Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ráðvilltur forsætisráðherra

Það var kyndugt að sjá viðbrögð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, við fyrirspurnum Valgerðar Sverris og Steingríms J. um hvert ríkisstjórnin stefndi í gjaldmiðilsmálum. Ástæða þessara fyrirspurna eru dæmalaust misvísandi málflutningur ríkisstjórnarinnar. Ingibjörg Sólrún segir eitt, Þorgerður Katrín annað, Björgvin G. það þriðja og síðan segir Geir ekki neitt. Geir sagði nefnilega eiginlega ekki neitt í umræðunni í dag. Hann er ekki eins yfirlýsingaglaður og meðreiðarsveinar hans í ríkisstjórninni, hann hefur greinilega enga stjórn á sínu fólki.

Það er náttúrulega ekki boðlegt að búa við ríkisstjórn sem er svo ósamstíga í einu mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar. Enda kom Bjarni Benediktsson, framtíðarforingi Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins, fram á dögunum og kvartaði undan blaðri Samfylkingarinnar um Evrópumálin. Það er greinilega vaxandi pirringur á milli stjórnarflokkanna. Framundan eru erfiðar kjarasamningaviðræður sem munu reyna allverulega á stjórnarsamstarfið og menn eru strax orðnir móðir á ríkisstjórnarheimilinu. Það mun því reyna á þanþol ríkisstjórnarinnar á næstunni. Það er nefnilega ekki bara nóg að búa við stóran meirihluta, menn verða líka að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Geir H. Haarde gengur ekkert í þeim efnum.


Stórt klúður ríkisstjórnarinnar

Það var dæmalaust að fylgjast með hinni nýju ríkisstjórn taka sín fyrstu skref síðastliðið sumar. Þeirrar ríkisstjórnar sem vill kenna sig við samráðsstjórnmál. Þá beitti sjávarútvegsráðherra sér fyrir því að skerða þorskkvótann niður um þriðjung. Hagsmunaaðilar bentu margir á að þetta dæmi myndi einfaldlega ekki ganga upp og nú sýnist mér fyrirsjáanlegt að þessa ákvörðun ráðherra verði að endurskoða á næstu vikum. Við framsóknarmenn vildum ganga skemur í niðurskurðinum, rétt eins og margir aðrir á þeim tíma. Ef farið hefði verið að þeim tillögum væri ástandið þó skárra en það er í dag í sjávarbyggðum landsins.

En í ljósi þessa mikla niðurskurðar steig Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fram og tilkynnti að nú yrði farið í mestu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar. Það lyftist brúnin á mörgum við þessa yfirlýsingu en orð eru ekki alltaf það sama og efndir. Að minnsta kosti ekki hjá þessari ríkisstjórn. Ég get ekki sagt annað en að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar að stjörnuráðherrarnir fjórir kynntu tillögurnar á blaðamannafundi stuttu síðar. Megin málflutningur þeirra á þeim fundi var að hæla hver öðrum, hversu gríðarlega vel þeir hefðu staðið sig við gerð aðgerðaáætlunarinnar. Enda var bara létt yfir þeim á þessum blaðamannafundi.

Ríkisstjórninni var bent á það frá upphafi að þessar aðgerðir væru ekki nægjanlegar og við í Framsókn komum með tillögur að mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin gerði náttúrulega ekkert með. Nú, við upphaf ársins 2008, þegar mörg hundruð störf hafa tapast úr íslenskum sjávarútvegi þá vaknar ríkisstjórnin af þyrnirósarsvefninum. Nú á að endurskoða þessar stórkostlegu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Var við öðru að búast en að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar myndu skila takmörkuðum árangri? Samtök sjómanna, útgerða, fiskvinnslu, sveitarfélögin og fleiri bentu á að ekkert samráð var haft við þau þegar mótvægisaðgerðirnar voru mótaðar. Ætli að Össur og félagar hans hafi ekki lært eitthvað af þessu í þeim samræðu- og samráðsstjórnmálunum sem Samfylkingin boðaði síðastliðið vor?


Sterk staða Íbúðalánasjóðs

Ánægjulegt er að sjá þann árangur sem stjórnendur náðu í rekstri sjóðsins á síðasta ári. Eigið fé sjóðsins er nú komið yfir 20 milljarða og því ljóst að staða sjóðsins er mjög sterk. Umræðan var ekki í takt við þessa niðurstöðu fyrir 3-4 árum. Þá var áróður sumra bankamanna að útlitið væri dökkt í rekstri sjóðsins og var jafnvel talað um að sjóðurinn ætti ekki fyrir sínum framtíðarskuldbindingum. En annað hefur komið á daginn.

Það er líka ánægjulegt að staða Íbúðalánasjóðs á hinum pólitíska vettvangi hefur styrkst til muna. Nú keppast fulltrúar allra flokka við að mæra sjóðinn, það er einnig breyting til batnaðar.


mbl.is Íbúðalánasjóður hagnaðist um 2,5 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsæll "meirihluti"

Það fór eins og mig grunaði, að einungis 27% Reykvíkinga eru ánægð með nýjan meirihluta í Reykjavík. Félög innan Sjálfstæðisflokksins hafa keppst við að lýsa yfir þvílíkri ánægju með nýjan meirihluta að sjaldan hefur annað eins heyrst. Þeir hafa þannig reynt að sannfæra stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og almenning um hversu æðislegur þessi nýi meirihluti sé. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru greinilega komnir langt frá hinum venjulega kjósenda, það hljóta allir að sjá. Ég ætla ekki að fjalla um ótrúlegar óvinsældir Ólafs F. enda kemur þar ekki margt á óvart.

Ég er ekki í vafa um að Sjálfstæðisflokkurinn mun bíða mikinn skaða af þessum nýja meirihluta. Það tók ekki nema örfáar klukkustundir að mynda nýja meirihlutann, þ.e. að ganga frá málefnasamningi og hver ætti að fá hvað. Það tók ekki nema nokkra daga að kaupa 3 hús við Laugarveginn sem mun kosta borgarbúa hundruð milljóna. Trúlega eru þessi kaup fordæmisgefandi þannig að hugsanlega þurfa borgarbúar að greiða milljarða vegna þessara ákvarðana. Þeim milljörðum verður alla vega ekki varið til að bæta kjör þeirra sem hvað verst hafa það, ekki munu þessir fjármunir fara til kaupa á fleiri félagslegum leiguíbúðum eða til fleiri hjúkrunarrýma. Svona mætti áfram telja. En mikilvægt er að hafa í huga, þegar horft er upp á þessi flausturslegu vinnubrögð, að það er almenningur sem hefur falið þessum stjórnmálamönnum að höndla með sameiginlega fjármuni Reykvíkinga. Einungis 27% þeirra sem greiða sína skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar treysta þessum nýja "meirihluta".


mbl.is Fáir ánægðir með nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvíst með flug í dag...

Var á ágætum fundi á Höfn í gærkvöldi sem er hluti af fundarherferð Framsóknarflokksins. Enn og aftur er röskun á flugi sökum veðurs og því ekki ljóst hvort við komumst til þings í dag. Þó er ekkert að veðrinu hérna á Höfn þegar þetta er skrifað en veðrið vestan við okkur er ekki gott. Ég hef flogið mikið innanlands undanfarna daga og mikið um seinkanir vegna lægðagangs. En dagurinn mun ekki fara til ónýtis. Við Guðni og Valgerður ætlum að heimsækja fólk og fyrirtæki hér á Höfn í dag. Síðan kemur í ljós hvenær veðrinu slotar. Í dag á að ræða Evrópumálin í þinginu. Margt bendir til að maður verði fjarri góðu gamni að þessu sinni. Svona er Ísland í dag.


Kosningamaskínan í góðu lagi!

Ég hef verið á ferð og flugi að undanförnu, að hluta til vegna fundaherferðar Framsóknarflokksins. Vorum með hörku góðan fund á Egilsstöðum í síðustu viku þar sem við Guðni og Höskuldur vorum framsögumenn. Ég mætti einnig á fjölmennan fund í Reykjavík í síðustu viku sem markaði upphaf funda forystu Framsóknarflokksins um allt land. Í kvöld verður svo fundur á Hornafirði og síðan á ég eftir að vera á fundum á Húsavík og í Reykjavík. Að sjálfsögðu fundum við á miklu fleiri stöðum þar sem félagar mínir standa vaktina.

Almennt er það svo að það er mjög góð fundarsókn þegar að Framsóknarflokkurinn heldur sína stjórnmálafundi, trúlega meiri en hjá öðrum flokkum. Það fólk sem stendur að baki flokknum mætir oftar en ekki á þessa fundi, sama fólkið sem leggur sig allt fram fyrir hverjar kosningar til að tryggja flokknum brautargengi. Enda er það svo að Framsókn hefur ætíð sótt á, fylgislega séð, þegar nær dregur kosningum. Það er akkúrat þá sem kosningavél Framsóknarflokksins fer í gang. Ég hef séð og heyrt af því að mæting hefur almennt verið góð á fundina það sem af er. Það gefur manni vísbendingar um að allir séu klárir í bátana, næst þegar að gengið verður að kjörborðinu. Þannig að hrakspár ýmissa mætra manna um ótímabært andlát Framsóknarflokksins eru því greinilega byggðar á sandi.


Framsóknarflokkurinn á höfuðborgarsvæðinu

Það er sagt að fjölmiðlar séu 4. valdið og það er ekki ofsögum sagt. Fjölmiðlamenn geta nefnilega haft mikil áhrif á umræðuna. Egill Helgason ásamt fleiri fjölmiðlamönnum staglast á því þessa dagana að Framsóknarflokkurinn sé kominn upp í sveit, eigi sér ekki viðreisnar von á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru efnislega þau skilaboð sem að koma fram í vikulegum þáttum Egils Helgasonar.

Nú er það svo að síðustu rúm 13 árin hefur Framsóknarflokkurinn verið við stjórnvölinn í Reykjavík. Trúlega hefur enginn stjórnmálaflokkur haft eins mikil áhrif á gang mála í höfuðborginni en Framsóknarflokkurinn á síðustu árum. Framsóknarflokkurinn hefur einnig átt aðild að meirihluta í Kópavogi frá árinu 1990 og bæjarstjórinn, Sigurður Geirdal heitinn, var framsóknarmaður. Mjög stór grasrót flokksmanna er að finna í öðrum bæjarfélögum á suðvesturhorni landsins. Í ljósi þessa er því fráleitt að halda því fram að Framsóknarflokkurinn sé kominn upp í sveit, hvað sem það nú þýðir? Ef það er vegna þess að Guðni Ágústsson er formaður flokksins þá er það nú einu sinni þannig að Guðni er mjög vinsæll stjórnmálamaður um allt land, líka á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel að undanförnu í mjög erfiðum málum innan flokksins og sýnt með því þá miklu forystuhæfileika sem hann býr yfir.

Framsóknarflokkurinn sem frjálslyndur umbótaflokkur hefur haft mjög sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu um allt land. Í flokknum eru um 12.000 manns sem segir okkur að Framsóknarflokkurinn er ein stærsta fjöldahreyfing í landinu. Þó svo að vissulega hafi gefið á bátinn að undanförnu, eins og hjá öðrum stjórnmálaflokkum, þá á Framsóknarflokkurinn mikla möguleika á því að eflast til muna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Að því er stefnt.


Er stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í öruggum höndum?

Sjálfstæðismenn hafa leitt Ástu Þorleifsdóttur til valda í Orkuveitu Reykjavíkur. Hún er nú orðin varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur, eins og alþjóð veit, talað mjög afdráttarlaust gegn ýmsum framkvæmdum. Hún lét m.a. þessi fleygu orð falla um Kárahnjúkavirkjun í maí árið 2006:

Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur: Það verður að sjálfsögðu ekki hætt við þessa virkjun á vegum Landsvirkjunar en ef við hugsum til þess hvernig veðurguðirnir hafa ákveðið að sýna okkur virðingu og þeirri athöfn sem við stöndum fyrir hér. Hér skín sól og hér leika hlýir vindar. Hér er vor í lofti og fyrir austan er slydda, kalt og napurt. Þá skulum við vona að vinir mínir í Kverkfjöllum, eldrisinn ógurlegi sem býr undir Vatnajökli, vakni og bara svipti þessum ósóma burt. Það er sá eini möguleiki sem við eigum eftir núna.

Ekki lofar þetta góðu um störf og stefnu nýjasta meirihlutans í henni Reykjavík. Ábyrgð sjálfstæðismanna er mikil í þessum efnum. Ég get ekki ímyndað mér að það sé mikil stemning í herbúðum sjálfstæðismanna um skipan Ástu Þorleifsdóttur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.


Íbúðalánasjóður og Háskólinn á Akureyri

Ég kvaddi mér hljóðs í upphafi þingfundar í dag til að fara yfir málefni Íbúðalánasjóðs. Það er ekki vanþörf á því með tilliti til mikilvægs hlutverks hans á markaðnum í dag en hann býður nú sem fyrr upp á lægstu vextina. Ég minnti á það, þegar bankarnir ætluðu sér að hrekja Íbúðalánasjóð út af markaðnum, að þá töluðu frjálshyggjumenn um að ekki væri þörf fyrir svona opinbert batterí. Við framsóknarmenn stóðum vörð um starfsemi sjóðsins í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, enda var það Framsóknarflokkurinn sem skóp þessa stofnun sem yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar vill sjá áfram í óbreyttri mynd. Enda kom það nú á daginn í umræðunni áðan að stuðningur er hjá öllum stjórnmálaflokkum við áframhaldandi starfsemi Íbúðalánasjóðs sem sýnir að það var rétt hjá framsóknarmönnum að spyrna við þegar að sjálfstæðismenn vildu láta bönkunum einvörðungu eftir hlutverk sjóðsins á sínum tíma.

Nú áðan þá spurði ég í fyrirspurnartíma Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, út í málefni Háskólans á Akureyri og mikilvægi þess að styrkja hann sem undirstöðu háskólamenntunar á landsbyggðinni. Ég benti á byggðaáætlun 2006-2009 sem var samþykkt samhljóða á Alþingi og kvað sérstaklega á um málefni Háskólans á Akureyri. Iðnaðarnefnd var með byggðaáætlunina til meðhöndlunar en ég var formaður nefndarinnar þá og mjög ánægður með að sérstaklega var kveðið á um málefni Háskólans á Akureyri þar. Búið er að gera rannsóknasamning við Háskólann til 3ja ára, sem er árangurstengdur. Ég sé fram á áframhaldandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri sem óx gríðarlega þegar við framsóknarmenn vorum í ríkisstjórn, við munum halda áfram að vera á vaktinni þegar kemur að málefnum skólans.


Mikil tímamót - Björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri

Ég mælti nú áðan fyrir þingsályktunartillögu um staðsetningu björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Ég hef farið yfir þetta mál hér áður á blogginu mínu enda mun staðsetning þyrlu á Akureyri auka mjög á öryggi sjófarenda, íbúa og ferðalanga á Norður og Austurlandi. Þeir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni lýstu sig allir hlynnta því að björgunarþyrla yrði staðsett á Akureyri. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tók þátt í umræðunni og fór vel yfir þetta mál. Við lok ræðu sinnar lýsti ráðherra því yfir að það ætti í framtíðinni að tryggja að Landhelgisgæslan geti haldið úti björgunarþyrlu frá Akureyri. Það er því ekki spurning hvort heldur hvenær björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri. Þetta eru mikil tímamót að mínu mati.

Björn Bjarnason tók að sér það erfiða verkefni árið 2006, í kjölfar brotthvarfs Varnaliðsins, að byggja upp þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar. Þetta verkefni hófst í tíð samstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Björn hefur stýrt þessari uppbyggingu af metnaði og myndugleika og á hrós skilið. Ég hældi honum í þinginu áðan fyrir að halda þeim metnaði sem hann sýndi í sínum störfum í samstarfi við okkur framsóknarmenn, þrátt fyrir að vera kominn með miklu síðri félaga í ríkisstjórn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband