Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Á að lækka skatta á lífeyrisgreiðslur og hvað um umboðsmann aldraðra?

Það er alltaf spennandi að fylgjast með því hvernig að stjórnmálamenn fylgja eftir hugsjónum sínum. Ég fletti í gegnum hluta af kosningaloforðum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar og leit þar á helstu forgangsmál flokksins. Því hef ég lagt tvær fyrirspurnir fram í þinginu sem fjalla um brot af forgangsmálum Samfylkingarinnar og því forvitnilegt að heyra hvernig að staða þeirra mála er.

Ég spyr Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra sem nú er komin með málefni aldraðra inn á sitt borð, um stofnun embættis Umboðsmanns aldraðra sem var eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar. Nú er það því á valdi Jóhönnu Sigurðardóttur hvað um þetta loforð verður og því væntanlega ekki langt í að þetta embætti verði sett á fótinn. Reyndar verð ég að geta þess að loforð Samfylkingarinnar í málefnum aldraðra hafa nú ekki beinlínis gengið eftir og mikil undirliggjandi óánægja gagnvart flokknum í röðum aldraðra og jú líka öryrkja. Það verður því fróðlegt að heyra svör Jóhönnu.

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fær fyrirspurn um hvort að hann hyggist beita sér fyrir því að lækka skatt á lífeyrisgreiðslur niður í 10%, rétt eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar. Þetta er eitthvað óljóst því ég sé ekkert um þetta í stjórnarsáttmálanum. Samt var málflutningur samfylkingarfólks á þann veg fyrir síðustu kosningar að þetta væri mál sem yrði að kippa í liðinn. Flokkurinn hlýtur því að hafa lagt þunga áherslu á það í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor að tekjuskattur lífeyrisgreiðslna myndi lækka í 10%. Nú eigum við eftir að heyra svör Árna Matt, en einhvern veginn grunar mig að Samfylkingin hafi ekki lagt neina áherslu á þetta mál við stjórnarmyndunina. En það mun koma í ljós fljótlega...


Hvað gerir Samfylkingin nú?

Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt fram stjórnarskrárfrumvarp um að náttúruauðlindir, sem ekki eru háðar eignarrétti, verði þjóðareign. Þetta mál hefur verið mjög umdeilt síðustu árin enda um stórt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska þjóð. Þetta frumvarp er í takt við þá stefnu sem mörkuð var á síðasta flokksþingi og í takt við álit auðlindanefndar um stjórn auðlinda Íslands sem skilaði af sér árið 2000.

Eins og alþjóð veit þá vilja frjálshyggjupostularnir í Sjálfstæðisflokknum að margar af okkar dýrmætustu auðlindum séu háðar einkaeignarétti og þar með að þær verði ekki í þjóðareigu. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé einangraður í þessari afstöðu sinni og nú mun reyna á stóru orð Samfylkingarinnar sem gerði þetta mál að sínu stærsta í kosningabaráttunni. Ég á því fastlega von á því að meirihluti sé fyrir þessu frumvarpi á þingi. Nema að Samfylkingin sé endanlega gengin inn í Valhöll?


mbl.is Auðlindir í þjóðareign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um réttindi verðandi foreldra og um lýðheilsu

Ég sendi tvær skriflegar fyrirspurnir til ráðherra í þinginu í dag. Sú fyrri varðar réttindi verðandi foreldra sem þurfa að sækja á fæðingardeildir utan síns sveitarfélags. Þróun mála hefur verið sú á síðustu árum að mörgum fæðingardeildum á landsbyggðinni hefur verið lokað. Konum í þeim byggðarlögum er því gert, 15 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag, að flytjast í byggðarlag þar sem að þessi þjónusta er veitt. Það er umtalsverður kostnaður sem þessu fylgir og tryggingakerfið kemur að mjög takmörkuðu leyti að kostnaðarþátttöku. Hér er að mínu mati um að ræða mál sem þarf að skoða út frá jafnræðissjónarmiðum að allir eigi að hafa sama rétt þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Ég vonast til þess að tryggingamálaráðherrann taki vel í að skoða þessi mál út frá þessu sjónarmiði.

Hin fyrirspurnin er til forsætisráðherra um lýðheilsu. Mjög viðamikil skýrsla var unnin árið 2006 um tillögur, sem voru yfir 60 talsins, um bætta lýðheilsu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Ég inni ráðherrann eftir því hvað líði starfi við að fylgja þeim tillögum eftir. Við lestur skýrslunnar sá ég að margt er hægt að gera betur í þessum málaflokki og ég bíð spenntur eftir svari frá forsætisráðherra.


Áfram Obama!

Ég hef eins og aðrir fylgst með spennandi forvali Demókrata í Bandaríkjunum. Þar takast á tveir framúrskarandi stjórnmálamenn, Obama og Clinton. Ég átti lengi vel erfitt með að gera upp hug minn hvort þeirra ætti að verða forsetaefni en er nú alveg harðákveðinn í því að það eigi að vera Barak Obama. Það er eitthvað við þennan stjórnmálamann sem veldur því að hann hrífur fólkið með sér. Ég tók próf á dögunum sem Egill Helgason benti á og í mínu tilviki þá skoraði Obama langhæst af frambjóðendunum þar vestra.

Obama er því orðinn bloggvinur minn, enda er hér greinilega um að ræða bandarískan framsóknarmann! Alla vega fara skoðanir okkar að mörgu leyti ágætlega saman. Þannig stjórnmálamenn styð ég til allra góðra verka.


Pólitískur óróleiki í Reykjavík og á landsvísu

Undirstaða þess að þjóðir nái árangri í því að bæta lífskjör er að pólitískur stöðugleiki sé fyrir hendi, enda höfum við Íslendingar skorað hátt á síðustu árum í þeim efnum. Pólitískur stöðugleiki tryggir nefnilega atvinnulífinu þau skilyrði að það geti dafnað, þannig batna kjör okkar allra og þannig hefur það verið í hátt í tuttugu ár.

Framsóknarflokkurinn var til dæmis í meirihluta í Reykjavíkurborg í frá 1994-2007 eða í 13 ár. Margt ávannst á þeim tíma til dæmis við uppbyggingu leik- og grunnskóla borgarinnar sem Sigrún Magnúsdóttir, framsóknarkona, vann ötullega að. En tímarnir í henni Reykjavík eru breyttir. Algjört öngþveiti er á hinu pólitíska sviði með ófyrirsjáanlegum hætti. Við hljótum því öll að vona að tímar stöðugleika við stjórn borgarinnar renni upp á ný, því staðan eins og hún er núna er óásættanleg.

Sama má segja um ríkisstjórnina. Við framsóknarmenn áttum gott samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í 12 ár, á því tímabili þar sem að lífskjör þjóðarinnar bötnuðu hvað mest. Það samstarf var með öðrum hætti en það sem einkennir samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar eru svo mörg að maður á hreint út sagt erfitt með að fylgjast með þeim öllum. Þetta hefur valdið því að stefna ríkisstjórnarinnar í mörgum veigamiklum málum er svo óljós að við það verður ekki unað. Það getur vel verið að það sé þetta sem Samfylkingin kallar samræðustjórnmál, en það er ekki góð tegund af pólitík þegar að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands tala í austur og vestur. Þannig hafa þeir vakið miklar væntingar hjá fólki í mörgum veigamiklum málum, eitthvað sem hugsanlega verður aldrei hægt að standa við. Ekki mun virðing stjórnmálanna aukast við það, svo mikið er víst.

Það er því nauðsynlegt að fá raunverulega stjórnendur sem taka á vandamálunum, bæði í Reykjavík og á landsvísu. Það er með ólíkindum að horfa upp á nýja ríkisstjórn leiða hjá sér mörg stór viðfangsefni sem víða blasa við. Það er einungis samstaða um eitt á þeim bænum; Að gera ekki neitt.


Arnbjörg Sveinsdóttir næsti ráðherra?

Það er með ólíkindum að sjá hversu mikinn áhuga Mogginn hefur allt í einu á Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni sjálfstæðismanna. Staksteinar hafa fjallað um hana upp á síðkastið og það verður að segjast eins og er að sú umfjöllun hefur ekki verið á jákvæðu nótunum. Ég hef þá kenningu að einhverjir vilji veikja Arnbjörgu í því ljósi að eitthvert rót sé framundan á ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins. Arnbjörg er náttúrulega mjög framarlega í röðinni ásamt Bjarna Benediktssyni þegar kemur að vænlegum ráðherraefnum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Það er tímabært fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fríska upp á ímynd sína hvað varðar áhrif kvenna á stjórn landsins. Arnbjörg myndi sóma sér vel í ríkisstjórn og ég hef fulla trú á að hún myndi skila góðu starfi þar. Það væri einnig akkur fyrir Norðausturkjördæmið að fá Arnbjörgu inn í ríkisstjórnina. Sérstaklega á þeim tímum sem eru mjög erfiðir fyrir mörg samfélög í því kjördæmi. Það virðist nefnilega vera staðreynd að 3. þingmaður Norðausturkjördæmis, Kristján Möller, virðist ná mjög takmörkuðum árangri í framgangi mála innan ríkisstjórnarinnar sem snerta mikilvæg málefni.

Ég er viss um að atorkusami kvenskörungurinn Arnbjörg Sveinsdóttir gæti miklu frekar náð fram málum á vettvangi ríkisstjórnarinnar enda nýtur hún víðtæks trausts og virðingar á vettvangi stjórnmálanna. Það er því að mínu mati ótvíræður kostur í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skipa Arnbjörgu Sveinsdóttur og Bjarna Benediktsson í ráðherraembætti ef breytingar eru þar á döfinni eins og margir leiða líkum að. Þannig gæti hin daufgerða ríkisstjórn hugsanlega rekið slyðruorðið af sér.


Ófærð á Íslandi í dag, skemmtilegt ferðalag að baki

Enn eina ferðina varð röskun á innanlandsfluginu. Mér sýnist að við séum að upplifa fyrsta alvöru veturinn í mörg ár. Þar sem ekkert var flogið frá Akureyri í morgun var það ákveðið af okkur Valgerði og Bjarna að keyra suður. Lilja, dóttir Valgerðar, var einnig með í för. Hófst þá tæplega 9 tíma ferðalag sem endaði í Reykjavík á sjötta tímanum í dag. Þetta ferðalag var mjög skemmtilegt í alla staði, þrátt fyrir ófærð og óveður, enda frábær félagsskapur.

Fundurinn á Húsavík í gærkvöldi var magnaður í alla staði, mjög góðar ræður fluttar af Þingeyingum á fundinum enda tilgangur funda okkar framsóknarmanna að heyra hvað fólk hefur til málanna að leggja. Af nógu er að taka í þeim efnum en vaxandi gremja má heyra á fólki í garð daufgerðar og aðgerðalítillar ríkisstjórnar. Enda er það orðið á ýmsum ráðherrum að heyra, þegar kemur að málflutningi og orðalagi, að farið er að glitta í einhvern vott af örvæntingu á þeim bænum. Meira um það síðar...


Fundur á Húsavík í kvöld

Fer í flug núna á eftir þar sem við ætlum að halda fund; Valgerður Sverris, Bjarni Harðar og ég sem er liður í fundarherferð Framsóknarflokksins. Fundir á Húsavík eru alltaf líflegir og Framsókn hefur alla tíð haft mjög sterka stöðu þar. Trúlega verða það atvinnu- og samgöngumál sem munu brenna á Húsvíkingum í kvöld. Sveitarstjórnin hefur komið fram í þeim málum af miklum krafti, ég þekki það á eigin skinni, og er það til mikillar fyrirmyndar. Sveitarfélagið sendi á dögunum frá sér glæsilegan bækling þar sem að framtíðarsýn þeirra var útlistuð með álveri á Bakka í forgrunni. Eins og áður sagði þá verða þau mál örugglega á dagskrá fundarins í kvöld.

Ætli Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi haldið opinn stjórnmálafund nýlega á Húsavík? Ég hef a.m.k. ekki heyrt neitt af því en ég kom með áskorun á dögunum hér á blogginu til Samfylkingarinnar að slíkur fundur yrði haldinn. En maður ræður víst ekki öllum sköpuðum hlutum.


Fyrirspurnir til ráðherra

Ég sendi nokkrar fyrirspurnir til ráðherra í þinginu í gær. Það verður áhugavert að heyra svör ráðherranna við þeim. En meðal annars spyr ég eftirfarandi spurninga:

Menntamálaráðherra spyr ég hvort hún ætli að beita sér fyrir að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis eins og Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar. Hvað líði endurskoðun á framfærslugrunni Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hvort að ráðherrann vilji beita sér fyrir því að stofnuð verði heildar hagsmunasamtök framhaldsskólanemenda á ný.

Samgönguráðherra spyr ég um hvað líði útboði lengingar Akureyrarflugvallar og útboði á Vaðlaheiðargöngum. Eins og margir muna þá var helsta loforð Kristjáns Möller fyrir síðustu kosningar; Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, strax! Nú er árið 2008 runnið upp og ekkert að frétta af þessari mikilvægu framkvæmd.

Umhverfisráðherra spyr ég um málefni Náttúrufræðistofnunar, hvort að hún hyggist beita sér fyrir eflingu starfsemi stofnunarinnar á Akureyri. Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr um þetta því ráðherrann hefur sérstaklega beitt sér fyrir að færa störf af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins það sem af er. Hún beitti sér fyrir því að leggja niður forstöðumannsstarf Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar (sem var á Akureyri en flutt suður) sem og að auglýsa starf yfirmanns Vatnajökulsþjóðgarðs án staðsetningar (sem verður þá trúlega staðsettur á höfuðborgarsvæðinu en ekki í þjóðgarðinum). Hugstakið störf án staðsetningar sem Samfylkingin boðaði síðasta vor hafa því öðlast nýja merkingu í mínum huga.

En eins og ég segi, það verður fróðlegt að heyra svör ráðherranna.


Nauðvörn Össurar Skarphéðinssonar

Össur Skarphéðinsson ræðir á heimasíðu sinni um stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum og vill meina að flokkurinn hafi tvær til þrjár stefnur þegar kemur að Evrunni og aðildinni að Evrópusambandinu.

Það er nú einu sinni þannig, þegar að Össur á í hlut, að sannleikurinn er ekki neitt sérstakt aðalatriði. Ari fróði sagði hér forðum: „Hafa skal það sem sannara reynist“, en mottó Össurar hefur löngum verið: „Hafa skal það sem betur hljómar... hverju sinni“. Enda hefur ráðherrann löngum þótt skemmtilegur en oft ekki sérstaklega trúverðugur eða hafa staðfasta sannfæringu í málum, eins og fylgjendur samstarfsflokks hans í ríkisstjórninni hafa oft gert að umfjöllunarefni.

Stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum hefur alla tíð legið fyrir og reyndar hefur ekki í neinum öðrum íslenskum stjórnmálaflokki farið fram eins mikil umræða um Evrópumál og í Framsóknarflokknum. Við framsóknarmenn lögðum þannig mikla vinnu í það á árunum 2000-2001, með skipan nefndar innan flokksins, að ræða samskiptin og hugsanlega samninga við ESB. Þessu fylgdum við eftir á síðasta flokksþingi okkar með mótun samningsmarkmiða ef til mögulegra aðildarviðræðna kæmi. Sérstök Evrópunefnd innan flokksins undirbjó þá vinnu og skilaði vandaðri skýrslu um Evrópumál sem nálgast má á heimasíðu flokksins. Framsókn hefur einnig oftsinnis ályktað um þessi mál og hljómaði ályktun síðasta flokksþings um Evrópumál á eftirfarandi hátt:

Samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggjast fyrst og fremst á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Full ástæða er til þess að þróa frekar það samstarf þar sem það á við. Langvarandi jafnvægi og varanlegur stöðugleiki í efnahagsmálum er ein meginforsenda hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu. Þannig geta Íslendingar byggt ákvarðanir sínar á styrkleika og í samræmi við sinn eigin þjóðarmetnað, sem frjáls þjóð.

Framsóknarflokkurinn vill byggja á EES samningnum í samskiptum við Evrópusambandið, hann hefur gagnast Íslendingum vel. Ef til hugsanlegrar aðildarviðræðna kæmi þá þarf að ríkja stöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Því er aldeilis ekki fyrir að fara eins og alþjóð veit og hin ábyrga efnahagsstefna sem Samfylkingin boðaði fyrir kosningar, með skýrslu Jóns Sigurðssonar fyrrverandi krataráðherra, liggur núna vafalítið í skúffu í iðnaðarráðuneytinu. Svo mikið er víst að útgjaldaaustrið og skortur ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna á ábyrgni í vinnubrögðum í fjárlagagerðinni mun ekki hjálpa til í þessum efnum. Samfylkingin er því sjálfri sér verst þegar kemur að Evrópumálum.

Stefna Framsóknarflokksins er hins vegar skýr hvað þetta varðar eins og hér hefur verið rakið. Við þessu má svo því bæta að nú hefur verið settur á fót starfshópur innan flokksins til að fjalla um gjaldmiðilsmálin. Framsóknarflokkurinn er því að beita sér fyrir því að halda úti málefnalegri umræðu um þessi mál, og mættu aðrir taka sér það til fyrirmyndar.

Hins vegar er dapurlegt að sjá Össur reyna að drepa málum á dreif þegar kemur að „út og suður“ stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum gjaldmiðilsins og ESB. Reyndar er það svo að ráðherrann er mest erlendis að sinna útrásarverkefnum og er þar með fína og fræga fólkinu sem hann tilgreinir á sinni heimasíðu. Kannski að ráðherrann hafi verið of mikið fjarverandi að undanförnu þannig að misvísandi skilaboð ráðherra í hans eigin ríkisstjórn hafi farið fram hjá honum?

Er ekki tími til kominn að Össur fari að sinna sínum störfum hérlendis til tilbreytingar? Hans fyrsta verk gæti til að mynda verið það að endurskoða „stórkostlegustu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar“ sem hann kynnti síðastliðið sumar. Ekki er vanþörf á þar sem uppsagnir hrannast upp hjá útgerðarfyrirtækjunum á sama tíma sem „störf án staðsetningar“ virðast leita til höfuðborgarinnar. Enda hafa forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra fellt þann dóm að mótvægisaðgerðir Össurar Skarphéðinssonar þarfnist endurskoðunar við.

Til að leyfa ráðherranum að njóta sanngirni þá vil ég hrósa honum fyrir skemmtileg skrif og mikla elju við þau öllum stundum sólahringsins. Sömuleiðis fyrir mikla viðleitni við að læra og reyna að beita smjörklípuaðferð fyrrverandi forsætisráðherra. Æfingin skapar meistarann og ef til vill kemst ráðherrann með tímanum betur á lagið með að beina sjónum manna frá vandræðaganginum innan ríkisstjórnarinnar, umdeildum ráðningarmálum og ýmsu því sem hann og „pater familias“ þurfa að glíma við þessa dagana.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband