Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.2.2008 | 11:04
Málefni stúdenta rædd á ÍNN
Björg Magnúsdóttir, nýkjörin formaður Stúdentaráðs HÍ, var gestur minn á ÍNN í gær. Reyndar verður þátturinn ekki sýndur fyrr en í næstu viku en þar bar meðal annars húsnæðisekla stúdenta á góma. Athyglisvert var að heyra að óróleikinn í borginni, tíð meirihlutaskipti, hefur haft áhrif á þessa uppbyggingu. Fyrsti meirihlutinn var víst búinn að gangast inn á þetta en nú þarf að ræða við nýjasta meirihlutann í borginni um fjölgun stúdentaíbúða. Svo öllu sé haldið til haga þá kvaðst Björg vera bjartsýn á að nýjasti meirihlutinn muni taka þessum hugmyndum vel, þannig að vonandi er ekki langt í að byggðar verði fleiri stúdentaíbúðir. Hér er um að ræða mikilvægt mál fyrir námsfólk, sérstaklega á þeim tíma sem að leiga á almennum markaði er himinhá. Og ekki kaupa námsmenn sér íbúðir í Reykjavík nú um stundir, svo mikið er víst.
Annars var skemmtilegt að fá Björgu í þáttinn. Þar er greinilega á ferðinni mikil kjarnakona og ég er þess fullviss að hún muni sinna störfum í þágu stúdenta með stakri prýði. Í samtali okkar var rætt um fjölmörg mál sem snerta hagsmuni námsmanna hér á landi en eins og áður sagði verður þátturinn trúlega ekki sendur út fyrr en í næstu viku.
700 á biðlista eftir stúdentaíbúðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2008 | 11:52
Staða bankanna og hvað verður um Íbúðalánasjóð?
Nú í erfiðleikum bankanna, sem ég ætla ekki að gera lítið úr, er rætt um að Íbúðalánasjóður hverfi nær alveg af húnsæðismarkaðnum og láti bönkunum það svið eftir. Þetta kemur fram í grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag. Nú er það svo að ég deili áhyggjum með þeim félögum af stöðu efnahagsmála hér á landi sem og stöðu bankanna. Þetta er í raun og veru í fyrsta skiptið sem eitthvert lífsmark virðist vera með stjórnarliðum í umræðunni um þessi mál. Ég tel að stjórnvöld geti gert margt til að styrkja stöðu íslenska fjármálamarkaðarins. Þar þarf fyrst að styrkja stöðu Seðlabanka Íslands, með samningum við aðra seðlabanka á Norðurlöndunum, þannig að bankarnir gangist í ábyrgðir hver fyrir annan bregði eitthvað út af. Það myndi styrkja stöðu Seðlabankans til muna. Það má einnig velta því fyrir sér hvað varð um tillögur um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð sem Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra lét vinna? En fyrst og síðast eru það batamerki á daufgerðri ríkisstjórn að öflugir stjórnmálamenn sem þeir Bjarni og Illugi eru skuli vera komnir fram á völlinn.
Hins vegar er ég algjörlega ósammála þeim félögum þegar kemur að málefnum Íbúðalánasjóðs. Nú á að draga verulega úr starfsemi Íbúðalánasjóðs ef marka má skrif þeirra félaga. Við framsóknarmenn stóðum vörð um starfsemi sjóðsins á síðustu árum sem hefur skilað almenningi þó mun lægri vöxtum en bankarnir hafa boðið. Hver væri staða húsnæðiskaupenda á markaðnum í dag ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við? Ég held að Samfylkingin sé að gefast upp í glímunni við Sjálfstæðisflokkinn um Íbúðalánasjóð, því miður.
25.2.2008 | 18:15
Vonandi verður loðnan veidd
Það voru mjög alvarleg tíðindi fyrir margar sjávarbyggðir þegar að loðnuveiðar voru stöðvaðar nú á dögunum. Ákvörðun sem er ofan í þriðjungs niðurskurð á þorskveiðiheimildum. Hafró er nú að leita að loðnu og vonandi skilar sú leit þeim árangri að loðnuveiðar verði hafnar á ný. Mörg hundruð störf eru í hættu því þessi útvegsgrein hefur verið undirstaða margra byggða á Austurlandi og í Vestmannaeyjum svo dæmi séu nefnd. Sem betur fer býr mið - Austurland að því að stór vinnustaður er nú þar fyrir hendi, álver Alcoa á Reyðarfirði. Ég held að það þurfi ekki að rifja mikið upp hverjir stóðu að uppbyggingu þess vinnustaðar.
Hins vegar má benda á útgerðarbæinn Vestmannaeyjar sem verður fyrir miklu tjóni að öllu óbreyttu. Ég vil líka nefna Siglufjörð, þar hefur loðnu reyndar ekki verið landað að ráði í mörg ár þrátt fyrir glæsilega verksmiðju sem þar er fyrir að finna. Þannig að stjórnvöld verða að átta sig á þeim erfiðleikum sem að margar sjávarbyggðir verða fyrir þessi misserin. Endurskoðun á mótvægisaðgerðum eru því nauðsynlegar og það þýðir ekkert hálf kák í þeirri endurskoðun. Aðgerða er þörf og það strax.
Loðna finnst við Hjörleifshöfða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2008 | 16:40
Að sitja við sama borð
Síðustu dagana hafa fjölmiðlar gert það að umtalsefni að ég hafi í góðra vina hópi farið inn á stað þar sem póker var spilaður upp á peninga og tekið í spil. Augljóst er að sumum þykir það ekki við hæfi að þingmaður setjist að slíku spilaborði og kallar það viðhorf raunar á þarfa umræðu um hvers vegna nokkrar tegundir fjárhættuspils eru leyfðar og jafnvel reknar af ríkisvaldinu á meðan aðrar eru í hlutskipti litla ljóta andarungans og hafa beðið þess lengi að fá uppreist æru. Ég hef alla tíð verið áhugamaður um margs konar spilamennsku. Ég spila t.d. bridge af miklum móð og hef bæði orðið Íslandsmeistari í þeirri íþrótt og Norðurlandameistari með unglingalandsliði Íslands. Skemmtilegast finnst mér þó að spila við móðurömmu mína sem er á níræðisaldri og nýtir sér langa reynslu við spilaborðið með þeim meistaralega hætti að fáir standast henni snúning. Í spilum eru peningar stundum lagðir undir. Á bingókvöldum greiða menn þátttökugjald og hinir heppnu hirða pottinn. Á bridgehátíð sem ég sótti um síðustu helgi greiddu allir þátttökugjald og þeir slyngustu fengu hluta þess í verðlaunafé. Með mér við spilaborðin voru hæstaréttardómari, seðlabankastjóri og bæjarstjóri og fjölmiðlar greindu með velþóknun frá stóru og vel heppnuðu móti. Reglulega birta fjölmiðlar fréttir af þeim sem stærsta vinninginn hljóta í happdrættum og lottó- eða lengjuleikjum landsmanna. Í nafni menntagyðjunnar og hjálparsamtaka eru spilakassavíti rekin í skúmaskotum um alla borg og á fjölmörgum netsíðum er fólki boðið að leggja fjármuni undir og freista gæfunnar í alls kyns spilum, veðmálum og happdrættum. Lög banna ekki að spilaður sé póker upp á peninga. Það mega þingmenn, bankastjórar og móðurömmur gera hvenær sem þeim sýnist. Þess vegna datt mér ekki í hug eitt andartak að fjölmiðlum gæti þótt það misbjóða almennu velsæmi að ég spilaði póker en skemmtilegt og til fyrirmyndar að ég spilaði bridge upp á verðlaunafé. Ég skal játa það líka að ég hef spilað á sunnudögum. Ég þori að veðja upp á sumum finnist það alls ekki við hæfi. Ég hafði ekki hugsað mér að verða sérstakur baráttumaður fyrir réttinum til að leggja peninga undir í spilum. Sjálfsagt hefur umræðan, þótt hún hafi skapast af frekar litlu tilefni, verið upplýsandi engu að síður. Ég hef líka fengið tilefni til að hugleiða hvers vegna það sé ólöglegt að útvega aðstöðu á borð við herbergi og spilaborð fyrir áhugasama pókerspilara á meðan yfirvöld setja kíkinn fyrir blinda augað hvað varðar t.d. rekstur spilakassavítanna sem því miður leika marga sem falla í spilafíkn afar grátt. Flestir fara létt með að spila bridge, póker, tuttuguogeinn, vist eða rommí, leggja kapal og spila matador án þess að verða spilafíklar. Flestir geta líka fengið sér rauðvín með helgarsteikinni án þess að verða alkóhólistar. Á þessu eins og öðru eru auðvitað undantekningar, sumum verður hált á svellinu og þurfa að leita sér aðstoðar, en lausnin er ekki alltumlykjandi forsjárhyggja sem bannar fjárráða einstaklingum að auka spennuna við spilaborðið með því að leggja svolítið undir. Með því er ég þó ekki að gera lítið úr þeim vanda sem spilafíkn er og vil skoða þau mál enn frekar í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað. Tvískinnungurinn blasir við öllum sem horfa á þetta mál sanngjörnum augum. Ég hvet til hreinskiptinnar umræðu um hvað sé heppilegt í þessum efnum og hvernig við getum tryggt að hin ólíka spilamennska landsmanna geti setið við sama borð. |
19.2.2008 | 14:18
Of hátt eldsneytisverð, hvað finnst ríkisstjórninni um það?
Ég held að það sé eins farið með mig og aðra landsmenn að mér finnst verð á eldsneyti allt of hátt hér á landi. Þegar að lítrinn er farinn að nálgast 150 krónurnar þá held ég að stjórnvöld þurfi að fara að hugsa sinn gang. Eins og allir vita þá er skattlagning á eldsneyti mjög há hér á landi og mér finnst tímabært að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti, a.m.k. tímabundið, á meðan að staðan er með þessum hætti. Slík ákvörðun gæti jafnframt haft áhrif á verðbólgumælingar hér á landi og myndi því hafa tímabundin jákvæð áhrif.
Hátt eldsneytisverð kemur mjög við pyngju heimilanna, við rekstur fjölskyldubílsins, og jafnframt hefur eldsneytisverð áhrif á flutningskostnað og þar með verðlagningu þeirrar þjónustu sem leiðir svo til hærra vöruverðs. Hér er því um að ræða mál sem ríkisstjórnin verður að láta sig varða og spurning hvort að fjölmiðlar ættu ekki að ganga að ráðherrum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um hvort ekki ætti að lækka opinberar álögur á eldsneyti? Ég sting upp á Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem fer með málaflokkinn og Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sem var tíðrætt um háan flutningskostnað í aðdraganda síðustu kosninga.
Eldsneyti hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2008 | 11:19
Framsókn í Fjallabyggð
Ég var heima á Sigló á fimmtudag og föstudag. Á fimmtudagskvöldið var haldinn fundur í framsóknarfélögunum þar sem farið var vítt og breitt yfir málin. Fundurinn var mjög góður, umræður hreinskiptar og málefnalegar. Það sem einkennir félagsfundina heima er hversu vel þeir eru sóttir og einnig hversu fjölbreytilegur hópur fundarmanna er, fólk á öllum aldri. Félag ungra framsóknarmanna er mjög öflugt og heldur úti miklu félagsstarfi og eldra félagið er einnig mjög virkt.
Þessi hópur fólks ásamt framsóknarfólki í Ólafsfirði tryggði flokknum glæsilega útkomu í síðustu sveitarstjórnarkosningum, þrátt fyrir mjög erfitt gengi á landsvísu. Flokkurinn fékk rúm 22% og bætti verulega við sig á milli kosninga. Það gerðist með ótrúlega miklu starfi margra einstaklinga sem og frábærri stemningu sem þá ríkti. Nú er verkefnið að halda upp sama andanum ásamt því að sinna því starfi að vera í meirihluta í sveitarfélaginu. Mikið var því rætt á fundinum um innra starfið sem og um hvað búið er að gera á kjörtímabilinu og hvert fólk vill stefna að í framhaldinu. Það er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn og flokka að eiga gott og traust bakland, það er svo sannarlega fyrir að finna hjá framsóknarfólki í Fjallabyggð.
Set hér link inn á heimasíðu Fuf á Siglufirði.
18.2.2008 | 22:30
Getur verið að nær ekkert hafi verið gert?
Eins og fram kom á blogginu mínu um daginn þá hef ég lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um eflingu lýðheilsu á Íslandi. Í september 2006 skilaði fagráð forsætisráðherra skýrslu þar sem að lagðar voru fram 67 tillögur, sem snerta flest öll ráðuneyti, um aðgerðir sem bæta lýðheilsu þjóðarinnar. Í DV í dag er svo fjallað um þessa fyrirspurn mína og meðal annars viðtal tekið við Þorgrím Þráinsson sem var formaður fagráðsins. Þegar hann var inntur eftir hvort að búið væri að koma einhverjum tillögum fagráðsins í framkvæmd þá sagði hann "eins og staðan er í dag þá er eins og hálfs árs starf faghópsins að engu orðið".
Í fréttinni kemur einnig fram að á þeim 17 mánuðum sem hafa liðið frá því að nefndin skilaði af sér þá hefur einungis ein tillagan komið til framkvæmda og það hafi verið Kaupþing sem hafi fjármagnað það verkefni sem snéri að koma upp matjurtargörðum í leikskólum landsins. Vonandi fæ ég önnur svör frá forsætisráðherranum en koma fram í þessari frétt en þessi ríkisstjórn hefur ekki beinlínis verið að fá þá dóma að það sé kraftur sem einkennir hennar störf. Þannig að ég er hræddur um að lítið hafi verið gert í þessum málaflokki síðustu mánuði enda er þessi ríkisstjórn sögð vera daufgerð og það mun kannski endanlega sannast þegar að Geir svarar þessari fyrirspurn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook
18.2.2008 | 21:29
Huld Aðalbjarnar er mætt til leiks!
Á morgun mun nýr þingmaður líta dagsins ljós. Huld Aðalbjarnardóttir, skólastjóri úr Öxarfirði, sest þá á þing í fjarveru félaga Höskuldar Þórhallssonar sem nú er kominn í fæðingarorlof. Hér er á ferðinni mikill skörungur sem ég kynntist í síðustu kosningabaráttu. Þá ferðuðumst við mikið saman um Norðausturkjördæmi og held ég að það sé óhætt að segja að fólki þótti mikið til þessarar stjórnmálakonu koma. Hún lagði í þeirri kosningabaráttu á sig gríðarlega mikla vinnu og var mjög ósérhlífin í þeirri baráttu.
Ég er viss um að Huld á eftir að vera áberandi þingmaður á næstu vikum. Ég hef nú þegar heyrt af málum sem hún hefur áhuga á að beina sjónum sínum að innan þingsins. Þannig að það verður áhugavert að fylgjast með hennar málflutningi enda á ferð kona sem hefur reynslu á mörgum sviðum samfélagsins og því akkur fyrir löggjafarsamkomuna að fá slíka sendingu norðan úr Öxarfirðinum.
Síðan er það spurning hvort að Huld slái met Jóns Björns Hákonarsonar sem var ekki nema 17 mínútur í ræðustólinn?
15.2.2008 | 12:01
Stjörnutvímenning lokið, rjómablíða á Sigló
Það er ánægjulegt að sjá hversu glæsileg umgjörð er utan um Bridgehátíðina að þessu sinni. Mjög góð þátttaka er á mótinu log margir sterkir spilarar mættir til leiks, m.a. Norðmenn sem eru heimsmeistarar í íþróttinni. Ég er staddur á Sigló í dag í rjómablíðu en ég verð að viðurkenna að mikið þætti mér gaman ef ég gæti verið með. En því er ekki að heilsa þetta árið að ég taki þátt í tvímenningnum en ég ætla að spreyta mig á sveitakeppninni sem verður um helgina.
Það var gaman hjá okkur Gunnari í Stjörnutvímenningnum á miðvikudagskvöldið sem var í raun sveitakeppni einnig. Við drógumst í sveit með Sigfúsi Erni og Friðjóni Þórhallssyni sem eru gamalreyndar kempur í bransanum. Og árangurinn var þó ekki verri en það að við vorum á tímabili efstir í sveitakeppninni en enduðum reyndar í 5. sæti. Það er bara fínn árangur að mínu mati en þetta kvöld var þó leiðinlegt að því leyti til að við Gunnar fengum aldrei nein spil, sögðum PASS með græna kortinu allt kvöldið og vorum því mikið í vörn þetta kvöldið. En vörnin var góð hjá okkur félögunum og síður en svo slæmur árangur miðað við þær kempur sem spiluðu þetta kvöld.
Karl og Sævar með forustu á Bridshátíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2008 | 17:43
Spil í kvöld með Gunnari Birgissyni
Í kvöld verður haldinn svokallaður Stjörnutvímenningur sem er mót sem haldið er í aðdraganda alþjóðlegrar bridgehátíðar sem haldin er hér á landi árlega. Hörku spilarar, íslenskir og erlendir, mæta til leiks og reyna með sér. Að þessu sinni eru gestir hátíðarinnar meðal annars núverandi heimsmeistarar í bridge, Norðmenn. En Stjörnutvímenningurinn er nokkurs konar upphitun á þessari bridgeveislu og ég ætla að leyfa mér að taka þátt í tvímenningnum í kvöld.
Ég er nú bærilega bjartsýnn á árangurinn í þessu móti því ég hef ekki spilað að viti í heilt ár. Eitt af því sem ég hef þurft að fórna síðustu mánuði er nefnilega að spila bridge. Ég hef alla tíð spilað mikið og tekið þátt í mörgum mótum ár hvert og gengið bara bærilega vel í þessari íþróttagrein. Hins vegar fer mikill tími í þetta sport og því bíður það betri tíma að hefja alvöru spilamennsku á ný.
Minn makker í kvöld verður Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi. "Það er gott að búa í Kópavogi".Við félagarnir erum nú ekki mjög samspilaðir en það verður fróðlegt að sjá hvernig mér mun ganga að eiga við íhaldsmanninn í kvöld. Gunnar er skemmtilegur spilari, spilar djarft á köflum og því oft spennuþrungið loft við spilaborðið þegar hann á í hlut. Síðast spiluðum við saman á Siglufirði síðastliðið sumar og nú er bara að sjá hvort að við sýnum aftur þau snilldartilþrif sem þá áttu sér stað. En allt er þetta meira til gamans gert. Ég á að minnsta kosti ekki von á því að við hirðum gullið í kvöld en við verðum örugglega skeinuhættir á köflum. Svo mikið er víst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook