Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ætlum við að steypa ríkissjóði í botnlausar skuldir, aftur?

Í upphafi þings í dag kvaddi Bjarni Harðarson sér hljóðs um stöðu efnahagsmála, sannarlega ekki að ástæðulausu. Ég tók þátt í umræðunni og benti á þann tvískinnungshátt stjórnarliða sem töluðu fyrir því að nú þyrftu stjórnmálamenn að taka á erfiðleikum efnahagslífsins í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Ég benti þeim hinum sömu á að við framsóknarmenn töluðum sérstaklega fyrir því í fjárlagagerðinni síðastliðið haust Þá bentu aðilar vinnumarkaðarins og allir helstu sérfræðingar í efnahagsmálum ríkisstjórninni á að sína aðhald við fjárlagagerðina. Ekkert var farið eftir því, útgjaldarammi fjárlaga hækkaði þá um tæp 20% á milli ára. Ríkisstjórnarflokkarnir skrúfuðu hressilega frá útgjaldakrananum og nú verður ekki aftur snúið.

Það er nefnilega ekki nóg að koma nú fram og segja að við eigum að hlusta á þá aðila sem eru sérfróðir um efnahagsmálin. Einnig kom fram hjá stjórnarliðum að ríkið muni koma að kjarasamningum, ætli að það hefði ekki verið auðveldara í framkvæmd ef að fjárlögin væru ekki svo útþanin sem raun ber vitni? Við höfum ekki séð slíkar hækkanir á útgjaldaramma fjárlaga síðan fyrir þjóðarsáttasamninga.

Einnig benti ég á að alþingismenn eru vörslumenn ríkissjóðs. Nú er ljóst að fjármagnstekjuskattur, veltuskattar ýmiskonar og fleiri tekjustofnar munu dragast saman, frá því sem áður var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Á meðan stórhækka útgjöld ríkissjóðs. Þetta þýðir afturhvarf til fortíðar, þ.e.a.s. aftur til skuldasöfnunar hjá ríkissjóði. Það er þvert á þau markmið sem við framsóknarmenn höfðum þegar við vorum í ríkisstjórn. Tókum við ríkissjóði stórskuldugum 1995, skiluðum skuldlausum ríkissjóði. En nú er víst eitthvað annað upp á teningnum.


Jóhönnunefndin hefur loksins skilað af sér, en hvað svo?

Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í húsnæðismálin í þinginu nú áðan í ljósi þeirra staðreynda að ungt fólk getur vart orðið leigt eða keypt húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin átti að skila af sér 1. nóvember síðastliðinn en það er ekki fyrr en nú á nýju ári, seinnipart janúarmánaðar, sem tillögur nefndarinnar liggja fyrir. En það sem verra er að við þingmenn fáum ekki að sjá hverjar tillögurnar eru. Af svörum ráðherrans að dæma er málið stopp í ríkisstjórn og er enn langt í land með að einhverra aðgerða sé að vænta til að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaðnum. Því miður.

Ég hef áður vakið máls á því hér á blogginu að skynsamlegast væri fyrir ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn af fara sparlega með miklar yfirlýsingar eins og Jóhanna hefur verið iðin við. Hún hefur nefnilega með tali sínu um að neyðarástand ríkti á húsnæðismarkaðnum og að aðgerða væri þörf, vakið upp gríðarlega miklar væntingar hjá fólki sem er í erfiðri stöðu á húsnæðismarkaðnum.

Nú er það komið á daginn að Jóhanna Sigurðardóttir þarf að éta ofan í sig öll gífuryrðin og loforðin sem hún hefur viðhaft. En ætli hún sé eini ráðherrann, í annars yfirlýsingaglaðri ríkisstjórn, sem hefur og á eftir að gera það?


Samfylkingin þarf að halda annan fund á Húsavík!

Á fjölmennum stjórnmálafundi á Húsavík í síðustu viku, sem Samfylkingin hélt, lýsti Össur Skarphéðinsson því yfir að enginn ráðherra úr sínum herbúðum hefði talað gegn uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Þetta er reyndar í takt við það sem að báðir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi stögluðust á fyrir síðustu kosningar, að næsta álver myndi rísa á Húsavík og það innan einungis nokkurra ára. Þessi málflutningur þremenninganna var og er náttúrulega bara ósannur eins og komið hefur á daginn.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur nefnilega margoft komið með yfirlýsingar um andstöðu við frekari stóriðjuuppbyggingu hér á landi, þar með talið í Þingeyjarsýslum. Hún staðfesti þessa stefnu sína í sjónvarpsviðtali í síðustu viku. Þar með er það endanlega komið á hreint, rétt eins og ég hef bent á hér á blogginu, að umhverfisráðherrann í ríkisstjórninni er á móti þessari uppbyggingu. Þar með hefur Samfylkingin lagt stein í götu þessarar uppbyggingar sem myndi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulíf í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum.

Samfylkingin getur einfaldlega ekki talað tungum tveim í máli sem þessu. Og það er líka rangt hjá Össuri þegar hann heldur því fram að ríkisstjórnin geti ekki gert neitt til að koma þessu máli áfram. Það er alveg ljóst að þau fyrirtæki sem hafa hug á því að leggjast út í gríðarlega fjárfestingu sem í þessu verkefnum felast, fara ekki í slíkar framkvæmdir ef stjórnvöld eru á móti slíkri uppbyggingu. Einnig má horfa til mengunarkvóta í þessu samhengi, þar sem þessi framkvæmd er utan höfuðborgarsvæðisins og mætti nýta sem verkfæri í byggðastefnu stjórnvalda. En Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur ítrekað andmælt uppbyggingu af þessu tagi. Því miður hefur Samfylkingin talað tungum tveim og það er Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sem situr við stjórnvölinn. Sá ráðherra hefur greinilega ekki mikinn skilning á aðstæðum í byggðarlögum á Norðurlandi eystra.

Ætti Samfylkingin, í sinni fundaherferð, ekki að halda annan stjórnmálafund á Húsavík? Gestur fundarins yrði þá aðeins einn, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Forysta ríkisstjórnarinnar er í útlöndum

Eitt stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir er að stuðla að því að raunhæfir kjarasamningar náist á vinnumarkaðnum. Kjaraviðræðurnar verða að þessu sinni erfiðar viðureignar.

Við framsóknarmenn gagnrýndum ríkisstjórnarflokkanna harðlega í fjárlagavinnunni í haust vegna gríðarlegrar útgjaldaaukningar ríkissjóðs. Sú gagnrýni var ekki út í bláinn, enda öllum ljóst að ríkisstjórnin þyrfti einnig að koma að kjarasamningum með einum eða öðrum hætti og því segði fjárlagagerðin ekki alla söguna. Ríkisstjórnin hlustaði ekkert á aðvörunarorða þingmanna Framsóknarflokksins, OECD, Standard og Poors, Seðlabankans, aðila vinnumarkaðarins, greiningardeilda bankanna og áfram mætti telja. Útgjöld ríkissjóðs hækkuðu um tæp 20% á milli ára þrátt fyrir öll varnaðarorð.

Það er svo komið á daginn núna, vegna eyðslugleði stjórnarflokkanna í haust, að mjög takmarkaðir fjármunir eru nú til skiptanna vegna aðkomu ríkisins að kjarasamningum. Alþýðusamband Íslands er á gluggum forsætisráðuneytisins en þar er enginn heima. Geir er erlendis, Ingibjörg Sólrún er erlendis og ekkert heyrist frá ráðherra atvinnumála, Jóhönnu Sigurðardóttur. Samt hafa aðilar vinnumarkaðarins sagt að þessi vika ráði úrslitum í viðræðunum, ella verði deilunni skotið til ríkissáttasemjara. En höfuð ríkisstjórnarinnar hafa yfirgefið landið, það eru trúlega önnur stærri og meira aðkallandi vandamál sem forsætis- og utanríkisráðherrann eru að sinna þar. Er nema von að þessi ríkisstjórn sé nefnd máttlaus og daufgerð?


Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

Það er smám saman að koma í ljós hver forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar er þegar kemur að ríkisfjármálunum. Eins og við framsóknarmenn bentum á þá eru helstu forgangsmálin stóraukning útgjalda til utanríkisþjónustunnar (um rúm 20%) og til yfirstjórnar ráðuneyta. Það var til dæmis stofnað nýtt ráðuneyti til að Samfylkingin gæti fengið 6 ráðherrastóla.

Ég var mjög ánægður fyrir áramótin þegar ég heyrði að það ætti ekki að innheimta komugjöld barna á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. En heilbrigðisráðherra gleymdi bara að nefna það þegar hann boðaði þessar gleðifréttir að það eru öryrkjar og eldri borgarar sem borgar brúsann. Er það einhver misskilningur hjá mér en eru það ekki einmitt aldraðir og öryrkjar sem koma hlutfallslega mest á heilbrigðisstofnanir hér á landi?


mbl.is Mótmælir hækkun komugjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við borgríki?

Fyrir síðustu kosningar töluðu frambjóðendur allra flokka fyrir því að standa ætti vörð um byggð um land allt. Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, töluðu frambjóðendur einum rómi í þessum málum, byggðamálum, enda málefni sem brennur mjög á því fólki á því kjördæmi. Ég finn einnig fyrir því að fólk á höfuðborgarsvæðinu vill sjá blómlega byggð víða um land. Það ætti því að vera hægðarleikur að ná fram þverpólitískri sátt um raunverulegar aðgerðir til að ná þessu markmiði. Að við tölum ekki um á þeim tímum þegar þorskkvótinn er skorinn niður um þriðjung.

Ég lagði fram fyrirspurnir til ráðherranna í nýju ríkisstjórninni á síðasta ári um hvað þeir ætluðu sér að gera á því ári sem nú er hafið til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Við munum jú eftir hástemmdum yfirlýsingum um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar síðastliðið sumar og því þess að vænta að eitthvað væri í vændum. Því miður þá var ekkert bitastætt í svörum ráðherranna. Ekkert bólar á einhverjum marktækum aðgerðum í þessum efnum.

Um leið og við horfum á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þá berast vikulega fréttir úr sjávarbyggðum um hópuppsagnir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirtæki, sem hafa verið burðarásar í sinni heimabyggð, þurfa nú að draga hressilega saman seglin með tilheyrandi uppsögnum. Ráðamenn þjóðarinnar verða að vakna af þyrnirósarsvefninum og horfast í augu við þá stöðu sem uppi er í byggðamálum í kjölfar arfavitlausrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um of mikinn niðurskurð á þorskkvóta. Í þessu ljósi er dapurlegt að sjá svör ráðherranna í nýju ríkisstjórninni um væntanlegar aðgerðir í byggðamálum. Þar er nær ekkert að finna.

 


Fögur fyrirheit en svikin loforð

Það voru engar smá yfirlýsingar í sumar hjá yfirlýsingaglaðasta ráðherra ríkisstjórnarinnar um stöðu mála á húsnæðismarkaðnum. Orð Jóhönnu Sigurðardóttur um neyðarástand á þeim markaði og að úrlausn mála þyldi enga bið hefðu átt að gefa til kynna að eitthvað yrði aðhafst í málefnum ungs fólks á húsnæðismarkaðnum.

Jóhanna setti nefnd á fót sem átti að skila af sér 1. október síðastliðinn. Nú er kominn janúar og ekkert heyrist frá nefndinni eða Jóhönnu. Reyndar hefur Jóhanna sagt með reglubundnum hætti að þetta sé allt að koma, en er endalaust hægt að taka mark á slíkum yfirlýsingum?

Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir því fyrir kosningar að vaxtabætur og húsaleigubætur voru allt of lágar. Margt bendir til að þessar bætur munu rýrna að raungildi á næsta ári. Einnig nefndi hún að takmarkanir á lánveitingum Íbúðalánasjóðs væru til skammar (það var reyndar hennar fyrsta verk að lækka lánshlutfall ÍLS úr 90% í 80%.) Margt, mjög margt fleira mætti nefna um yfirlýsingar ráðherrans á síðustu mánuðum. Fögur fyrirheit. Því miður hefur ekkert verið að marka yfirlýsingar og loforð ráðherrans í veigamiklum málaflokkum. Það er ekki gott fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að fara inn í árið 2008 með þessi mál á bakinu...


Hugmyndafræðilegt fjölleikahús

Það er með hreinum ólíkindum að fylgjast með því hvernig trúverðugleiki forsætisráðherrans fýkur út í veður og vind með jólalægðunum sem gengið hafa yfir landið undanfarna daga. Nýjustu fregnir herma að búið sé að stofna fyrirtækið Landsvirkjun Power (LP) sem mun alfarið vera í eigu Landsvirkjunar en er einkum ætlað að sinna áhættusömum fjárfestingum á erlendri grundu. LP er einnig ætlað að bera ábyrgð á rannsóknum, hönnun og byggingu orkumannvirkja. Meðal fyrstu verkefna fyrirtækisins eru undirbúningur virkjana í neðri hluta Þjórsár og jarðvarmavirkjana í Þingeyjarsýslu. Ef ég hef tekið rétt eftir í landafræðitímum í gamla daga eru þeir virkjanakostir ennþá á Íslandi.

 

Sem kunnugt er lögðust flestir borgarfulltrúar sjálfstæðismanna gegn þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur í útrás á orkusviði á þeirri forsendu að opinberir aðilar ættu ekki að „taka þátt í áhættusömum rekstri í fjarlægum löndum með einkaaðilum."(Orð Vilhjálms Vilhjálmssonar, fyrrv. borgarstjóra í fréttum Stöðvar 2, 8. október s.l.) Í þessu ljósi er rétt að benda á að LP mun eiga helmingshlut í Hydrokraft Invest á móti Landsbanka Íslands en því fyrirtæki er ætlað að leita væntanlegra virkjunar- og fjárfestingarkosta erlendis en LP að framkvæma og virkja. Sem auðvitað vekur upp ýmsar spurningar sem leitað verður svara við síðar. Á hinn bóginn kemur skýrt fram í stefnu Sjálfstæðismanna að þeir stefna að einkavæðingu á sviði orkumála og borgarfulltrúarnir sex töldu á sínum tíma að best væri að selja hlut Orkuveitunnar í REI, sem auðvitað kom ekki til greina af hálfu framsóknarmanna frekar en sala á Landsvirkjun.

Í dag og í gær hafa forsætis- og fjármálaráðherrar, með fulltingi iðnaðarráðherra, fullyrt að stofnun LP sé í fullu samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann sem kynntur var s.l. vor, sem gengur þá þvert á skoðun borgarfulltrúanna sem af „prinsipp-ástæðum" töldu að opinberir aðilar ættu ekki að standa í slíkum áhætturekstri. Slíkt væri einkaaðila að halda utan um. Ljóst er að sjálfstæðismenn eru klofnir í málinu. Sumir tala um sölu Landsvirkjunar á meðan forsætisráðherra hafnar því, en athygli hlýtur að vekja að í landsfundarályktun flokksins síðan í vor er ekki minnst á Landsvirkjun einu orði.  Hins vegar segir m.a. í stefnuskránni að flokkurinn telji tímabært að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín í útrás orkufyrirtækjanna. Jafnframt vilja þeir skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum til einkaaðila.

Er nema von að maður velti fyrir sér hver hin raunverulega stefna Sjálfstæðisflokksins sé varðandi útrás orkufyrirtækja og eignarhald? Málið er farið að minna á fjölleikahús þar sem hvert skemmtiatriðið rekur annað, sem auðvitað er vel viðeigandi þegar ljósvakamiðlar keppast við að bjóða skemmtiefni yfir jól og áramót.  Hver man ekki eftir sirkusnum sem alltaf var á dagskrá á gamlárskvöld? Sirkusinn þessa dagana er í boði Valhallar.


Samfylkingin hefur gjörbreytt um stefnu - einungis á nokkrum mánuðum!

Þó svo að Össur Skarphéðinsson hafi áhyggjur af mannvali í þingflokki Samfylkingarinnar þá held ég að menn á þeim bænum ættu að hafa meiri áhyggjur af málefnastöðu flokksins. Á síðasta kjörtímabili stundaði Samfylkingin málefnalega brunaútsölu. Ótti forystu flokksins við lítið fylgi leiddi til þess að málflutningur Samfylkingarinnar varð gjörsamlega ábyrgðarlaus og fór hreinlega út í tóma vitleysu. Yfirboð í hverju málinu á fætur öðru. Eitthvað sem öllum ætti að vera ljóst að ekki væri hægt að standa við.

Ég fór yfir þessar staðreyndir í fjárlagaumræðunni síðasta miðvikudag. Hægt er að nefna margt sem að Samfylkingin lofaði en hefur síðan gjörsamlega snúið við blaðinu á einungis 6 mánuðum. Það er út af fyrir sig ótrúlegt afrek að breyta grundvallarstefnunni með þeim hætti sem Samfylkingin hefur gert.

Samfylkingin boðaði stórhækkaðar barnabætur og vaxtabætur. Orð eins og að fjárframlög til þessara málaflokka væru til skammar og þar fram eftir götunum voru algeng. Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir gengu vasklega fram á þessum tíma í beittri gagnrýni. Gagnrýnt var hversu lítið bæturnar hefðu almennt hækkað í þá daga. Það var staglað var á því að þegar Jafnaðarmannaflokkur Íslands myndi komast til valda þá yrðu bæturnar stórhækkaðar, það væri forgangsmál. En hver er staðreynd mála eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn? Jú, vaxtabætur og barnabætur munu trúlega lækka að raungildi á næsta ári.

Áherslur Samfylkingarinnar hafa nefnilega gjörbreyst á síðustu mánuðum. Nú eru það stóraukin framlög til utanríkismála og fjölgun ráðuneyta (til að félagarnir Össur og Björgvin gætu báðir orðið ráðherrar) sem eru forgangsmál Samfylkingarinnar. Hækkun vaxtabóta, barnabóta og skattleysismarka eru einhvers staðar neðarlega á forgangslistanum. Flott breyting á  forgangsröðun, eða hitt og heldur!


Þvílík öfugmæli Geirs, hvað segir Davíð nú?

Ég varð nánast orðlaus þegar ég heyrði Geir H. Haarde segja úr ræðustól Alþingis í dag að fjárlög ársins 2008 væru aðhaldsfjárlög. Ja, þvílíkt og annað eins. Er hægt að snúa hlutunum meir á hvolf? Staðreyndin er sú að útgjaldahlið fjárlaga ársins 2008 er 18,1% hærra en fyrir ári síðan. Ber það vott um aðhald? Ég hef sagt það áður að við þyrftum trúlega að leita aftur fyrir þjóðarsáttasamninga til að sjá viðlíkar tölur.

Verðbólga síðustu 12 mánuði mælist nú tæp 6%. Ef dregin er frá matarskattslækkunin, sem hverfur í mælingum 1. mars næstkomandi, þá er undirliggjandi verðbólga 8%. Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5%. Undirliggjandi verðbólga er því 320% hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Allt bendir því til áframhaldandi hækkana stýrivaxta Seðlabankans sem mun bitna sérstaklega á skuldsettum heimilum, ofan í mikla verðbólgu.

Nei, þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé stór þá getur hann ekki breytt staðreyndum. Allir ráðgefandi aðilar, ásamt Framsóknarflokknum, hafa lagt hart að ríkisstjórninni að sýna aðhald. Þvert á móti hafa stjórnmálaflokkarnir á Alþingi, að Framsóknarflokknum undanskildum, keppst við að yfirbjóða hvern annan með útgjaldatillögum.

Til viðbótar þessum þenslufjárlögum þá hafa komið fram mjög miklar kröfur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um allt að 20 milljarða króna útgjöld ríkissjóðs vegna kjarasamninga. Ekki veit ég hvert svigrúm ríkissjóðs verður til að koma að kjarasamningunum, en ljóst er að nú þegar er boginn hátt spenntur í ríkisfjármálunum.

Það verður athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum aðila í þjóðfélaginu vegna orða forsætisráðherra, að hér sé um aðhaldsfjárlög að ræða. Sérstaklega verður fróðlegt að heyra fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, sem nú situr í Seðlabankanum, tjá sig um þessi ótrúlegu ummæli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband