Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loforð Kristjáns Lúðvíks Möllers um Vaðlaheiðargöngin

Hér á þessum vettvangi hefur með reglubundnum hætti verið minnst á málefni Vaðlaheiðarganga. Það er því fagnaðarefni að loksins nú skuli koma yfirlýsingar frá samgönguráðherra um hvenær eigi að hefjast handa. Vorið 2009 eiga framkvæmdir að hefjast og veggjald verður innheimt þegar að umferð verður hleypt á.

Til upprifjunar vil ég halda því til haga að Kristján Möller sagði í aðdraganda síðustu kosninga að hann vildi hefja framkvæmdir strax, þannig að hægt væri að opna Vaðlaheiðargöngin um áramótin 2009-2010. Hann hamraði líka á því að gjaldfrjáls göng væru jafnræðismál og að sjálfsögðu ættu Vaðlaheiðargöng að vera gjaldfrjáls. Þetta var aðal kosningaloforð Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.

Það stendur því ekki steinn yfir hjá ráðherranum þegar kemur að þessu kosningaloforði, og reyndar er það svo í mörgum öðrum málum.  Hvernig ætli standi á því að hinir vökulu fjölmiðlar skuli ekki standa betur vaktina þegar kemur að því að bera saman öll loforðin og síðan efndirnar? Af nógu er að taka.


Kosningaloforðin standa í björtu báli

Á Alþingi í morgun auglýsti ég eftir "Fagra Íslandi" og "stóriðjustoppinu" sem að Samfylkingin hélt á lofti fyrir nokkrum mánuðum. Það voru nefnilega ekki neinar smá yfirlýsingar sem að þá komu úr þeim herbúðum að nú þyrftu stjórnvöld að grípa í taumana og ná stjórn á þessum málum, það væri ekkert mál ef vilji væri fyrir hendi. Nú er Samfylkingin bæði með umhverfis- og iðnaðarráðuneytið og "Fagra Ísland" er gleymt og grafið. Einnig hélt Samfylkingin því fram, að kæmi til áversuppbyggingar, að þá væri það staðföst stefna á þeim bænum að sú uppbygging yrði á Bakka við Húsavík. Síðan, eftir kosningar, hefur umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir lagt sig fram við að tala þá framkvæmd niður.

"Fagra Ísland" er gleymt og ekkert verður "stóriðjustoppið" eins og Samfylkingin lofaði (sem ég var nú ekki sammála), og ekki er álver á Bakka neitt forgangsverkefni. Þessi kosningaloforð flokksins, ásamt svo mörgum öðrum, standa nú í björtu báli þannig að lítið er eftir af hugsjónum Samfylkingarinnar nema kannski örlitlar brunarústir. Þetta er staðan í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Ég sem hélt að Sjálfstæðisflokknum einum væri treystandi til að leiða atvinnuuppbygginguna á Bakka við Húsavík? Það var að minnsta kosti málflutningur sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fyrir einu ári eða svo.


Röð vonbrigða í dag

Það er leiðinlegast og hvað mest niðurdrepandi í starfi þingmanns að þurfa að horfa upp á mál sem eru brýn og þarfnast nauðsynlega úrlausnar við, en ekkert á að gera. Hvað þá að horfa til málaflokka þar sem ráðamenn höfðu uppi hástemmd loforð í aðdraganda síðustu kosninga, en trúlega á ekkert að gera. Slíkur dagur var í dag, þar sem að ég beindi nokkrum fyrirspurnum til ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Heilbrigðisráðherra ætlar ekki að beita sér sérstaklega fyrir því að koma til móts við kostnað foreldra sem þurfa að sækja á fæðingarþjónustu utan sinnar heimabyggðar. Fæðingardeildum hefur fækkað mjög mikið á undanförnum árum og búið er að loka þeim í mörgum bæjarfélögum á landsbyggðinni. Það er gert í ljósi meiri sérhæfingar við fæðingarþjónustu hér á landi sem á oft á tíðum rétt á sér. Hins vegar þarf þá að bregðast við þeirri þróun og þeim kostnaðarauka sem þessu fylgir fyrir margar fjölskyldur. Um er að ræða um 400 fjölskyldur á ári sem verða fyrir miklum útgjöldum vegna þessa þar sem að barnshafandi móðir þarf að yfirgefa sína heimabyggð hálfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Margar fjölskyldur þurfa því að vera 3-4 vikur að heiman sem eins og áður sagði fylgir mikill kostnaður. Ég spurði ráðherrann hvort að hann vildi beita sér fyrir því að leiðrétta þann aðstöðumun sem að þessu fylgdi en fékk dræm svör. Hér er því ekki verið að gæta þess að allir njóti jafnræðis gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Því miður.

Í fyrirspurn til félagsmálaráðherra um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra kom nú fram mun minni áhugi hjá Samfylkingunni að standa við það kosningaloforð. Þetta var eitt af helstu kosningamálum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar en nú er öldin önnur og benti ráðherra á að það ætti eftir að ræða þetta mál við sjálfstæðismenn. Það hefur greinilega ekki verið á oddinum hjá Samfylkingunni að ræða þetta við gerð stjórnarsáttmálans þrátt fyrir að um helsta kosningamál flokksins væri að ræða. Merkilegt hvað Samfylkingin hefur breytt um áherslur í mörgum málum eftir kosningar!

Ég spurði Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, út í eflingu á starfsemi Náttúrufræðistofnunar á Akureyri. Þar eru einungis 6 starfandi í dag í leiguhúsnæði á Borgum, en leikandi væri hægt að fjölga starfsmönnum upp í 14. Svo mikið er starfsrýmið. Reyndar eru auglýsingar í gangi vegna tveggja stöðugilda þar sem að tveir hafa nýlega hætt störfum hjá stofnuninni. Ekki skortir á verkefnin í þessum málaflokki og ég benti á loforð Samfylkingarinnar um fjölgun á opinberum störfum og líka um áform stjórnvalda að fjölga störfum í byggðarlögum sem að hafa orðið illa úti vegna aflasamdráttar þorsks. Það á svo sannarlega við um Akureyri. Ráðherrann tilkynnti að eitt starf yrði sett á laggirnar í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Ég hvatti hana til dáða og benti á þá dapurlegu staðreynd að hún hefði lagt niður starf forstöðumanns Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar á Akureyri og flutt til höfuðborgarsvæðisins. Einnig hefur Lýðheilsustöð sagt upp samstarfssamningi við Háskólann á Akureyri. Einnig þyrfti að ræða ráðningu forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs, en það verður gert síðar. Þessi ríkisstjórn þarf því, eins og ég hef áður bent á, að girða upp um sig þegar kemur að byggðamálum!


Atvinnumál í Fjallabyggð og Norðurþingi

Ég kom að norðan í nótt að afloknum góðum bæjarstjórnarfundi. Fjallabyggð er eins og aðrar sjávarbyggðir nú á fullu í því að móta sér framtíðarsýn í atvinnumálum og það veitir svo sannarlega ekki af því. Á fundinum afgreiddum við formlega stuðning Fjallabyggðar við álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Það er mikilvægt í máli sem þessu að landsbyggðin standi saman í atvinnuuppbyggingu sem þessari. Mér er það enn í fersku minni, á kjördæmisþingi okkar framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fyrir 3-4 árum, þegar að rætt var um þingsályktunartillögu mína um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð að þá voru það Þingeyingar sem stóðu fast á því að af þessari uppbyggingu yrði. Það mál er nú sem betur fer í augsýn, skólinn mun verða stofnsettur haustið 2009.

En aftur að bæjarstjórnarmálunum. Þær hugmyndir sem nú eru uppi í atvinnumálum eru um margt mjög frumlegar og ljóst að það er ekki neinn uppgjafartónn í Fjöllungum, þrátt fyrir erfiðleika í sjávarútvegi. Nú framundan er samstarf við stjórnvöld um þær hugmyndir sem nú eru uppi. Ég á von á því, miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, að góð samstaða verði á milli Fjallabyggðar og stjórnvalda í þeirri atvinnusköpun sem framundan er. Ég ætla ekki að draga dul á að staðan í atvinnumálum hefur verið mjög erfið á síðustu árum í sveitarfélaginu, það væri blindur maður sem ekki sæi það. En ég er í dag mun bjartsýnni á stöðu mála í Fjallabyggð enda margt framundan sem getur skapað ný og fjölbreytt störf í sveitarfélaginu.

Þegar kemur að þessum málum er mikilvægt að stjórnmálamenn rífi sig upp úr hinu hefðbundna þrasi dægurstjórnmálanna og standi saman að þeim verkefnum sem nú þarfnast úrlausnar. Slík samstaða er forsenda þess að vel takist til að mínu mati. Þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig að málum mun reiða fram á næstunni.


Nokkur dæmi um hugsjónir ríkisstjórnarinnar

Nokkur dæmi um hugsjónir ríkisstjórnarinnar: 

  • Sjálfstæðismenn vilja leggja starfsemi Íbúðalánasjóðs niður í núverandi mynd.
  • Nú hefur verið ákveðið að leggja niður starfstöðvar Fasteignamats ríkisins á Egilsstöðum og í Borgarnesi.
  • Staða forstöðumanns Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar var flutt frá Akureyri til Reykjavíkur.
  • Lýðheilsustofnun hefur sagt upp samstarfssamningi við Háskólann á Akureyri.
  • Ríkisstjórnin er áhugalaus um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.
  • Ekkert bólar á Vaðlaheiðargöngum.
  • Starf þjóðgarðsvarðar við Vatnajökulsþjóðgarðs var auglýst án staðsetningar. Þannig að viðkomandi getur þá allt eins stýrt þjóðgarðinum af höfuðborgarsvæðinu.

Þessar stjórnvaldsákvarðanir koma ofan í þriðjungs niðurskurð á þorskveiðiheimildum (sem var líka stjórnvaldsaðgerð). Í framhaldinu voru tilkynntar mestu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar. Það er reyndar verið að endurskoða þær í augnablikinu, svo máttlausar voru þær nú. En þegar horft er til nokkurra dæma (alls ekki tæmandi listi) þá getur maður spurt sig að því hvað ríkisstjórnin sé að hugsa í byggðamálum???


Fyrirspurnir til menntamálaráðherra á þinginu í dag

Ég spurði Þorgerði í þinginu áðan út í þrjú málefni. Ég spurði að því hvað liði heildarendurskoðun á framfærslugrunni LÍN. Svar ráðherrans var að sú vinna hefði hafist 1. febrúar síðastliðinn. Ég náttúrulega fagnaði þessu og á fastlega von á því að sú endurskoðun muni leiða af sér bætt kjör námsmanna. Að minnsta kosti ef marka má loforð stjórnmálamanna í aðdraganda síðustu kosninga. Í umræðunni benti ég á þá nöturlegu staðreynd að um 700 manns bíða eftir húsnæði á Stúdentagörðunum, stór hluti þess hóps þarf því að leigja sér húsnæði á almennum markaði og allir vita að þar er ekki um neinar smá upphæðir að ræða. Ég tel að margt í framfærslugrunninum þarfnist endurskoðunar við og vonast eftir breytingum sem munu leiða til betri lífskjara námsmanna.

Ég spurði svo ráðherrann út í ókeypis námsbækur við framhaldsskóla. Ekkert bólar á því loforði Samfylkingarinnar. Það er því nú þegar búið að svíkja þau ungmenni sem eru að útskrifast úr framhaldsskólum í vor. Einhver þeirra hafa áreiðanlega kosið Samfylkinguna sérstaklega út af þessu loforði. Samfylkingarfólk sagði nefnilega þessum hópi ungmenna að þetta væri forgangsverkefni sitt, kæmust þau í ríkisstjórn. Það sem kom mér á óvart í umræðunni var að menntamálaráðherra varði Samfylkinguna út í eitt í umræðunni og sagði að ekkert hafi verið svikið af hálfu Samfylkingarinnar. Þó bólar ekkert á ókeypis námsbókum í þetta árið, þrátt fyrir forgang Samfylkingarinnar! En þetta er kannski raunsönn mynd af sambandi ríkisstjórnarflokkanna? Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega reiðubúinn að ganga málefnalega fyrir björg til varnar Samfylkingarinnar. Gat Þorgerður Katrín ekki leyft Samfylkingunni að sitja uppi með þetta vandræðamál?

Ég spurði líka hvort að ráðherrann væri viljugur að beita sér fyrir að á ný yrðu stofnuð heildarsamtök framhaldsskólanemenda, en þau voru lögð niður fyrir tveimur árum. Ég var eitt sinn formaður nemendafélags og man þá tíð að þar voru öflug samtök á ferð sem að stóðu vörð um hagsmuni framhaldsskólanemenda. Í dag eru til Samtök íslenskra framhaldsskólanemenda sem eru hagsmunasamtök nemendafélaga í nokkrum framhaldsskólum. Fram kom hjá Þorgerði að búið væri að gera samning við þessi samtök nemenda. Við lýstum bæði þeim vilja og von okkar að þessi samtök þróist í þá átt að verða heildahagsmunasamtök framhaldsskólanemenda hér á landi. Það væri skref í rétta átt.


Góður dagur í Skagafirðinum

Við Bjarni Harðarson vorum gestir á stjórnmálafundi í gærkvöldi sem ungir framsóknarmenn í Skagafirði stóðu fyrir. Það er alltaf skemmtilegt að koma í Skagafjörðinn og hitta framsóknarfólk þar. Ég var í fjögur ár í námi við Fjölbrautaskóla N-Vestra og þekki því vel til mannlífsins í Skagafirðinum. Enda fengum við Bjarni ekki slæmar móttökur. Á góðu heimili á Króknum var boðið upp á dýrindis saltað hrossakjöt, í feitara laginu, sem er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Það var því á mörkunum að ég hefði verið fundarhæfur að lokinni máltíðinni, svo hraustlega var tekið til matar síns.

Fundurinn var í alla staði mjög góður, umræður hreinskiptar og fjörugar. Það er svo sem ekkert nýtt enda hefur Framsóknarflokkurinn ætíð haft mjög sterka stöðu í Skagafirðinum. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum fékk flokkurinn kjörna fjóra sveitarstjórnarmenn af níu. Margar góðar ábendingar fengum við Bjarni sem við munum hafa með okkur í veganestið og án efa taka eitthvað af þeim upp á vettvangi Alþingis. Sem sagt, mjög góður dagur að baki í Skagafirðinum.


Glæsilegt hjá Ásdísi Jónu!

Ásdís Jóna hafði samband við mig fyrir einhverjum mánuðum síðan og vildi fá upplýsingar um niðurstöðu prófkjörs framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2003. Ég spurði hana svo sem ekki þá hvað hún væri að bardúsa en nú er það komið á daginn. Það er mikil viðurkenning að fá þennan verkefnastyrk sem kemur mér svo sem ekkert á óvart því þarna er á ferðinni mikil hæfileikamanneskja sem ég er ansi hræddur um að eigi eftir að rata enn frekar inn á vettvang stjórnmálanna.

Ásdís Jóna er Siglfirðingur eins og ég, en er því miður ekki í Framsóknarflokknum! Hún var nefnilega í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Hún var reyndar ekki í einu af efstu sætunum en merkti sig þar vel inn og kæmi mér ekki á óvart að hún yrði ofarlega á lista sjálfstæðismanna fyrir næstu Alþingiskosningar. Það verður því hugsanlega mitt verkefni að takast á við hana á þeim vettvangi þá. En hvað um það, innilega til hamingju með þetta Ásdís!


mbl.is Verkefni um árangur kvenna í prófkjörum fær styrk FS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verulegt áhyggjuefni

Endurskoðunarákvæði húsnæðislána bankanna er vissulega mikið áhyggjuefni fyrir lántakendur. Ekki svo að skilja að fólk hafi ekki vitað um ákvæðin í þeim samningum, en staðan er trúlega verri en nokkurn gat órað fyrir. Ef kemur til þeirra hækkana sem sumir aðilar spá þá mun staða margra heimila versna verulega.

Það er því mikilvægt að ríkisstjórnin fari að vakna af fegurðarblundinum en við framsóknarmenn höfum reynt að vekja hina daufgerðu ríkisstjórn allt síðastliðið haust. Mér sýnist að stjórnin sé eitthvað að rumska þessa daganna enda er ástandið graf alvarlegt. Það þarf víðtækt samstarf á milli stjórnvalda og bankanna til að bæta stöðu þeirra í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Það eru nefnilega ekki bara hagsmunir eiganda bankanna að gripið sé til aðgerða. Staða bankanna hefur gríðarlega mikil áhrif á stöðu ríkissjóðs sem og á fjárhagslega stöðu heimilanna í landinu.

Þegar að ég ræði um stöðu ríkissjóðs þá er ástæða til að nefna að útgjaldarammi fjárlaganna hækkaði um tæp 20% á milli ára. Síðan hefur ríkisstjórnin gefið verulega út til að mæta gerð kjarasamninga, þannig að útgjaldaaukningin er ótrúlega mikil á milli ára. Ekki er það til marks um mikinn stöðugleika.


mbl.is Veruleg vaxtahækkun við endurskoðun 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær á að lækka virðisaukaskatt af lyfjum?

Ég beindi fyrirspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í þinginu í morgun um lyfjaverð hér á landi og hvort hann væri reiðubúinn að afnema virðisaukaskatt af lyfjum, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar. Við framsóknarmenn viljum lækka virðisaukaskatt af lyfjum úr 24,5% niður í 7% og ályktuðum í þá veru á síðasta flokksþingi okkar. Því miður þá vildi Guðlaugur ekkert gefa út hvenær að skattar myndu lækka á þá nauðsynjavöru sem lyf eru. Í ljósi nýlegra yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar m.a. um lægri skatta á fyrirtæki þá er ljóst að það er ekki forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að lækka skatta á lyf.

Við framsóknarmenn beittum okkur fyrir því á síðasta kjörtímabili að ná samkomulagi við lyfjaheildsala sem hefur skilað sér í mun lægra lyfjaverði. Nú þarf að halda áfram að lækka lyfjaverðið og árangursríkasta leiðin í þeim efnum er að lækka skattlagningu á þessarar nauðsynjavöru.

Lækkun virðisaukaskatts á lyf myndi koma þeim best sem hvað höllustum fæti standa í þjóðfélaginu í dag, sjúkum, öldruðum og öryrkjum. Þessir hópar þurfa því miður að bíða þessarar kjarabótar um óákveðinn tíma. Ég sem hélt að það hefði verið forgangsmál allra flokka að bæta sérstaklega stöðu þessara hópa?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband