. Var ekki eitthvað gruggugt við myndun síðasta borgarstjórnarmeirihluta? Var F listinn ekki gerður að athlægi þar af Sjálfstæðisflokknum? Við skulum líka minnast atburðarrásarinnar í vor, þegar sjálfstæðismenn héldu framsóknarmönnum upp á snakki um myndun ríkisstjórnar á meðan að Þorgerður Katrín var í bullandi viðræðum við vinkonu sína, Ingibjörgu Sólrúnu, um myndun ríkisstjórnar. Ef einhver hefur gerst sekur um óheilindi í þessum efnum þá er það sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn.
![]() |
Dagur: Við Kristján Möller þurfum að hittast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2007 | 11:05
Flokkur sérhagsmuna
Það var broslegt að sjá viðbrögð sjálfstæðismanna í kjölfar tíðinda gærdagsins. Hanna Birna Kristjánsdóttir skilur t.d. ekki að upp úr meirihlutasamstarfinu hafi slitnað. Framsóknarmenn hefðu einfaldlega getað fallist á þá niðurstöðu sem borgarstjórnaflokkur Sjálfstæðisflokksins kynnti á blaðamannafundi sl. mánudag, sagði hún efnislega á öðrum blaðamannafundi í gær. Svo einfalt var það nú.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur opinberað sig í þessu máli. Það var í lagi að stofna útrásarfyrirtæki, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, og nota til þess almannafé þegar það var ekki í tísku hjá auðvaldinu. Nú, þegar auðmennirnir vilja komast yfir útrásina og orkufyrirtæki almennings þá á hið opinbera að gjöra svo vel að draga sig af þessum markaði. Til hvers er Sjálfstæðisflokkurinn?
Sjálfstæðisflokkurinn dregur taum nokkurra ríkra einstaklinga í samfélaginu. Hann er flokkur sem tekur hagsmuni fárra einstaklinga fram yfir almannahagsmuni. Slíkur flokkur á ekki að vera stór flokkur.
![]() |
Vilhjálmur verður borgarstjóri fram á þriðjudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.10.2007 | 16:07
Frjálshyggjunni hafnað
Samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík er lokið. Það er eðlilegt að mínu mati eftir framgöngu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í REI málinu. Þau héldu myndarlegan blaðamannafund í vikunni þar sem þau tilkynntu þá ákvörðun sína að hlutur borgarinnar í REI yrði seldur hið fyrsta. Ekki var haft samráð við framsóknarmenn um þá stóru ákvörðun.
Í ljósi frétta um nýjan meirihluta er tryggt að Hitaveita Suðurnesja verður áfram, að meirihluta til, í samfélagslegri eigu. Hlutverk Alþingis í dag er að móta stefnu til frambúðar um málefni raforkugeirans í ljósi þróunarinnar að undanförnu. Þar þarf sérstaklega að horfa til grunnþjónustunnar, að hún verði áfram í samfélagslegri meirihlutaeign.
Sjálfstæðismenn standa einir þegar kemur að einkavæðingarhjalinu í raforkugeiranum, frjálshyggjudeildin vildi ganga alla leið. Því hefur verið hafnað af meirihlutanum í Reykjavík.
![]() |
Dagur boðar til blaðamannafundar við Ráðhúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |