Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.5.2009 | 13:52
Um bílalán í erlendri mynt
til viðskiptaráðherra um bílalán í erlendri mynt.
1. Hversu margir einstaklingar eru með erlend lán þar sem bifreið viðkomandi er sett að veði?
2. Hversu há eru þessi lán?
3. Hversu mikil verðmæti liggja í hinum veðsettu bifreiðum?
4. Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að aðstoða þá einstaklinga sem skulda bílalán í erlendri mynt?
Gengishrun krónunnar hefur gert mörgum mjög erfitt fyrir, ekki síst þeim sem hafa fjármagnað kaup á sínum bílum að einhverju leyti með láni, gengistryggðu, í erlendri mynt. Það verður fróðlegt að heyra hvort ríkisstjórnin hafi eitthvað hugsað um hvort koma eigi eitthvað til móts við þessa skuldara.
29.5.2009 | 12:32
Um gildi samstöðu og samvinnu
Nú eru um fjórir mánuðir liðnir síðan við framsóknarmenn lögðum fram efnahagstillögur í 18 liðum til þess að koma til móts við þann mikla vanda sem blasir við skuldugum heimilum og fyrirtækjum. Vinstri græn og Samfylking hafa því miður ekki viljað fylgja þeim tillögum eftir væntanlega vegna þess að þær koma ekki úr þeirra herbúðum.
Við upphaf sumarþings er ekki heldur að sjá að ný ríkisstjórn ætli með neinum hætti að leita leiða til þess að forða þúsundum íslenskra fjölskyldna frá því að fá tilsjónarmann yfir heimili sín. Það á sem sagt að bregðast við eftir að viðkomandi er kominn í þrot en ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Við framsóknarmenn teljum með öllu óásættanlegt að horfa upp á þessa þróun.
Í ljósi þess að ríkisstjórnin virðist vera gjörsamlega úrræðalaus er dapurlegt að samráð við stjórnarandstöðuna skuli ekki vera meira en raun ber vitni. Í öllum stjórnmálaflokkum má finna fólk sem hefur hugmyndir og tillögur að lausnum en því miður telja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar greinilega að eingöngu þeirra ráðgjafar hafi réttu lausnirnar og því er ekki einu sinni skotið á fundi með fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem ekki eiga sæti í ríkisstjórn að þessu sinni. Er það í samræmi við þá samstöðu og samvinnu sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað? Nei, þessi vinnubrögð eru í algjörri mótsögn við yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra.
Við framsóknarmenn viljum sjá róttækar aðgerðir til að hægt sé að byggja upp öflugt samfélag til framtíðar. Við höfum í einlægni lagt fram tillögur að lausnum í samráði við færustu sérfræðinga á sviði efnahagsmála í landinu. Aðgerðaáætlun sem ætti að minnsta kosti að vera einnar messu virði að fara yfir þvert á línur stjórnmálanna.
Framsókn mun eftir sem áður, í samráði við sérfræðinga á sviði efnahagsmála, halda áfram að koma fram með tillögur til aðgerða.
Vonandi verður eitthvað hlustað þá. En miðað við allt, þá held ég að því miður verði raunin ekki sú.
Grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag
22.5.2009 | 12:18
Nokkrar fyrirspurnir á Alþingi
Ég beindi nokkrum fyrirspurnum til ráðherra á Alþingi á miðvikudaginn. Væntanlega verður einhverjum af þeim svarað í næstu viku.
til menntamálaráðherra um Nýsköpunarsjóð námsmanna.
Hvernig hyggst ráðherra efla Nýsköpunarsjóð námsmanna og þar með fjölga tækifærum og störfum fyrir námsmenn?
til menntamálaráðherra um sumarnám í háskólum landsins.
1. Hvað er áætlað að margir einstaklingar muni leggja stund á sumarnám í háskólum landsins sumarið 2009?
2. Hversu margir sóttu um slíkt nám?
til félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Hvað má áætla að þeir fjármunir sem nú eru í Atvinnuleysistryggingasjóði dugi lengi til útgreiðslu?
til fjármálaráðherra um útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar.
1. Hversu margir hafa nýtt sér útgreiðslu á séreignarlífeyrissparnaði sínum samkvæmt sérstakri heimild frá því fyrr á árinu?
2. Hvað má áætla að tekjur ríkissjóðs aukist með hliðsjón af því?
til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.
Var haft samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fiskverkafólk, sjómenn og útgerðaraðila, áður en fyrningarleið ríkisstjórnarinnar var tilkynnt?
til iðnaðarráðherra um niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar til notenda á köldum svæðum.
Hyggst ráðherra beita sér fyrir aukinni niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar til notenda á köldum svæðum?
til iðnaðarráðherra um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar á árabilinu 20042009.
Hver er þróun fjárframlaga til niðurgreiðslna á rafmagni til húshitunar til notenda á köldum svæðum á árabilinu 20042009, miðað við verðlag í apríl sl.?
Skriflegt svar óskast.
til viðskiptaráðherra um lækkun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.
1. Hvernig hyggst ráðherra beita sér í því að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni?
2. Hvernig stóð á því að 100 millj. kr. sem ætlaðar voru til lækkunar á flutningskostnaði á landsbyggðinni í fjárlögum ársins 2008 voru ekki nýttar til þess?
4.5.2009 | 15:19
Framtíð Framsóknar
Nú þegar rykið er að setjast að loknum kosningum þarf Framsóknarflokkurinn, líkt og aðrir stjórnmálaflokkar, að meta stöðu sína. Ég er stoltur af árangri flokksins í þessum kosningum. Flokkurinn bætti við sig fylgi um allt land og hefur nú þingmenn í öllum kjördæmum. Það er flokknum nauðsynlegt til að geta gegnt því forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum sem mikilvægt er að hann gegni. Árangurinn í þessum kosningum var stórt skref í endurreisn flokksins og staðfesting á því að kjósendur sjá og virða viðleitni okkar til endurnýjunar og þau skilaboð sem flokkurinn kom með frá flokksþingi okkar í janúar. Það er rétt að hafa það í huga að það eru aðeins liðin tvö ár frá verstu útkomu flokksins í alþingiskosningum í ríflega 90 ára sögu flokksins. Ég held að enginn hafi getað búist við því Framsóknarflokkurinn næði strax fyrri styrk, en við sýndum í þessum kosningum að við erum sannarlega á réttri leið.
Það er fyrst og fremst þrennt sem skilaði Framsóknarflokknum þeim árangri í kosningunum sem raun ber vitni. Í fyrsta lagi þá brást flokkurinn hraðar og betur en nokkur annar stjórnmálaflokkur við eðlilegri kröfu um endurnýjun í kjölfar þeirra hamfara sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi. Á flokksþingi í janúar tók grasrót flokksins í taumana og sýndi svo ekki verður um villst að það eru hinir almennu flokksmenn sem ráða ferðinni í flokknum. Nýr formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er 34 ára og undirritaður varaformaður flokksins hefur enn ekki náð þrítugu. Aldursforseti forystunnar er ritarinn, Eygló Harðardóttir, sem er 36 ára gömul og því ljóst að ungu fólki hefur verið falið það verkefni að leiða flokkinn á miklum umrótartímum. Þetta kunnu kjósendur að meta.
Í öðru lagi er ljóst að markviss og lausnamiðaður málflutningur flokksins í efnahagsmálum náði eyrum kjósenda. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf gefið sig út fyrir að vera flokkur öflugs atvinnulífs og hefur viljað hlúa að ungu fjölskyldufólki, en það er sá hópur sem ber uppi samfélagið. Hin nýja Framsókn setti fram róttækar og raunhæfar hugmyndir til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki. Þetta kunnu kjósendur okkar, og raunar margir aðrir, vel að meta.
Í þriðja lagi er ekki hægt að ná árangri í kosningum nema fyrir þrotlausa vinnu fólks. Í mínu kjördæmi, sem og um allt land hafa hundruð sjálfboðaliða lagt sitt af mörkum og unnið fyrir flokkinn án þess að ætla sér nokkuð í staðinn. Starf Framsóknarflokksins byggir á fórnfýsi þessa fólks sem á þúsund þakkir skyldar fyrir óeigingjarnt starf.
Að afloknum þessum kosningum er ég sannfærður um að Framsóknarflokkurinn á eftir að gegna mikilvægu hlutverki við endurreisn íslensks efnahags. Vinstri flokkarnir tveir hafa nú á að skipa meirihluta til að mynda starfhæfa stjórn og þurfa ekki atbeina Framsóknarflokksins til þess. Ég tel hins vegar að þær lausnir sem við höfum boðað og sú aðferðafræði og sýn á stjórnmálin sem við höfum tileinkað okkur geri það að verkum að aðkoma Framsóknar að landstjórninni sé nauðsynleg til að byggja landið okkar upp á ný. Ef það verður ekki nú þá verður það sannarlega að afloknum næstu kosningum. Endurreisn Framsóknarflokksins er rétt að hefjast.
Grein sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag
27.4.2009 | 13:07
Að afloknum kosningum
Þá er þessum kosningum lokið. Stjórnmálaflokkarnir hafa endurnýjað umboð sitt og kjósendur sagt sína skoðun. Ekki er enn búið að mynda nýja ríkisstjórn en núverandi stjórnarflokkar náðu meirihluta eins og þeir höfðu stefnt að.
Verði það hlutskipti Framsóknarflokksins að vera í stjórnarandstöðu þá munum við takast af ábyrgð á við það hlutverk. Niðurstaða okkar í þessum kosningum var góð. Reykvíkingar kusu tvo öfluga fulltrúa flokksins á þing. Það sýnir að íbúar höfuðborgarinnar kunnu að meta það djarfa skref að tefla nýkjörnum formanni flokksins þar fram. Þá bættum við við okkur fylgi í öllum kjördæmum þrátt fyrir að sterkir forystumenn hefðu horfið á braut. Þetta sýnir að fólkið í landinu treystir hinni nýju Framsókn og kunni að meta markvissar tillögur okkar í efnahagsmálum. Við munum að sjálfsögðu róa að því öllum árum að stjórnarflokkarnir endurskoði afstöðu sinna til þessara tillagna, út á það gengur pólitíkin.
Formaður SUF orðaði það svo í viðtali á kosninganótt að þessar kosningar hefðu verið fyrri hálfleikur fyrir Framsóknarflokkinn. Ég er sammála því. Við þurftum að fara í naflaskoðun og gerðum það á flokksþingi okkar í janúar þar sem skipt var alfarið um forystu flokksins. En það var viðbúið að það þyrfti lengri tíma en þrjá mánuði til að endurvinna að fullu traust almennings. Niðurstaða kosninganna er hvatning fyrir okkur að halda áfram á brautinni sem grasrót flokksins hefur markað.
Ég vil þakka öllum þeim sem veittu okkur atkvæði sitt og öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í kosningabaráttunni. Án þrotlausrar vinnu sjálfboðaliða í flokknum hefði þessi barátta og þessi niðurstaða ekki verið möguleg. Ég hlakka til þess að hefja störf á nýju þingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook
24.4.2009 | 22:30
Kosningarnar 2009
Nú eru örlagaríkar kosningar fram undan og komið að lokum stuttrar kosningabaráttu. Það er ekki ofsögum sagt að áður óþekkt verkefni bíða þeirra stjórnmálamanna sem kjörnir verða til að reisa við efnahag og atvinnulíf á Íslandi og verja velferðarsamfélagið sem byggt hefur verið upp síðustu áratugina. Þetta verkefni verður að ráðast í án öfga, jafnframt því að endurreisa traust í samfélaginu milli stjórnvalda og almennings.
Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum í þessari kosningabaráttu. Ný kynslóð hefur tekið við forystunni og framboðsmálum í flokknum. Það er bjargföst trú mín að sú sveit frambjóðenda hafi einlægan vilja til þess að takast á við þau risavöxnu samfélagsverkefni sem fram undan eru á ábyrgan, einlægan og öfgalausan hátt.
Við frambjóðendur flokksins höfum kynnt í kosningabaráttunni tillögur um skuldaleiðréttingu í þágu heimilanna og fyrirtækjanna. Við höfum nú eins og ávallt áður ríkan skilning á því að velferð þjóðar skapast ekki nema á grundvelli öflugrar atvinnuuppbyggingar. Þetta tvennt er óaðskiljanlegt. Við höfum kynnt þann einlæga ásetning okkar að reisa atvinnulífið við á ný, þannig að hægt sé að ráða við ríkisfjármálin á þann hátt að menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og félagslegu öryggisneti sé borgið. Til þess að svo megi verða má einskis láta ófreistað í nýjum atvinnutækifærum. Það er auðvitað fáheyrt að forystumenn flokka eins og Vinstri grænna, flokks sem ætlar sér stóra hluti á komandi misserum í stjórn landsins, séu að deila um það hvort megi rannsaka auðlindir landsins. Fyrir kjósendur í Norðausturkjördæmi og þjóðina alla eru þetta einkennileg tíðindi. Sömuleiðis hik og sundurlyndi í Samfylkingunni og misvísandi ummæli iðnaðarráðherra um álver á Bakka við Húsavík, eftir því hvort hann er staddur fyrir sunnan eða norðan.
Það er nauðsynlegt að Framsóknarflokkurinn fái afl til þess í kosningum að hafa áhrif í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Það er þörf fyrir öfgalaust fólk með fæturna á jörðinni í þeirri vinnu.
Ég hef notað þann tíma sem gefist hefur frá þingstörfum síðustu vikurnar til þess að hitta fólk í hinu víðlenda Norðausturkjördæmi. Sá tími sem til þess hefur gefist er skammur að þessu sinni. Eigi að síður hef ég haft þau forréttindi að hitta það góða fólk sem þar býr og hef notið til þess stuðnings og hjálpar traustra flokksmanna kjördæmisins sem hafa borið starfið uppi árum saman. Í kjördæminu leggjum við fram góðan og samhentan lista fólks sem hefur reynslu í stjórnmálum og lífinu sjálfu, sem er auðvitað allra mikilvægast.
Kærar þakkir, kjósendur og stuðningsmenn. Ég heiti því að vinna ykkur og þjóðinni allri það sem ég má.
14.4.2009 | 18:20
Tjónabætur
Af hverju skyldir þú sem skuldar húsnæðislán vera einn látinn bera kostnaðinn af vaxandi verðbólgu og fá þar með háar verðbætur á lánið þitt sem bætast við höfuðstólinn? Hver er ábyrgð þess sem lánaði þér fé? Lánveitandi lét þig í flestum tilfellum undirrita greiðsluáætlun jafnhliða láninu þar sem HANN setti sér þá forsendu að verðbólga yrði að hámarki 4,5%. Er þá réttlátt að ÞÚ berir einn þann kostnað að verðbólgan fór fram úr HANS forsendu?
Auðvitað er það ekki réttlátt. Lausn ríkisstjórnarinnar við þínum vanda sem skuldara er sú að bjóða þér að lengja lánstímann og færa hluta verðbóta aftur fyrir. Önnur lausn, ef þú ert kominn í þrot, er sú að skipa þér tilsjónarmann, lengja í lánum, fresta gjaldþroti og láta þig greiða allt sem þú átt aflögu í afborganir af lánunum til æviloka. Er ekki réttlátara að bæta þér upp það tjón sem þú hefur orðið fyrir með því að fella verðbæturnar niður og að lánið standi í þeirri upphæð sem það var í byrjun síðasta árs? Að sá sem veitti þér lánið taki einhverja áhættu og standi við þær forsendur sem hann setti sjálfur?
Þetta er kjarninn í tillögu framsóknarmanna. Að bæta skuldurum upp það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af verðbólgunni sem þeir bera enga ábyrgð á. Að sá sem veitti lánið axli ábyrgð af þeirri áhættu sem lánveiting hefur í för með sér. Með þessari aðgerð er fleirum gert kleift að greiða af lánum og mun færri fara í þrot með tilheyrandi niðurlægingu og sundrungu tugþúsunda heimila. Róttækra aðgerða er þörf. Strax!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook
5.4.2009 | 17:03
Málþóf á Alþingi
Því miður hafa sjálfstæðismenn dottið í málþófsgírinn á Alþingi. Eins og flestum er kunnugt eru þeir mjög andsnúnir breytingum á stjórnarskránni sem fela m.a. í sér: Að auðlindir verði í þjóðareign, um möguleika almennings að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur og að sérstöku stjórnlagaþingi verði komið á þar sem stjórnarskrá lýðveldisins yrði tekin til heildar endurskoðunar.
Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á stjórnlagaþingið. Á þingi hafa sjálfstæðismenn sakað okkur um að beita stjórnarskránni fyrir okkur í pólitískum leik. Það er ómaklegur áburður af þeirra hálfu enda er það svo að 4 stjórnmálaflokkar (af fimm) sem eiga fulltrúa á Alþingi eru á því að koma stjórnlagaþingi á. Sjálfstæðisflokkurinn er því einangraður í þessu máli og beitir öllum aðferðum til að koma í veg fyrir mikilvægar breytingar á stjórnarskrá lýðsveldisins.
Hugmynd okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing er ekki ný af nálinni. Starfshópur um íbúalýðræði, undir forystu Jóns Kristjánssonar, fyrrum þingmanns og ráðherra, lagði höfuð áherslu á að komið yrði á fót stjórnlagaþingi. Hugmyndin er því ekki ný af nálinni innan Framsóknarflokksins og þess má geta að í gegnum áratugina hafa hugmyndir um stjórnlagaþing ítrekað verið ræddar í samfélaginu.
Ef fram heldur sem horfir þá er ljóst að sjálfstæðismenn munu koma í veg fyrir að ýmsar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni. Með markvissum ræðuhöldum um fundarstjórn forseta fer gríðarlegur tími Alþingis til spillis. Tíma sem verja mætti í umræður um stjórnarskrána. Á meðan bíða önnur mál.
Mikill meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindir verði í þjóðareigu, að stjórnlagaþingi verði komið á og að almenningur geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt sem áður virðist það vera staðreynd að einn flokkur muni koma í veg fyrir slíkar breytingar. Þrátt fyrir augljósan vilja almennings og allra annarra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook
24.3.2009 | 15:27
Ný vinnubrögð
Ég beindi fyrirspurn til utanríkisráðherra í þinginu í gær um skipan sendiherra. Þannig er mál með vexti að þegar losna embætti í stjórnsýslunni er almennt gert ráð fyrir því að auglýsa þau og ráða síðan hæfasta umsækjandann, þó það hafi nú gengið misjafnlega eins og dæmin sanna.
Frá þessu voru lengi í gildi tvær undantekningar sem sneru að embættum seðlabankastjóra annars vegar og embættum sendiherra hins vegar. Nú er eins og alþjóð veit búið að breyta lögum um Seðlabankann og stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra orðnar auglýsingaskyldar. En þá fór ég að velta fyrir mér hvað yrði með sendiherrana. Síðasta vígi lögvarinna pólitískra embættisskipana.
Það kom mér nokkuð á óvart að Össur Skarphéðinsson hefði ekkert hugleitt þetta mál. Hann tók hins vegar vel í fyrirspurnina og sagðist skyldu skoða málið. Ég þekki Össur að því að vera óhræddur við að taka ákvarðanir og hvet hann til dáða í þessum efnum.
Á síðustu árum hafa margir sendiherrar verið skipaðir í utanríkisþjónustunni. Vegna þessa ákvað Valgerður Sverrisdóttir að skipa engan sendiherra á sinni tíð í ráðuneytinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipaði hins vegar 4 sendiherra á sinni tíð, þar af einn stjórnmálamann og eina samverkakonu sína til margra ára.
Það var jákvætt að núverandi utanríkisráðherra skyldi hnykkja á því að hann ætlaði enga sendiherra að skipa á sínum tíma í embættinu. Að vísu er hann ekki með samning nema til 25. apríl en við vonum að hver sem tekur við haldi sig á sömu braut og sýni aðhald í rekstri utanríkisþjónustunnar.
Ég vona hins vegar að í framtíðinni verði sátt um að breyta lögum þannig að auglýsa beri stöður sendiherra. Æðstu embætti utanríkisþjónustunnar eiga ekki að vera bitlingar fyrir pólitíska samherja ráðherra á hverjum tíma. Þar eins og annars staðar á hæfni, menntun og reynsla að ráða úrslitum en ekki flokksskírteini.
Með því að smella hér má hlusta á orðaskipti mín og utanríkisráðherra um málið.
Ekki íhugað að auglýsa embætti sendiherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.2.2009 | 23:45
Fjörugir dagar
Nú er mikið um að vera á öllum vígstöðvum og margt að sýsla. Ég myndi enda ekki vilja hafa það öðruvísi. Í síðustu viku kynntum við í Framsóknarflokknum nýjar efnahagstillögur. Ég held að flestir ættu að geta sameinast um það sem í þeim kemur fram, þó helst staldri menn við tillögu um niðurfellingu 20% allra íbúðalána.
Þetta er sannarlega djörf tillaga og óvenjulegt úrræði. En við lifum ekki á venjulegum tímum, er það nokkuð? Þjóðin þarfnast þess að stjórnmálamenn sýni djörfung og frumkvæði. Framsóknarflokkurinn svarar kallinu og bíður eftir því að aðrir flokkar komi með sínar tillögur. Það þýðir ekkert að sitja út í horni og finna tillögum okkar allt til foráttu ef ekkert kemur á móti.
Það er mikilvægt að við fáum hið fyrsta fram aðgerðir í efnahagsmálum. Menn þurfa að bregðast hratt við og Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn að vinna með ríkisstjórninni að slíkum aðgerðum. Ég er sannfærður um að við getum náð miklum árangri saman.
Annað mikilvægt mál sem þingið þarf að taka afstöðu til og afgreiða er frumvarp okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing. Það er forgangsmál okkar að koma því máli í gegn en það er ekki þar með sagt að við séum ekki til viðræðu um hugsanlegar breytingar á því. Það sem mestu máli skiptir í því máli er að ákvæði um stjórnlagaþingið verði samþykkt í þinginu fyrir kosningar. Hvort þar sitja 63 eða 41 fulltrúar eða hvað annað skiptir ekki máli.
En nú um helgina mun ég fara á fundi í kjördæminu. Ég byrja á Austurlandi en þar halda öflug félög framsóknarmanna vikulega fundi og ég verð gestur á tveimur þeirra. Á sunnudag verð ég svo fyrir norðan á fundi á Húsavík. Ég hvet alla sem áhuga hafa á þjóðmálum að mæta á fundina. Rétt er að taka fram að ég verð örugglega ekki einn frambjóðenda á lista Framsóknarflokksins um að mæta á þessa fundi. Þarna verður tækifæri til að glöggva sig á nýjum andlitum og heyra í gömlum samherjum. Dagskráin er þessi:
Laugardagur 28. febrúar
10:00 Austrasalurinn, Egilsstöðum
14:00 Kaffistofu Tandrabergs, Strandgötu 9, Eskifirði
Sunnudagur 1. mars
12:00 Veitingahúsið Salka, Húsavík
Áfram Framsókn!